08.11.1972
Neðri deild: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vona, að hv. alþm. blandi því ekki saman, sem ég sagði hér um þetta mál og þetta frv., því að málið út af fyrir sig er mál, sem á að athuga mjög gaumgæfilega og með rólegheitum. Frv. sem slíkt er ekkert merkilegt mál. Í því felast og ýmsar mjög áberandi veilur, eins og ég veit, að hv. 1. þm. Sunnl. gerði sér grein fyrir, ef hann skoðaði það gaumgæfilega. Ég er á því, að þegar n. sú, sem hér er rætt um, væri búin að afgreiða málið, mundi samsölustjórn eða samlagsstjórn á viðkomandi svæði ekki vera talin viðsýn, ef hún teldi þá, þrátt fyrir einróma meðmæli eða meirihlutameðmæli þessarar n., ekki fært að leyfa þessari verzlun að verzla með mjólkina, t.d. af fjárhagsatriðum eða slíku. Það held ég, að mundi ekki verða talin heppileg framkvæmd á máli.

Annars vil ég segja það, að það var upphafið á ræðu hv. 9. landsk, þm., sem sannaði mér betur en kannske mín eigin orð og það, sem ég hafði áður um þetta hugsað, hvað þetta skipulag hefur raunverulega reynzt vel, verið sterkt og farsælt. Hann sagði: Hugsið ykkur það, að þetta skipulag er búið að vera nærri fjóra áratugi á tímum slíkra breytinga, sem nú hafa orðið. — Þetta er rétt. Og hugsið ykkur annað. Haldið þið, að hv. 1. þm. Sunnl. hefði setið í 12 ár í sæti landbrh. og ekkert aðhafzt í þessu máli, ef um ófremdarástand væri að ræða í þessu skipulagi? Er nokkur, sem vill halda því fram, að hv. 1. þm. Sunnl. mundi standa svo illa að máli? Ég leyfi mér ekki að gera það, og hef ég samt ekki alltaf talið, að hann færi með mál svo sem vera ætti. En þetta sýnir betur en nokkuð annað, að þrátt fyrir breytingar, sem hafa orðið hér í stjórnmálum og störfum landbrh., þá hefur þetta skipulag haldizt og þróazt eðlilega. (Gripið fram í: Einokunarverslunin stóð líka lengi, eins og þið þekkið.) Já, ég vona, að hv. 1. þm. Sunnl. hafi ekki sjónarmíð einokunarmanna. Hann hafði a.m.k. það skipulag við að búa í þingræðis- og lýðræðislandi, að hann þurfti þess vegna ekki að standa aðgerðarlaus í málinu. Það var annað, þegar við vorum að berjast við danska einokunarkaupmenn og konunga. Þeir tímar eru liðnir, og það er ekki það, sem um er að ræða hjá okkur núna, og engin jafnaðarmerki hægt að setja þar á milli. En ég skal nú ekki fara lengra út í það. Ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég ætlaði mér ekki að taka þátt í neinum stórdeilum um málið, því að þetta er alvörumál, sem þarf að vinna vel og skipulega að, eins og forustumenn bændasamtakanna hafa gert með miklum sóma.

Það, sem er aðalatriði, er þetta tvennt, að hollustuhættirnir séu fullkomnir og dreifingin sé eins ódýr og hægt er. Það eru þessi tvö atriði, sem þarf að láta skoða, og ég er reiðubúinn til þess að láta kanna málið á þeim grundvelli.

Hv. 1. þm. Sunnl. var að tala um það, að ég væri ekki búinn að skipa neina n. í þetta. Það er nú svo með okkar ágætu nefndir, eins og fleira, að þær eru allar góðar út af fyrir sig, en þegar þær koma með í nefndarskýrslu, þá eru þær slæmar, kosta þá sitt. Ástæðan fyrir því, að ég hef ekki sett nefnd í þetta mál, er sú, að ég hef verið með önnur stórmál í landbúnaði í athugun, og það er ekki heppilegt að vera með allt of mikið af slíkum stórmálum í gangi samtímis. Lengi vel var ég að hugsa um að taka þessa athugun inn í heildarendurskoðun framleiðsluráðslaganna. En að athuguðu máli hef ég horfið frá því til þess að reyna að ná sæmilegri samstöðu um það. Ég álít, að hér sé um mjög mikið alvörumál að ræða og það megi ekki gefa þarna of lausan tauminn, ef við eigum að halda dreifingarkostnaðinum í skefjum, svo sem við höfum gert til þessa, og viðhalda þeim hollustuháftum, sem við höfum keppt að.

Ég skal lýsa því fúslega yfir, að mér kemur ekki til hugar að skipa n. með þeim hætti, að hún sé einsýn, skipuð fulltrúum frá öðrum aðilanum. Það hefur mér aldrei dottið í hug. Þá teldi ég ekki, að ég væri að vinna málinu gagn. Í þeirri n., sem ég kann að skipa, mundu því bæði sjónarmiðin fá að njóta sín, því að frá mínum bæjardyrum séð er hér um alvörumál að ræða, sem þarf að endurskoða, hvort hægt er að koma betur fyrir en nú er eða hvernig þróunin á að vera í þessu. Ég álít, að það hafi verið haldið mjög vel á málinu, en það megi hins vegar alltaf betur gera og sérstaklega laga það að breyttum tímum. Ég lít ekki neitt svipuðum augum á það, hvort mjólkursalan færist inn í nýja, fallega og vel uppbyggða kjörbúð eða í smáholur hér og þar. Það er ekkert sambærilegt frá mínum bæjardyrum séð. Það verður að vera okkar höfuðatriði, að við förum ekki að dreifa þessum vörum út í allar verzlanir, því að þá missum við alveg taumhaldið á kostnaðinum. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, hvað við erum næm fyrir kostnaði á mjólk og mjólkurvörum. Þess vegna verður allt að miðast við það, sem ég sagði hér í upphafi, að halda þessu tvennu, hreinlætinu og heilbrigðiseftirlitinu í fullkomnasta lagi og kostnaðurinn verði sem allra minnstur. En við skulum vera sanngjarnir í meðferð þessa máls og hagnýta okkur það skipulag, sem við höfum búið við, og það skal ég taka til athugunar.