09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

35. mál, nýting orkulinda til raforkuframleiðslu

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það má virðast óþarft í sölum Alþ. að minna á þær gífurlegu framfarir, sem orðið hafa á undanförnum áratugum. Það er að vísu staðreynd, að tækni og vísindi hafa verið meginfrumhvati þessara framfara, en engu að síður er það svo, að samkomur eins og Alþ., löggjafarsamkomur, hafa átt þar mikilvægan þátt. Þar hefur hinn lagalegi grundvöllur yfirleitt verið lagður, þar hefur fjármálagrundvöllurinn oft verið tryggður, og þar hefur oft verið ákveðin þátttaka hins opinbera, sem riðið hefur baggamuninn í mörgum tilfellum, ekki sízt í litlum löndum eins og okkar. En staðreyndin er sú, að við gefum okkur sjaldan tækifæri til þess að líta til baka og athuga, hve miklar framfarirnar hafa í raun og veru verið. Að vísu heyrist annað slagið eldri maður lýsa þessu í einstökum tilfellum, t.d. að mikill sé orðinn munurinn á samgöngum, frá því að hann var ungur, þegar tók nokkra daga að fara á milli landshluta, sem nú er farið ofar skýjum á nokkrum mínútum að kalla má.

Ég er ekki að áfellast neinn fyrir þetta. Staðreyndin er sú, að við Íslendingar og tugir millj. manna í vestrænum heimi bjuggu við örbirgð fyrir örfáum árum. Það var skortur á flestum sviðum, e.t.v. engu minni en hann er enn á suðurhveli jarðar hjá meiri hluta íbúa þessa heims. Menn eygðu raunar varla fyrr en um síðustu heimsstyrjöld möguleika til þess að komast frá þessum skorti, og það er eðlilegt, að menn gripu það tækifæri, gerðu hagvöxtinn að meginmarkmiði sínu og hafi gefið sér lítinn tíma til þess að staldra við og líta til baka. En staðreyndin er sú, að gífurlega mikið hefur áunnizt. Nú má heita, að allir einstaklingar í vestrænum löndum njóti efnahagslegs sjálfstæðis, og þar sem var búið í moldarkofum fyrir nokkrum áratugum, eru nú alls staðar hin beztu híbýli. Þar sem áður var skortur á allri heilbrigðisþjónustu og sjúkdómar voru fyrir hvers manns dyrum, hefur verið bætt svo úr, að mjög gott má heita, og þótt eitthvað bjáti á, þá er ekki hætta á því, að hungur berji að dyrum.

En þó að við höfum lítið hugsað um þetta út af fyrir sig, þá hygg ég, að menn hafi jafnvel enn minna hugsað um þá aðra staðreynd, að hraði þessarar þróunar hefur farið stöðugt vaxandi með hverju árinu. Það hefur verið fullyrt, að hver uppgötvun leiði af sér sjö aðrar, og þessari staðreynd hefur verið lýst, t.d. af hinum þekkta heimspekingi og náttúrufræðingi Jullan Huxley, með þeim orðum, að hraði þróunarinnar sé hundraðþúsundfallt meiri nú en hann var á forsögulegum tíma. En e.t.v. lýsir það þessari staðreynd enn betur, að þjóðarframleiðsla mæld á hvern íbúa í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París hefur tvöfaldazt á undanförnum 15 árum. Það þýðir m.ö.o., að það hefur verið eins mikið framleitt á síðustu 15 árum og frá upphafi áður. Þetta þýðir jafnframt, að ef svo heldur áfram, þá 32-faldast framleiðslan á 75 árum, einni mannsævi.

En þó að við höfum gert lítið að því að líta yfir það, sem áunnizt hefur, er það þó svo, að ýmsum verður lítið fram í tímann, og e.t.v. er það eins konar meðfædd forvitni mannsins, sem því veldur. Og það er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig sú vísindagrein, sem nú er nefnd framtíðarvísindi, hefur þróazt. Í upphafi er þetta nánast að lita í krystalskúlu og spá í það, sem framundan er, en smám saman eru hin fullkomnustu tæki og tækni tekin í þjónustu þessara vísinda, t.d. tölvan, og aðferðir þróaðar til þess að komast sem næst því, sem er alllangt fram undan, e.t.v. nokkra áratugi, og oft miðað þá við árið 2000. Frá þessu stigi framtíðarvísinda eigum við mikil og merk rit, eins og Heimurinn árið 2000, eða fyrir einstakar þjóðir bók um Svíþjóð árið 2000 og margt fleira. En það einkennir alla þessa spádóma eða þessi verk, að það er aðeins reynt að gera sér grein fyrir því, hvernig muni verða, ef áfram haldi á þeirri sömu braut og verið hefur. Og þarna sjáum við þann furðuheim, sem þessir menn telja, að geti orðið framundan, heim tölvunnar, sem er ekki aðeins orðinn þjónn mannsins, heldur nánast herra, og þar sem þjóðarframleiðsla er orðin svo mikil. að það borgar sig vart að láta mikinn hluta fólksins vinna, og svo mætti lengi telja.

Það er engin furða, þótt aðrir hafi þá farið að hugsa til þess, hvort grundvöllurinn fyrir þessari þróun sé í raun og veru fyrir hendi, og þannig fáum við það, sem mætti nefna annan áfanga þessarar framtíðarvísinda. Margt hefur einnig birzt frá slíkum athugunum, og einna mest hefur verið umrædd athugun vísindamanna við tækniháskólann í Boston í Bandaríkjunum, sem nefna mætti á íslenzku takmörkun á vexti. Þeir komast að æði skuggalegri niðurstöðu. Á þeirri forsendu, að mannfjöldi tvöfaldist fyrir aldamótin, eins og allt bendir til, spá þeir því, — og fer þar ekkert á milli mála í þeirra spádómum, — að ef ekki verði gjörbreytt um stefnu á næstunni, verði hlutir eins og orkulindir allar og þar með kjarnorkan uppurinn í kringum 2050, gróðurland allt notað um svipað leyti og raunar bíði mannsins ekkert annað en hrun, í örfáum orðum sagt.

Sem von er, hafa ýmsir orðið til þess að mótmæla þessum niðurstöðum og mikið verið um það rætt og skrifað. Það einkennir flesta þeirra, sem þessu mótmæla, að þeir binda næstum því takmarkalausar vonir við mátt vísindanna. Þeir treysta því, að vetnisorkan verði leyst úr læðingi og þannig fáist nálægt því ótakmörkuð orka fyrir mannkynið, sem geri mannkyninu kleift að gera hina furðulegustu hluti, vinna málma úr grjóti, — grjóti, sem er fátækt að málmum, á ég við að sjálfsögðu, — og fleira mætti nefna, en ég ætla ekki að lengja mál mitt með því.

Án þess að ég sé nokkur sérfræðingur á þessa hluti, þá hygg ég þó, að fullyrða megi, að flestir, sem um þá hafa fjallað, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að staðreyndirnar liggi einhvers staðar þarna mitt á milli. Ég hygg, að flestir, sem hafa lítið á þetta með alvöru, telji, að það sé nauðsynleg stefnubreyting og það fyrr en síðar. Og það er fyrst og fremst þetta atriði, sem ég vil vekja athygli á hér og leggja áherzlu á með þessum inngangsorðum mínum.

Í framhaldi af þessu, sem ég hef nú rakið og kalla framtíðarvísindi, hefur jafnframt þróazt enn eitt stig þeirrar greinar, þar sem reynt er að gera sér grein fyrir því, hvernig sá heimur á að vera, sem við viljum byggja eftir nokkra áratugi. Í því sambandi er sérstaklega lögð áherzla á það, að ekki er ráð nema í tíma sé tekið, því að hraði þróunar er svo mikill, að mistök nú geta valdið óviðráðanlegum vandræðum eftir nokkra áratugi. Það er svipað og með bifreið, sem fer á vaxandi hraða niður brekku. Þar er ekki heldur ráð, nema í tíma sé tekið.

Ég hef oft hugleitt, að það væri vissulega þess virði fyrir okkur Íslendinga að gera eins konar framtíðarspá fyrir þetta land og þar væri farið gegnum öll þau stig, sem ég hef nú talið, bæði fyrsta stig, sem mætti nefna að gera sér grein fyrir því, hver þróunin verður með óbreyttri stefnu, gera sér grein fyrir því, hvernig þróunin gæti verið, og í þriðja lagi að gera sér grein fyrir því, hvernig við viljum, að þróunin verði. Það tvennt, sem ég nefndi fyrst, er fyrst og fremst verkefni þessara vísinda, en það síðasta, að gera sér grein fyrir því, hvernig við viljum, að þróunin verði, er stefnumörkun og að sjálfsögðu fyrst og fremst verkefni stjórnmálamanna. En ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að þær athyglisverðu aðferðir, sem nú er verið að prófa í þessu sambandi, séu varla orðnar nægilega þróaðar til þess, að unnt sé að ráðast í slíkt verk. Þó eru ekki allir sammála þessu, og staðreyndin er sú, að við merkar vísindastofnanir erlendis er einmitt unnið að svipuðum verkefnum og þá oft langtum flóknari dæmi en það, sem okkar íslenzka þjóðfélag yrði. Það er jafnframt ljóst, að á einstökum sviðum er orðin brýn nauðsyn fyrir okkur að líta svona á málið langt fram í tímann. Við getum lítið á sjávarútveginn. Við erum að tala þar um mikilvægi friðunar og það jafnvel róttækrar friðunar. Ég hygg, að menn séu nokkuð sammála um, að þarna verður að líta langt fram í tímann og gera þær ákvarðanir í dag, sem gera fiskistofnunum kleift að endurnýjast og verða aftur sá öflugi grundvöllur áframhaldandi hagvaxtar hér, sem þeir hafa verið. Ég held, að mönnum sé það einnig ljóst, að gæta verður varúðar í landbúnaði, t.d. í sambandi við beit, þar sem unnið er athyglisvert starf að reyna að meta, hvert beitarþol er, og alveg ljóst, að við hljótum að verða að miða okkar sauðfjárrækt við niðurstöður af slíkum athugunum. Þannig mætti nefna fjölmargt. Við höfum þegar gert athyglisvert átak á sviði náttúruverndar, þar sem unnið er nú ötullega að því að líta langt fram í tímann og varðveita ýmis undur okkar náttúru og dásemdir fyrir komandi kynslóðir. Þar er reynt að tengja ýmsar framkvæmdir þessu sjónarmiði. En það atriði, sem sérstaklega er tekið fyrir í till. til þál. á þskj. 37, fjallar um ekkert af þessu, fjallar hins vegar um áætlun um nýtingu íslenzkra orkulinda til raforkuframleiðslu, og hef ég leyft mér að leggja þessa þáltill. fram ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni og Bjarna Guðnasyni.

Mun ég þá snúa mér að vatnsaflinu og öðrum orkulindum, sem beint koma við þessari þáltill., en ég vildi rekja þennan aðdraganda til þess að gera mönnum grein fyrir því, að málið er í raun og veru langtum víðtækara og full þörf á, að það sé tekið sem slíkt og það fyrr en síðar, þótt ég hafi ekki treyst mér til þess að hreyfa því á hinu háa Alþ. þannig nú.

Það er talið, að virkjanlegt vatnsafl hér á landi sé um 31–35 þús. Gwst. á ári hverju. En eins og hv. þm. vonandi vita, er Gwst. eða kwst. margfeldið af aflinu og klukkutímanum, sem það nýtist, en þetta samsvarar um það bil 4000 megawöttum að afli. Langstærst af þessum virkjanlegu svæðum er Þjórsársvæðið eða um 30% af þessari orku, Hvítársvæðið er um 13%, Jökulsá á Fjöllum og það svæði í kringum 12% og Jökulsá á Brú um 13%. En samtals er talið, að séu um 36 staðir með orku yfir 200 Gwst., og samsvarar það um 86% af því afli, sem talið er virkjanlegt. Nú nýtum við um það bil 7% af þessari orku.

Í ágúst árið 1969 lagði Orkustofnun fram mjög athyglisverða áætlun, rannsóknaáætlun um forrannsóknir á vatnsorku Íslands, og skyldu þær framkvæmdar á árunum 1970–1974. Ég vil taka það fram, áður en ég ræði nánar um þetta merkilega rit og áætlun, að hún er að mínu viti til fyrirmyndar, og væri betur, að aðrar íslenzkar rannsóknarstofnanir gerðu svipaðar áætlanir um starfsemi sína, eins og raunar hefur komið fram nýlega í umr. hér um Hafrannsóknastofnunina. Í þessari áætlunargerð er gert ráð fyrir því að framkvæma forrannsóknir á 77% af þeirri orku allri, sem ég nefndi áðan, eða á um 27 þús. Gwst. Í áætluninni er farið fram á 224 millj. kr. í þessu skyni, og skiptist það nokkurn veginn á 4 ár. Eins og ég hef sagt, er þetta lofsverð viðleitni og sjálfsögð skylda okkar að athuga þessi svæði. Svæðin eru fyrst og fremst, auk þeirra, sem ég nefndi áðan, Þjórsársvæðið og Hvítársvæðið, Mývatnssvæðið eða efri hluti Laxár, Austurlandsvirkjun, sem nefnd er, en það er samnefni fyrir árnar á Norðausturlandi, sem hugmyndin hefur verið að veita austur á bóginn til Fljótsdalshéraðs og virkja í einu miklu falli. En það, sem er sérstaklega athyglisvert í þessari rannsóknaáætlun, felst að mínu viti í þeim markmiðum, sem þar eru sett fram. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með orðinu „forrannsóknir“ í þessari áætlun er átt við öflun allra þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru til að segja með vissu til um eftirtalin atriði:

1. Hvort virkjun er tæknilega framkvæmanleg.

2. Hvort virkjun er efnahagslega gerleg, þ.e. hvort orkukostnaður hennar liggur innan þeirra marka, að til greina komi að ráðast í hana af efnahagslegum ástæðum.

3. Hver orkukostnaður virkjunarinnar er hér um bil“.

Þessi eru markmiðin, og eins og menn munu taka eftir, er hvergi í þessum markmiðum minnzt á áhrif virkjana á umhverfið og þau miklu lífsgæði, sem umhverfinu eru tengd. Þetta er e.t.v. táknrænt fyrir þá staðreynd, hve litlar breytingar hafa orðið í hugum manna um lífskjör og lífsgæði. Árið 1969 er gerð svona ýtarleg rannsóknaáætlun og ekki minnzt einu orði á þennan mikilvæga þátt. Það er einmitt af þessari ástæðu og með tilliti til þeirra gerbreyttu viðhorfa, sem nú eru orðin, að við flm. þessarar þáltill. töldum rétt og skylt að hreyfa þessu máli á hinu háa Alþ. og leggja til, að breyting verði á slíkri áætlun gerð. Ég vil einnig leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa úr þessari skýrslu annað, sem lýsir einnig nokkuð markmiðunum. Þar segir:

„Spurningin um það, hvort ljúka skuli forrannsókn þeirra 27 þús. Gwst. á ári, sem hér um ræðir, á næstu 5 árum eða ekki, jafngildir í rauninni spurningunni um hitt., hvort þjóðin ætli sér að vera búin að nýta þessa orku á næstu 20 árum eða í kringum 1990.“

Ég vil taka það fram, að á einum stað í þessari skýrslu hef ég að vísu rekizt á umhverfisatriði. Þess er getið þar, að unnt muni vera að virkja Gullfoss, án þess að sjáist, en það virðist allt vera gert með tilliti til ferðamannsins, sem kemur þar að sumri til, og er góðra gjalda vert, en nær ekki nema skammt. Ég vil enn leggja á það áherzlu, að ég er alls ekki að áfellast þá ágætu sérfræðinga, sem þessa áætlun gerðu og mættu verða öðrum til fyrirmyndar. Staðreyndin er aðeins sú, að hana þarf að endurskoða. Í samræmi við þann tíðaranda, sem var, þegar skýrslan var gerð, eru settar fram í skýrslunni mjög athyglisverðar hugmyndir um hámarksnýtingu vatnsafls. Í skýrslunni er t.d. sett fram hugmyndin um hámarksnýtingu Efri-Laxár, sem hefur leitt til slíkrar deilu, að varla eru dæmi um annað eins. Í skýrslunni er einnig sett fram hugmyndin um að leggja öll Þjórsárver undir vatn, og hefur það einnig valdið deilum og er nú í ítarlegri athugun. Í skýrslunni eru einnig settar fram hugmyndir um að veita Skaftá vestur á bóginn í Tungnaá og eins og ég nefndi áðan að veita jökulvötnunum í Norðurl. e. öllum austur á Fljótsdalshérað. Allir menn sjá, að slíkar stórkostlegar framkvæmdir hljóta að hafa mjög mikil áhrif á umhverfið. Vistfræðileg áhrif þeirra, eins og nú er talað um, hljóta að vera gífurleg. Að viti okkar flm. þessarar þáltill. ber því að leggja það sjónarmið til grundvallar, líklega á undan öllu öðru, þegar slíkar athuganir og rannsóknir eru gerðar.

Ég er satt að segja sannfærður um það, að nýtanlegt vatnsafl á okkar landi er hvergi nærri þeirri tölu, sem nefnd hefur verið, 30–35 þús. Gwst. Ég er sannfærður um, að áhrif þessara nýju sjónarmiða munu verða mjög mikil, eru þegar komin í ljós við Laxá, þau munu fljótlega koma í ljós við Þjórsá, því að ég tel mjög ólíklegt, að samþykkt verði að leggja Þjórsárver öll undir vatn, og það mun hafa afar mikil áhrif á orkuframleiðslu Þjórsár allrar niður úr.

Í þáltill. vekjum við einnig athygli á því, að skoða þurfi háhitasvæðin. Þau eru einnig verðmæt orkulind. Það hefur einnig verið gerð athyglisverð áætlun um rannsókn háhitasvæða frá sömu stofnun, mjög fróðlegt skjal. Ég ætla ekki að fara eins ýtarlega út í það, en vil aðeins geta þess hér, að jarðhitasvæðin á landinu eru talin um 250 lághitasvæði, en 16 háhitasvæði, og það eru fyrst og fremst háhitasvæðin, sem eru mikilvæg í þessu sambandi. Af háhitasvæðunum er langsamlega stærst Torfajökulssvæðið, líklega fimmfalt stærra en næstu svæði, eins og Hengilssvæðið og Krýsuvíkursvæðið. Það er ekki fyllilega ljóst, hve mikil orka er í þessum svæðum. Hún er venjulega mæld í hundruðum millj. tonna af olíu eða samsvarandi. En ljóst er, að ef hún er notuð til raforkuframleiðslu, skiptir hún nokkrum þúsundum Gwst., og er það mikið, þótt ekki nálgist það þó það, sem vatnsorkan er talin geta gefið okkur. Þetta er því afar mikilvægur orkugjafi og sjálfsagt, að nýting hans sé felld inn í heildarmynd og áætlun um virkjanir og notkun raforku með okkar þjóð. Það er t.d. ekki ólíklegt, að slík orkuver, sem oft eru minni en vatnsaflsorkuverin, kosta oft minna í stofnkostnaði, geti mjög vel fyllt upp í á milli hinna stærri vatnsorkuvera. Við teljum því nauðsynlegt, eins og ég hef sagt, að litið sé á þetta í fullu samhengi með öðru og það sé tekið með í þeirri almennu áætlun, sem gera ber.

Ég hef lagt á það áherzlu, að ný sjónarmið valda því, að endurskoða verður þessar rannsóknaáætlanir. Ég hef getið þess, að vistfræðileg sjónarmið, sem svo eru nefnd, eru þar ofarlega á baugi. Slík sjónarmið eru að sjálfsögðu einn liður í breyttu viðhorfi mannsins til lífskjara og lífsgæða, að sjálfsögðu einn þáttur í tíðum spurningum manna um það, sem framundan á og þarf að vera, spurningum eins og þeim, sem gerast stöðugt ásæknari, hvort hagvöxturinn eða efnahagsgrundvöllurinn einn sé hið eðlilega markmið, hvort ekki séu aðrir þættir, sem eru ekki siður mikilvægir í lífsgæðum manna. Og ég hygg, að flestir séu raunar orðnir sammála um, að svo sé. Virkjanir hafa veruleg áhrif a.m.k. á þennan þátt í lífsgæðabaráttunni, ef ég má kalla það svo, þ.e.a.s. hinn vistfræðilega.

Það er einnig viðurkennt af fleirum, hygg ég, nú en nokkru sinni fyrr, að skynsamleg búseta í þessu landi er eitt af okkar stóru viðfangsefnum. Það var sagt nýlega í mín eyru, að þetta væri líklega stærra viðfangsefni heldur en bæði landhelgismálið og efnahagsvandræðin til samans, og það má vel vera, að svo sé. Ég hugsa, að það sé rétt, sem sagt hefur verið, að við byggjum aldrei þessa eyju, ef við gerum hana að einu borgarríki hér á Suðvesturlandi, sama hvort landhelgin er færð út eða færð út ekki. Við, sem flytjum þessa þáltill., erum því þeirrar skoðunar, að þessi búsetusjónarmið verði einnig að taka með í reikninginn, þegar áætlanir eru gerðar um virkjanir fallvatna okkar og annarra orkulinda.

Þá eru fleiri atriði af öðrum toga spunnin, sem hafa veruleg áhrif. Eins og fram kom og ég las úr skýrslunni áðan, er gert ráð fyrir því að nýta allt þetta vatnsafl fyrir 1990, og er þar átt við, að samkeppni frá öðrum orkulindum geti orðið mikil, svo mikil jafnvel að þetta vatns fall verði ekki nýtt síðar, ef nýtingu þess verður ekki hraðað nú. Á þessu hefur orðið mikil breyting. Staðreyndin er sú, að kjarnorkan, sem talin hefur verið mestur keppinauturinn, hefur valdið verulegum vonbrigðum. Hin stóru og miklu kjarnorkuver, sem byggð hafa verið erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, hafa ekki uppfyllt vonir manna. Þau eru yfirleitt rekin með hluta af álagi, og orka frá þeim hefur af ýmsum ástæðum reynzt dýrari en ráð var fyrir gert. Ég hygg því, að flestir séu þeirrar skoðunar, að slík samkeppni sé ekki á næsta leiti. Það er einnig staðreynd, sem ég nefndi áðan, hvort sem menn trúa því eða ekki, að þessar orkulindir verði allar notaðar í kringum 2050, að óðum gengur á þær. Vatnsorkan, sem er góð, er mjög orðin fágæt. T.d. telja Norðmenn, að þeir fullnýti sína vatnsorku á næstu 10–15 árum, og eru nú einmitt að gera svipaða áætlun og hér er lagt til, að gerð verði, um nýtingu þeirrar vatnsorku. Niðurstaðan verður því sú, að allar meginforsendur þeirra rannsóknaáætlana, sem lagðar voru fram í ágúst 1969, eru brostnar þegar á örfáum árum. Og það er að okkar viti skakkt að halda áfram þeirri rannsókn á þeim grundvelli, sem þá var lagður. því leggjum við til, að rannsóknaáætluninni verði breytt.

Eins og fram kemur í þáltill., teljum við upp nokkur atriði, sem okkur virðist, að skoða beri sérstaklega í þessu sambandi, og er það síðan núnar rakið í grg. Ég vil ekki fullyrða, að þessi atriði, séu tæmandi. Það má vel vera, að fleira sé þarna, sem þurfi að lita á. En aðalatriðið er, að á þessi mál verði litið á nýjum og langtum breiðari grundvelli en áður hefur verið.

Eins og ég sagði áðan, hef ég oft hugleitt, hvort ekki væri rétt, að við Íslendingar lítum á framtíð okkar búsetu í þessu landi á mjög breiðum grundvelli og reyndum að gera okkur grein fyrir þeirri þróun, sem verður framundan með óbreyttri stefnu, þeirri, sem gæti orðið framundan, og þeirri, sem ætti að verða framundan, og reyndum þannig að leggja grundvöllinn að heilbrigðri stefnumörkun, m.a. fyrir híð háa Alþingi. Ég lít svo á, að þessi þáltill., sem hér er lögð fram, sé skref í þessa átt og geti auðveldlega fallið inn í víðtækari áætlun, ef ákveðin yrði, og ég fyrir mitt leyti vona, að svo verði fljótlega. Með þessum orðum vil ég, herra forseti, leggja til, að að þessari umr. lokinni verði þáltill. vísað til hv. atvmn.