09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

35. mál, nýting orkulinda til raforkuframleiðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Á bls. 8 í lítilli bók, sem hæstv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, setti landsmönnum fyrir að lesa mjög oft fyrir alllöngu og ég ætla, að hv. alþm. kunni nú orðið talsvert í, segir m.a. um fyrirætlanir vinstri stjórnarinnar á þessa leið: „Rannsóknastörf og vísindi verði efld og tengd áætlunum um þjóðfélagsþróun.“ Og þremur línum neðar kemur fyrirheit um að stuðla að „breyttu gildismati á þann veg, að til hinna eftirsóknarverðustu lífsgæða verði talið hreint og ómengað umhverfi. Við hagnýtingu íslenzkra auðlinda skal kostað kapps um alhliða náttúruvernd, svo að hver þjóðfélagsþegn eigi þess kost að njóta heilbrigðra lífshátta.

Ég er ekki viss um, að margir lesendur þessarar bókar hafi beinlínis hrokkið í kút við lestur þessarar alþýðlegu yfirlýsingar, sem geymir þó í sér fyrirheit um algjör stakkaskipti pólitískrar hugsunar í þessu landi, hvorki meira né minna. Við þremenningarnir, sem stöndum að till. þeirri til þál., sem hér um ræðir, um gerð áætlunar um nýtingu íslenzkra orkulinda með tilliti til vistfræðilegra sjónarmiða og búsetusjónarmiða í vissum, pólitískum skilningi, skírskotum nú til þessarar hógværu stefnuyfirlýsingar í sáttmála samsteypustjórnar Ólafs Jóhannessonar, er við leggjum til við hv. Alþ., að hraðað verði framkvæmdum á þessu sviði. Fyrsti flm. till., Steingrímur Hermannsson, hefur gert grein fyrir því í framsöguræðu sinni, hví flm. miða till. sína við áætlun um nýtingu orkulinda landsins og þá fyrst og fremst vatnsafls. Ég er honum samdóma um, að æskilegt sé að byrja vistfræðilegar rannsóknir á þessu sviði, og liggja til þess þrjár ástæður öðru fremur.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða mestu auðlindir landsins næstar á eftir frjósemi sjávar á landgrunninu. Í öðru lagi er þegar hafin mjög umfangsmikil og kostnaðarsöm áætlunargerð, tæknileg og hagfræðileg, um nýtingu þessara auðlinda, án þess að áætlunargerðin nái til ítarlegra vistfræðilegra sjónarmiða. Í þriðja lagi hefur þegar skorizt í odda milli landsmanna út af þessum málum, svo að við hefur legið pólitískri borgarastyrjöld. Okkur flm. er öllum ljóst, að vistfræðileg og vistpólitísk sjónarmið eiga ekki að koma til álita aðeins í þessum málum, heldur öllum þeim, sem varða meiri háttar framkvæmdir í landinu, og endurskoða þarf margar ráðstafanir frá fyrri dögum, sem reynzt hafa óheppilegar og sumar stórskaðlegar frá vistfræðilegu sjónarmiði. Að þeim vík ég seinna í ræðunni, en framangreindar ástæður liggja sem sagt til þess, að við höfum miðað till. okkar um áætlunargerð við nýtingu orkulinda.

Iðnrh. Magnús Kjartansson hefur fyrir skemmstu gert grein fyrir hugmyndum sínum um iðnþróun hér á landi á næstu árum, byggðum á niðurstöðum bráðabirgðaathugana, tæknilegra og hagfræðilegra. Sjálfur mun ráðh. hafa á prjónunum áætlanir um vistfræðilegar, pólitískar athuganir, sem lagðar verði til grundvallar þeirri iðnþróunaráætlun, sem gerð verður, og kynni þá svo að fara, að ónefndum aðilum þætti sú áætlun taka að líkjast öðru meir en skrautsýningu á stélfjöðrum hv. 1. þm. Reykv., því að þar yrði stefnt að vistfræðilegri áætlunargerð um búsetu á Íslandi í anda græna sósíalismans eða grænu félagshyggjunnar, og við notum heldur það heiti, sem fleirum kann að verða að skapi.

Nú treysti ég mér að vísu ekki til að uppfræða hv. þingheim í vistfræði, fyrst og fremst vegna þess, að ég hef alls ekki til að bera þá þekkingu, sem til slíks þyrfti, en líka vegna þess, að ég hef óljósan grun, að ég ekki kalli það beinlínis ugg um, að ýmsir hv. þm, séu ekki haldnir knýjandi þörf til að meðtaka nýja vitneskju innan þykkra veggja þessa virðulega húss yfirleitt. Samt verð ég að gera tilraun til þess að auðvelda mönnum skilning á því, sem fyrir flm. vakir með þessum till., og þá helzt með því að skilgreina hugtökin vistfræði og vistpólitík, sem bæði hafa sprottið upp úr rökræðum um nýtt og furðuvinsælt viðfangsefni, sem nefnist umhverfisvernd og er orðið tízkuorð meðal ríkra þjóða, sem þykjast nú hafa bægt hungurvofunni frá dyrum sínum í eitt skipti fyrir öllu. En á þeim þjóðum brennur eldurinn nú heitastur, því að þær hafa gengið svo á auðlindir náttúrunnar heima hjá sér og á unaðssemdir hennar til þess að skapa sér allsnægtir, að þar stappar nú nærri gereyðingu ýmissa þeirra verðmæta, sem gera söddum manni lífið þess virði að lifa því.

Fram til skamms tíma snérust orðræður hinna söddu manna um umhverfismál eigi að síður nær eingöngu um verndun fagurs og sérkennilegs landslags. Það var ekki fyrr en tók að skerðast um sjálft andrúmsloftið og drykkjarvatnið, að menn fóru að gera sér grein fyrir því að marki, að líta varð á hin ýmsu og aðkallandi vandamál umhverfisverndar í miklu víðara samhengi en því, sem við auganu blasir. Það var raunar ekki fyrr en fyrir 5 árum, þegar menn komust að því, að eiturgufurnar yfir Los Angeles, New York og Chicago mundu verða öllu lífi banvænar innan 15 ára eða svo, ef svo héldi áfram sem horfði. Eftir að Heyerdahl kunngerði athuganir sínar á mengun Atlantshafsins og eftir að félagsfræðilegar rannsóknir höfðu leitt í ljós, að það var ónáttúrulegt umhverfi og kvöl neyzlusamfélagsins, sem olli hraðvaxandi glæpahneigð meðal ríkra þjóða, þá fóru menn að átta sig á því, að umhverfi mannsins yrði ekki borgið með einni saman hugarfarsbreytingu einstaklinga, heldur væru umhverfisvandamálin pólitísk vandamál, sem stæðu, eins og öll önnur pólitísk vandamál, í tengslum við stjórn eða óstjórn efnahagsmála samfélagsins. Upp úr þeim skilningi hafa rökræðurnar um vandamálin, vandamál umhverfisins, getið af sér orð eins og vistfræði, vistkreppa, vistpólitík og vistheimspeki. Þetta eru þýðingar á skandinavísku orðunum ökologi, ökokríse, ökopolitik og ökofilosofi. Ef við skilgreinum hugtökin í stuttu máli, þá fjallar vistfræðin um samstarfið í náttúrunni og skýrir tengslin milli lífveranna, að mönnum meðtöldum, 05 umhverfisins. Vistkreppan kemur til sögunnar, þegar skilyrðum fyrir þessu samstarfi hefur verið spillt og tengslin rofin. Hugtakið vistpólitík grundvallast á hinum tveimur og miðar að víðtækari skilgreiningu á samfélaginu út frá vistfræðilegri þekkingu. Grundvöllurinn undir vistpólitískri hugsun, vistfræðin sjálf, stefnir að því að veita heildaryfirsýn yfir vistríki jarðar og fullnaðarskilning á lífsskilyrðum á hnettinum, og má svo hver lá mér það, sem vill. þó að ég treysti mér ekki til þess að flytja tæmandi erindi um vistpólitík. Þó er einfaldur skilningur á merkingu orðsins nauðsynlegur þeim, sem taka vilja afstöðu til þeirrar till., sem hér er nú til umr. um áætlun um nýtingu orkulinda. Séð í víðara samhengi má líka til sanns vegar færa, að sæmilegur skilningur á merkingu þessara nýyrða sé nauðsynlegur hverjum þeim, sem vill taka þátt í umr. um ráðstafanir til þess, að lífvænlegt geti orðið á þessu landi eftir 30 ár. Ef við reynum nú að færa þessum dómadagsorðum stað með því að gera okkur grein fyrir válegum afleiðingum af rangri vistpólitík, sem hefur verið rekin af ríkum þjóðum heims síðustu áratugina, þá verður upptalningin á þessa lund:

2/3 hlutar mannkyns þjást nú af næringarskortir. Í svipinn er ástæðan fyrst og fremst sú, að matvælum heimsins er ekki útbýtt á réttlátan hátt og fjöldi fátækra þjóða er neyddur til að sinna hráefnisöflun handa iðnaði ríkra þjóða í stað þess að vinna við matvælaframleiðslu handa sjálfum sér. Mikill hluti landbúnaðarafurða og sjávarafurða, þar með talin loðnan okkar, sem væri raunar ágætis mannamatur, fer til skepnufóðurs hjá ríkum þjóðum til framleiðslu á lúxuskjöti. Á næstu árum verður svo komið, að matvælin nægðu ekki, þótt þeim væri rétt skipt milli allra. Með núverandi hröðun fólksfjölgunar í heiminum, ef hún heldur áfram, verða íbúarnir orðnir 13 milljarðar um aldamótin, tvöfalt fleiri en nú. Ljóst er, að enda þótt beitt væri öllum tiltækum ráðum til þess að auka matvælaframleiðsluna á þessum tæplega 30 árum, verður hvergi nærri mögulegt að sjá þessum fólksfjölda fyrir næringu, nema því aðeins að hafizt verði handa um endurskipulagningu framleiðslunnar um allan heim nú þegar og ríkar þjóðir taki upp sparnað í stað aukinnar neyzlu. Samkvæmt skýrslum, sem taldar eru áreiðanlegar, um notkun þeirra hráefna, sem mestu máli skipta í nútímaiðnaði, verða flestir nytjamálmar þrotnir innan 30 ára, miðað við sömu hröðun og hefur verið á hagvexti síðustu 10 árin. Járnið er talið munu endast lengst eða 75 ár. Nýtanlegt hráefni til álvinnslu er talið munu endast í 35 ár, sem er íhugunarvert fyrir þá, sem gera vilja áætlanir til langs tíma um fjölgun álvera á landi hér. Brennsluollur munu endast um rösk 20 ár með óbreyttum hagvexti, kol álíka lengi. Það er athyglisverð niðurstaða, þegar tekið er tillit til þess, að vestrænar þjóðir fá 96% af rafmagni sínu úr olíu og kolum, en aðeins 4% frá vatnsaflsog kjarnorkustöðvum.

Nú er að vísu ekki talið alveg víst, að mannkyni endist aldur til þess að yrja upp hráefni jarðar og deyja sultardauða, heldur bendir sumt til þess, að framhald á hagvexti ríkra þjóða leiði til þess, að loft, láð og lögur eitrist áður af úrgangsefnum hins þróttmikla efnahagslífs, svo að öllu æðra lífi á hnettinum og þar á meðal mannlífi verði útrýmt áður. Þetta er kjarninn úr niðurstöðum ítarlegrar athugunar, sem gerð var fyrir skömmu við Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum, svo sem síðasti ræðumaður gat um. Að rannsóknunum vann hópur heimsþekktra vísindamanna frá mörgum löndum undir forustu Bandaríkjamannsins dr. Denis L. Meadows. Niðurstöður þessarar athugunar hafa ekki verið vefengdar í aðalatriðum. Ekki hafa heldur verið vefengdar þær ályktanir vísindamannanna, að meginorsök vistkreppunnar, sem nú ógnar lífi á jörðinni, sé skefjalaus og blind ásókn auðmagns í vexti. Það má svo vera ýmsum hv. þm. nokkur huggun á þessu stigi málsins, að upplýsingar frá Sovétríkjunum benda til þess, að skefjalaus frekja ríkiskapítals orsaki sams konar vistkreppu og skefjalaus frekja einkakapítals. Heiðurinn fyrir hin ótrúlegu hagvaxtarafrek er undantekningarlaust dæmdur til handa hagfræðilegri nýtingu á tækni og þekkingu. Og svo má hver sem vill lá þeim það, Einari á Hvalsnesi og Halldóri E. Sigurðssyni, hæstv. fjmrh., þótt þeir leyfi sér að taka leiðsögn hagfræðinga með nokkurri varið.

Nú kann margur að segja sem svo, að lengi hafi nú mannkynið fíflazt á hnetti þessum og verið spáð illum endi og svo djöfullega geti nú ekki verið komið, að ekki sé þar lífs von lengur en 20–30 ár, þótt enn verði haldið áfram þessu fjöri. Í bókinni The Limits of Grovvth, sem hefur að geyma fyrrnefnda skýrslu vísindamannanna frá MIT, er gömul frönsk gáta ætluð börnum til skýringar á því, með hvaða hætti hröðun þróunar á borð við hagvöxtinn og afleiðingar hans heldur áfram ósköp meinleysíslega allt fram á síðustu stund og virðist ekki hættuleg, fyrr en ógæfan er að skella á. Gátan er svona:

Hugsum okkur, að þú hv. þm., eigir dálitla tjörn við húsið þitt og í henni vaxi vatnalilja. Liljan tvöfaldar stærð sína daglega. Ef hún fengi að halda vexti sínum áfram óhindruð, mundi hún þekja alla tjörnina á 30 dögum og kæfa þar með allt líf í tjörninni. Lengi vel virðist plantan ósköp lítil, svo að þú ákveður að hirða ekki um að skerða hana, fyrr en hún þekur hálfa tjörnina. Á hvaða degi verður það, sem hún þekur hálfa tjörnina?

Svarið er auðvitað: Það er á 29. degi. Þá verður hálf tjörnin enn þá auð. En samt hefur þú ekki nema einn dag upp á að hlaupa til þess að bjarga öllu lífi í tjörninni.

Eðli hins vistfræðilega vandamáls er sem sagt þess háttar, að þótt enn sjái til sólar, er undraskammur tími til þess að bjarga heiminum frá tortímingu. Ýmsir listfræðingar hafa líkt hnettinum við geimskip, gert af yfirskilvitlegum hagleik til þess að nýta orku sólar á hringrásinni um hana og næra á henni líf milljóna mismunandi tegunda, sem hver um sig gegnir svo þýðingarmiklu hlutverki, að hverfi ein þeirra, þá gerbreytist vistríki jarðar í heild, og framtíðin er undir því komin, að jafnvægið milli tegundanna raskist ekki örar en svo, að vistkerfið sjálft hafi undan að lagfæra það á ný, og hvorki efni né orku sé eytt örar en svo, að vélbúnaður geimskipsins sjálfs og vistkerfis þess megni að endurnýja það, sem af er tekið. Það, sem aflaga hefur farið á geimskipinu jörð, er í stuttu máli það, að ein tegund spendýra, homo sapiens, gerði uppreisn gegn vistkerfi sínu, og megininntak hinnar vistfræðilegu kenningar er það, að maðurinn sé í þann veginn að mola niður það kerfi, sem líf hans sjálfs og alls þess, sem hrærist á jörðinni, byggist á. Uppreisnin hófst snemma, svo sem lesa má í sköpunarsögunni. En það var ekki fyrr en við lok síðari heimsstyrjaldarinnar, í minni okkar flestra, sem hér erum staddir, að hvíta manninum auðnast, eins og hann orðar það sjálfur, að ná tökum á sjálfum náttúruöflunum og einangra þann hluta hins sjálfvirka öryggiskerfis vistríkisins, sem fram til þess tíma hafði hamið framgang hans að nokkru. Og fyrst ég er farinn að vitna í ritninguna á annað borð, er bezt að ljúka þessari lauslegu úttekt á vistpólitískum afrekum heimskapítalismans á dæmisögu, sem gamli sóknarpresturinn minn sagði okkur fyrir austan á grundvallarveikleika auðvaldsstefnunnar. Sennilega hefur þetta verið í tilefni af kauphallarhruninu mikla í New York. Hann sagði, að ef fimmeyringur hefði verið lagður á vöxtu árið, sem frelsarinn fæddist og vextirnir verið aðeins 3%, þá væri hann nú orðinn að gullklumpi, sem væri fimm sinnum stærri en jörðin, og þá er hætt við, að þeim þætti nú orðið þröngt um hagbeit í Álftafirðinum. Mér var sagt seinna, að hann hefði lagt út af Lúkasi, 14. kapítula, 28 versi, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Því að hver er sá meðal yðar, sem ætlar að reisa stórhýsi, en sezt ekki niður fyrst og telur fé sitt, hvort hann eigi nóg til að ljúka því?“

Nú vill svo til, að í þessa sömu ritningargrein er vitnað í fyrrnefndri bók, Limit of Growth, á bls. 45, þar sem hún er undurfyrirsögn kaflans um endalok hagvaxtar. Höfundar leggja út af henni, er þeir reyna að svara spurningunni um það, hvers við þurfum með til þess að standa undir framhaldi hagvaxtar í heiminum, þó að ekki sé lengur en til úrsins 2000. Og svarið við þeirri spurningu er einfaldlega, að það, sem með þurfi, verði löngu þrotið fyrir þann tíma, en verkinu verði eigi að síður haldið áfram, þar til allt um þrýtur, vegna þess að hagfræðin hefur fundið upp aðferðir til þess að sneiða hjá svæðisbundnum efnahagskreppum. Staðfestingu á þeim ásetningi að halda áfram, hvað sem það kostar, getur að finna í 2. gr. Rómarsáttmálans, sem er stjórnarskrá Efnahagsbandalags Evrópu. Og þar er ekki vitnað í neinn guðspjallamann, heldur kveðið á um það skýrt og greinilega, að tilgangs bandalagsins sé að efla hinar efnahagslegu framkvæmdir í bandalaginu í heild með óslitnum og tryggum hagvexti. 2. gr. sáttmálans var ítrekuð sérstaklega í Brüssel á dögunum, þegar haldin var hátíð í tilefni af aðild þriggja nýrra ríkja að Efnahagsbandalaginu. Og ef ég leyfi mér svo í lok þessarar svörtu almennu messu að minna á einu vonarneista, fyrsta sigur þeirrar vistpólitísku hreyfingar, sem hefur verið nefnd græna félagshyggjan, þá var það fyrst og fremst vegna hagvaxtarmarkmiðanna án tillits til augljósra afleiðinga, sem frændur okkar Norðmenn höfnuðu aðild að þessu bandalagi fyrir skemmstu, og má hver sem vill kalla þá ástæðu þröng þjóðernisleg sjónarmið. Norðmenn höfnuðu aðild vegna, þess, að þeir vildu halda auðu fyrir hagbeit í Álftafjörðum síns lands. Það var nefnilega ekki alveg út í loftið, sem norska baráttusveitin gegn Efnahagsbandalaginu kallaði sig „Grasrótina“.

En víkjum þá enn að till., sem hér er til umr., og svo að ég noti nú enn ritningargrein Lúkasar, þá er það ætlun flm., að við setjumst nú niður og teljum fram þær einingar raforku, sem við munum hafa til ráðstöfunar í húsi því, sem við ætlum að reisa yfir vistpólitískt samfélag á þessu landi. Vitaskuld hefur hlutdeild okkar Íslendinga í hagvaxtarkapphlaupinu valdið vistpólitískri lemstrun á samfélagi okkar. Bændur hafa líklega sloppið einna bezt vegna þess, hversu illa þeir voru í stakk búnir að taka þátt í kapphlaupinu og neyddust þó til þess.

Ég get sagt ykkur dæmisögu frá árinu 1948 um það, með hvaða hætti íslenzkir bændur neyddust til þess að taka upp ranga vistpólitík í landbúnaði. Þá um vorið var landbn. Alþ. boðið ásamt fréttamönnum upp að Keldum, þar sem Sambandið sýndi fyrsta Ferguson-traktorinn, sem kom til landsins. Ég sat í bíl milli Páls Zóphóníassonar og Sigurðar Guðnasonar upp eftir og man enn eins og það hefði gerzt í gær, hvað Páll sagði, þegar við komum inn að Elliðaánum, og hann sá óshólmana slýgræna standa upp úr á háfjörunni. Hann sneri sér að Sigurði og sagði: „Sérðu þennan gróður, Sigurður. Hann er nákvæmlega eins og þið kommúnistar, veit aldrei, hvort hann á að vera gras eða þari.“ Ég man þetta orðrétt, vegna þess að Páll þurfti að endurtaka þetta mjög oft, vegna þess að Sigurður heyrði aldrei, hvað hann sagði.

Það var Hjalti, sonur Páls, sem sýndi traktorinn, sem allir dásömuðu. Á eftir drukkum við kaffi heima á Keldum og Páll eyðilagði áhrifin af sýningunni með því að segja okkur frá áhrifunum, sem innflutningur þessara dásamlegu tækja mundi hafa á landbúnaðinn. Mig minnir, að traktorinn kostaði þá 16 þús. kr., með nauðsynlegum tækjum 22 þús. Páll sagði, að ekkert einyrkjabú á Íslandi stæði undir þessum kostnaði, hestverkfærin væru það eina, sem nokkur grundvöllur væri fyrir að nota. Svona traktor, sagði Páll, kallar á stærri tún með stærri bústofni, sem aftur kalla á annan traktor, sem enn heimtar stærri tún. Hann sagði, að það sama gilti um stórvirku landbúnaðarvélarnar. Stór skurðgrafa, sem miklir peningar liggja í, heimtar mýri til að ræsa fram. Og þegar svo er komið, þá eru lítil hyggindi eftir í búrekstrinum, sagði hann. Og vitaskuld reyndist Páll sannspár.

Þó er það á sviði landbúnaðar, sem unnið hefur verið nokkurt undirbúningsstarf til vistpólitískrar hagsýslu á þessu landi, og þar á ég við rannsóknina, sem gerð hefur verið á beitarþoli afrétta. Niðurstaðan af henni bendir til þess, að gróðurlendi sé stefnt í voða á hluta hálendisins. Og eins og að líkum lætur þá er það á blómasvæði hagvaxtarins á Suðvesturlandi sem ofheitt er þar sem bændur voru harðast knúnir til að halda í við hið glaða veizlusamfélag Reykjavíkur.

Vistfræðilega hefur vandamál ofbeitar verið útskýrt á eftirfarandi hátt: Þótt aldrei færu Íslendingar beinlínis vel með beitiland sitt, þá laut sauðfjárbúskapur eigi að síður náttúrlegu öryggiskerfi hvað hagagöngu snerti. Í hörðum árum, þegar gróðurlendi afréttanna var viðkvæmast, þá fækkaði líka sauðfénu í landinu og færra var rekið á fjall, Nú, þegar heyskapur er sóttur með vélum á ræktuðu landi og fóðurbætir fæst að auki, er niðurskurður vegna fóðurskorts úr sögunni og hægt að rekja sívaxandi fjölda á fjall ár eftir ár, hvernig sem gróðrinum þar er háttað. Eins og bændur hafa staðið verst að vígi í hagvaxtarkeppninni, eins munu þeir vera fúsastir og bezt búnir til þess að hætta henni og snúa aftur til vistpólitískra starfshátta. Og næsta sumar, skilst mér, að þau undur muni gerast í fyrsta sinn um aldir, að ekki verði rekin hross á Auðkúluheiði.

Það getur orðið okkur nokkru erfiðara að endurskipuleggja sjávarútveg í átt til vistfræðilegrar skynsemi, beinlínis vegna þess, að margfalt fleira fólk byggir afkomu sína á gróinni vistpólitískri fásinnu. Verstöðvarnar á Suðvesturlandi og Reykjavík þar á meðal byggðust upp af fólki, sem réðst þangað til þess að annast fiskidrátt og fiskverkun á hávertíð. Með stækkandi fiskiskipum og loks togurum var svo tekið að sækja fisk á mið, sem áttu að sjá byggðarlögunum á Vestur-, Norður- og Austurlandi fyrir sjófangi. Á seinni stríðsárunum og upp úr þeim voru reist dýr fiskiðjuver á Suðvesturlandi, sem einnig voru miðuð við hámarksafla vertíðar, og fjármagnið, sem í þeim var bundið, kallaði á enn meiri fisk frá öðrum landshlutum á milli vertíða. Í stuttu máli sagt, þá hefur það verið hið óupplýsta fjármagn í fiskiskipum og fiskiðjuverum, sem fram til þessa hefur ráðið nýtingu fiskimiða okkar.

Ef við reynum að gera okkur grein fyrir útlínum nýrrar vistpólitískrar stefnu í fiskveiðimálunum, þá yrði hún sennilega á þá lund, að byggð með ströndunum hafi forgangsrétt að fiskimíðunum hið næsta sér. Sjómaður, sem rær heiman að frá sér að morgni og kemur aftur að kvöldi, njóti forréttinda á þeim fiskimiðum, sem hann getur nytjað með þeim vinnubrögðum. Aðeins hin ytri fiskislóð verði almenningur fyrir stóra togara, sem leggja upp afla sinn í fjarlægum byggðarlögum. Vistfræðileg rök eru fyrst og fremst þessi:

Það fólk, sem á persónulega hamingju og velferð sína og sinna undir því, að fiskur haldist á miðunum, er líklegra til að fara vel með þau og stuðla að verndun þeirra en menn, sem bera aðeins eða fyrst og fremst velferð fiskiðjuvera fyrir brjósti. Og af því að áður var minnzt á þann hluta af matvælum okkar soltna heims, sem fer í gripafóður, má klykkja út með hugleiðingarnar um vistpólitík í sjávarútvegi með þeirri aths., að enn í vetur munum við framleiða svínafóður úr loðnuaflanum. Í fyrra bjuggum við þess háttar fóður úr fiski, sem hefði nægt til að forða 7 millj. manna frá hungurdauða í heilt ár. Ef fiskifræðingar reynast sannspáir, gæti svo farið, að við framleiddum svínafóður í vetur úr fiski, sem ella mundi nægja til þess að bjarga lífi 14 millj., — ráðslag, sem vekur náttúrlega vissar spurningar um þær hvatir, sem liggja að baki fyrirhugaðri smáfjárveitingu til hjálpar fátækum þjóðum.

Í þessari yfirferð skulum við sleppa umr. um bankakerfi, heilbrigðiskerfi og jafnvel skólakerfi, sem sniðið er að þörfum hagvaxtarstefnunnar. Þeir brimskaflar vistpólitískra mistaka, sem við okkur blasa, er við hugleiðum nú nauðsynlegar breytingar á skipan samfélags okkar, eiga sér nefnilega langt aðsog. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að margir afbragðsmenn hafa lagt bönd að þeim mistökum í góðri trú. Jafnvel ýmisleg mistök, sem hafa verið framin á allra síðustu árum á mörkum hinnar vistpólitísku vitundar eru þess háttar, að við höfum ekki leyfi til þess að væna upphafsmennina um illar hvatir. Svo að við tökum sem dæmi það mál, sem mestum styr hefur valdið á þessu sviði, Laxármálið, þá vil ég ekki trúa því, að þeir aðilar, sem upphaflega lögðu á ráðin um Gljúfurversvirkjun, hafi gert sér grein fyrir því vistfræðilega skaðræðisverki, sem þar var á döfinni. Og enn síður munu þeir hafa rennt grun í, að hér væru þeir að koma af stað vistpólitískri borgarastyrjöld í landinu. Sjálft verkið var hafið, áður en Íslendingar höfðu vaknað til vistfræðilegrar vitundar, en svo vöknuðu þeir við dálítinn dynk, sem Þingeyingar gerðu norður við Miðkvísl í Mývatnssveit, og trú mín er sú, að sú pólitíska hæring, sem sú sprenging olli þvert í gegnum alla stjórnmálaflokka landsins, muni, er tímar líða, þykja engu ómerkilegri en upphaf samvinnuhreyfingarinnar þar í Suður- Þingeyjarsýslu, því að eftir þessa sprengingu skal tímaskeiði vistpólitískra afglapa í góðri trú vera lokið. Og til staðfestingar á þeim tímamótum m.a. er flutt þessi till. um vistfræðilegan undirbúning áætlunargerðar um nýtingu íslenzkra fallvatna. Og af því að við erum nú komnir með hugann norður á þær slóðir, þá liggur beint við að nefna fleiri dæmi um vistpólitískar skyssur í Þingeyjarsýslu.

Kísilgúrverksmiðjan í Mývatnssveit er eitt allra ljósasta dæmið um kórvillu blindrar tækni og fégróðahyggju, þar sem rofin eru ævaforn grið manns og umhverfis. Hér var framin vistpólitísk skyssa, sem er fullkomið skóladæmi um innrás tækniveldis í vistfræðilega heilbrigt samfélag. Á 1000 árum hafði skapazt nær því fallkomið vistpólitískt samfélag í þessari gróðurvin á norðausturöræfunum, þar sem afkoma fólksins byggðist á vernd þeirra fiska og fugla, sem það hafði viðurværi sitt af. Árangurinn hefur blasað við augum vegfarandans til skamms tíma: Fuglaparadís á undrafögru stöðuvatni kviku af silungi, einhverju heilnæmasta lostæti í vatnafiski, sem um getur. Þess háttar félag fólks og náttúru, sem ríkt hefur í Mývatnssveit frá ómunatíð, er það, sem Arne Noess prófessor í heimspeki við Oslóarháskóla og Sigmund Kvaloy lektor hafa nefnt hið ákjósanlega vistríki í ritum sínum um ökofilosofiu, eða vistheimspeki. Svo var sem sagt reist þar kísilgúrverksmiðja fyrir skemmstu. Í þessu sambandi skulum við sleppa fagurfræðilegum viðhorfum til fremur óþekkilegra mannvirkja í fagurri sveit, og við skulum líka láta nægja að drepa lauslega á þá staðreynd, að ekki voru gerðar líffræðilegar, hvað þá vistfræðilegar athuganir á hugsanlegum afleiðum þessarar verksmiðju í lífríki Mývatnssveitar. Hér var einnig unnið að áður en þorri Íslendinga hafði vaknað til meðvitundar um þau mál. En við skulum taka þessa nýlegu verksmiðju og rekstur hennar í Mývatnssveit sem dæmi um vistpólitísk mistök, og afleiðingarnar eru þá eftirfarandi:

Síðan byrjað var að reisa kísilgúrverksmiðjuna, hafa fleiri menn átt fasta búsetu í Mývatnssveit en þeir, sem eiga aðild að fyrrnefndum griðasáttmála vistríkisins, og þeim fer fjölgandi. Þetta er ágætt fólk og ekkert út á það að setja annað en það, að það lifir ekki á þeim gæðum landsins, sem hafa gefið mannlífi sveitarinnar sitt sérstaka gildi í umhverfi sínu í þúsund ár. Hagsmunir verksmiðjufólksins liggja á öðrum sviðum og stangast á við hagmuni þeirra, sem eiga aðild að fyrrnefndum vistríkissáttmála. Hagsmunastreitan hefur þegar leitt til þess, að ungmennafélag sveitarinnar hefur klofnað. Samvinna fólksins að skólamálum hefur líka látið undan í þessum átökum. Unnið er að því af hálfu byggðarlagsins undir verksmiðjuveggnum, að þar verði reistur sérstakur skóli handa börnum þess fólks, sem ekki hefur lært þau sannindi kynslóð fram af kynslóð, að það eigi líf sitt og sálarró undir því, að húsöndin fái að koma upp ungunum sínum, og að áreitni bitmýsins sé fyrst og fremst fyrirheit um góða silungsveiði í vatninu. Mývatnsbændur sumir hverjir kalla verksmiðjubygginguna við austanvert vatnið hagsmunahverfi. Það hvarflar ekki að mér, að fólkið þar vilji skemma náttúru Mývatnssveitar. Hættan liggur í því, að þarna hefur myndazt byggð manna, sem ekki eiga þegnrétt í vistríki sveitarinnar, heldur líta það augum aðkomumannsins, og hagsmunir þessa góða fólks stangast á við hagsmuni vistríkisins. Dæmið um kísilgúrverksmiðjuna í Mývatnssveit á raunar ekki aðeins að vera víti til varnaðar í sambandi við vistfræðilega skipulagningu iðnaðar á Íslandi yfirleitt, heldur liggur það í augum uppi, að eitthvað verður að gera til þess að bægja frá hættunni sem af henni stafar.

Annað dæmi. sem draga má af algildan fróðleik um hættulega vistpólitíska þróun getum við raunar nefnt úr sömu sveit, enda þótt það sé hvergi nærri jafngróft og kísilgúrhneykslið, enda stendur síðara dæmið þó a.m.k. í óbeinum tengslum við hið ævaforna og dásamlega vistríki Mývatnssveitar. Hér er átt við túristaiðjuna. Mývatnssveit hefur lengi laðað að sér skemmtiferðamenn, útlenda sem innlenda, vegna fegurðar landslags, náttúruundra og furðulegrar auðlegðar í mynd fugla og fiska. Ágætir heimamenn, mývetnskir, mývetnskastir raunar allra Mývetninga, hafa komið þarna upp sumargistihúsum með prýðilegri ferðamannaþjónustu. Þeir hafa raunar ekki gert annað en selja það yndi, sem skoðun dásemda þessa vistríkis getur veitt skilningarvitum ferðamanna um sumartímann. Gestgjafarnir í Mývatnssveit eru þegnar vistríkisins, en þeir hafa bara verið svo duglegir að selja aðgang að unaðssemdunum vegna vaxandi eftirspurnar ferðamanna, að salan stofnar nú unaðssemdum vistríkisins í voða. Bændur við Mývatn kvarta nú undan ágengni ferðamanna, sem gerist nærgöngulir við hreiður og valdi þess konar ókyrrð í sveitinni, að fuglalífinu, sem ferðamennirnir koma til þess að skoða, sé stefnt í hættu. Túristaiðjan í þeirri mynd, sem hún nú er rekin á landi hér, er vissulega eitt þeirra atriða, sem þarf að taka til skjótrar og gagngerðrar athugunar frá vistfræðilegu og vistpólitísku sjónarmiði.

Og svo að við endum með dæmi um alvarlegustu mistökin, sem orðið hafa í vali milli hagsmuna íslenzks vistríkis og kapítals í uppbyggingu iðjuvers, þá vil ég ekki heldur trúa því, að þeir aðilar, sem heimiluðu Alusuisse að reisa verksmiðju í Straumsvík án hreinsitækja, hafi gert sér grein fyrir því hermdarverki, sem þeir voru að fremja á lífi þessa lands, engu fremur en verkfræðingarnir, sem dreifðu tíu tunnum af DDT-skordýraeitri á bakka Sogsins til þess að draga úr áhrifum mývargsins á afköst verkamanna.

Till. okkar flm. þriggja um vistfræðilegar og vistpólitískar rannsóknir til undirbúnings áætlunargerð um nýtingu orkulinda landsins miðar að því, að komið verði í veg fyrir óhappaverk af þessu tagi.