09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

35. mál, nýting orkulinda til raforkuframleiðslu

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs um þessa þáltill., sem hér er til umr. og ég vil þegar í upphafi lýsa yfir stuðningi við, var ekki nema að takmörkuðu leyti till., öllu heldur orð, sem frsm. lét falla hér og mig langaði að gera nokkuð að umtalsefni í sambandi við till. í heild. Hann sagði, að það væri ekki síður nauðsynlegt í sambandi við svona mál að taka til athugunar skynsamlega búsetu í landinu. Það var einmitt það, sem mig langaði að koma inn á í sambandi við þessi mál, orkumálin, að þar skiptir að minni hyggju ekki síður máli að líta á manninn heldur en umhverfið, að líta á búsetu manna í sambandi við öll þessi mál.

Ég veit ekki, og þó þykist ég þess fullviss, að allir hér í þingsölunum hafi tekið eftir því, hve geysileg breyting er að verða á búsetuskilyrðum manna hér á landi við tilkomu notkunar á jarðhita. Það má segja svo, að á öllu höfuðborgarsvæðinu og raunar Suðvesturlandi eru aðstæður slíkar, að þar má heita nokkurn veginn fullvíst, að ýmist eru nú þegar eða munu innan tíðar öll híbýli manna verða hituð með jarðvarma eða jarðhita, eins og við köllum það oft. En á ýmsum stöðum annars staðar, einmitt þar sem óttazt er dálítið um búsetu manna, vegna þess að þéttbýlið sogar, þar háttar einmitt þannig til, að ekki er vitað um jarðvarma, sem líkur séu til að hægt verði að nota til upphitunar íbúða manna, þ. á m. eru ýmsir allstórir kaupstaðir, við skulum t.d. taka Ísafjörð vestur á Vestfjörðum og ýmis sjávarþorpin þar. Á Norðurlandi mundi ég nefna Akureyri og nokkur sjávarþorp fleiri norðanlands, þó að aðrir staðir séu þar sem jarðhiti er til upphitunar, eins og allir þekkja. Á Austfjörðum hygg ég, að það sé einnig mjög víða, að ekki komi jarðhiti til upphitunar á húsum fyrir fólk, og þess vegna finnst mér, að inn í þetta dæmi hljóti að koma, að þar sem þannig háttar til. að jarðhitinn kemur ekki. til greina varðandi upphitun eða iðnaðaraukningu, þar verði að leggja höfuðáherzluna á að fá aukið rafmagn til þess að jafna þennan skakka.

Fyrir nokkrum dögum var verið að ræða hér um iðnvæðingu í landinu, og þar féllu þau orð hér í þingsölunum, að eitthvert allra þýðingarmesta mál fyrir íbúa þessa lands væri uppbygging iðnaðar. Það er þannig augljóst mál, að til framdráttar iðnaðarmálunum þarf aukið rafmagn, og þess vegna staðnæmumst við aftur við það, að á þeim stöðum, þar sem við þurfum að undirbyggja skynsamlega búsetu, þar kemur enn til greina rafmagn, ekki eingöngu til upphitunar og ljósa, heldur og til iðnaðar.

Þá komum við að því, að það verður að líta á kostnaðinn við framleiðslu rafmagnsins. Hvað er skynsamlegt í þessu sambandi? Er skynsamlegra að hafa orkuverin fá og stór eða kannske smærri og fleiri, og hvernig á að koma þeim málum fyrir, þannig að allir búi við sem svipuðust kjör um rafmagnsverð? En auk þessa kemur svo inn í þetta þessi svokallaða vistfræði, sem var verið að lýsa fyrir okkur hér áðan. Þá var bent á það t.d., að brennsluolíur, skv. því, sem menn vissu um þær nú, væru mjög að ganga til þurrðar miðað við núverandi notkun þeirra, og kannske verða ekki nema ein 20–30 ár þangað til fer að gæta mikillar þurrðar á þeim. Þá liggur í augum uppi, að okkur Íslendingum liggur á að búa okkar mál þannig í haginn, að við þurfum sem minnst að nota slíka. olíu, sem kannske gengur til þurrðar innan tíðar. Og þó að það þyki kannske fjarstæðukennt að drepa á það hér, þá dettur manni stundum í hug: Hvað verður um alla bílaeign Íslendinga eins og annarra þjóða, þegar kannske benzínið fer að ganga til þurrðar, og hér eru eiginlega allar samgöngur okkar á landi komnar undir bílnum? Það er þannig margt, sem þarf að gá að í þessu sambandi.

Orkumálaráðh. flutti athyglisverða ræðu áðan og var að benda á, að þess yrði að gæta í sambandi við orkumálin, að ekki skapaðiat óeðlileg spenna í framleiðslu orkunnar, þar yrði að haldast í hendur notkun og framleiðsla. Af því að við erum nú einmitt, ég og þeir íbúar landsins, sem ég þekki bezt, búsettir á því svæði, þar sem mjög er þörf á aukinni orku, en við vitum ekki enn, hvernig á að leysa úr, þá hefði ég haft gaman af, — en því miður er ráðh. ekki við, að spyrja, hvað liði þeim framkvæmdum, sem við heyrum helzt rætt um, að nú séu á döfinni, þ.e. að koma á svokallaðri Sigölduvirkjun og leggja línu norður um fjöll. Það ganga ýmsar sögur um, að það fáist ekki þau erlendu lán, sem vonazt hafði verið eftir til þess að koma þeirri virkjun á, eða að ekki sé vitað, hver markaðurinn verði fyrir svo stóra virkjun eins og þar er ráðgerð. Þá verður spurningin: Mun þarna myndast spenna í orkuframleiðslunni, sem er óæskileg, eins og ráðh. var að tala um?

Einnig kemur manni í hug, hvort þessar framkvæmdir, lagnirnar norður yfir fjöll, eru ekki svo dýrar, að þarna sé verið að stefna að því, sem ég var að ræða um í upphafi, að vissir landshlutar verði að búa við svo dýrt rafmagn. að það verði hætta fyrir skynsamlega búsetu þeirra landshluta.

Þessum málum vildi ég aðeins koma að í þessu sambandi, og svo þeirri skoðun minni, að þó að ég sé fylgjandi umhverfisvernd, þá þurfi ætíð að gæta þess, að hún sé ekki svo mikið aðalatriði fyrir mönnum, að þar sé ekki öll gát höfð á, og einmitt haft í huga að gæta þess, að í landinu sé alltaf athuguð skynsamleg búseta. Þessum atriðum vildi ég koma hér á framfæri.