09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

35. mál, nýting orkulinda til raforkuframleiðslu

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér sýnist sjálfsagt að þakka þær ágætu undirtektir, sem þessi þáltill. hefur fengið hjá öllum þeim hv. þm., sem talað hafa. Ég vil einnig þakka mikilvægar upplýsingar, sem hafa komið fram óvenjusnemma fyrir þáltill., og ætti þá starf hv. atvmn. að verða auðveldara.

Ég vil í sambandi við upplýsingar frá hv. 1. þm. Austf. upplýsa, að okkur flm. var að sjálfsögðu kunnugt um ákvæði náttúruverndarlaga. Sjálfur hef ég ávallt litið svo á, að náttúruverndarráð sé eins konar yfirdómari í þessum málum. Till. stefnir öllu fremur að því að ákveða vinnubrögð, einmitt eins og hv. þm. upplýsti, að náttúruverndarráð hafi mikið hugleitt, og sýnist mér, að það stefni mjög inn á sömu braut og náttúruverndarráð telur skynsamlegasta. Við flm, teljum sjálfsagt og nauðsynlegt, ef þessi sjónarmið eiga að komast til skila tímanlega í hverri rannsókn, að þau séu á ábyrgð þess aðila, sem annast forrannsóknirnar og rannsóknirnar almennt. En hitt er annað mál, eins og ég sagði, að það þarf að vera samband við fleiri aðila, og er náttúruverndarráð þar sjálfsagður sambandsaðili.

Hæstv. orkumálaráðh. ræddi ítarlega um þessa till. og upplýsti margt með svari Orkustofnunar. Hæstv. ráðh. er að vísu ekki við, en ég vil þó láta koma hér fram ánægju mína með þessi viðbrögð Orkustofnunar. Að vísu er það nokkuð undarlegt, að slík vistfræðileg athugun skuli hafa átt sér stað hjá Orkustofnun í 3 ár, og þó liggur hér á borðinu hjá mér skýrsla, áætlun um rannsóknir á þessu sviði, sem einmitt var gefin út í ágúst 1969, eða fyrir um það bil þremur árum, og er þá ekki minnzt á þessi mál nema í sambandi við ferðamenn við Gullfoss. En betra er seint en aldrei, og ég fyrir mitt leyti treysti fyllilega Orkustofnun til þess að sinna þessu máli, þó að ég sé dálítið haldinn þeirri skoðun, sem ég hygg, að margir aðrir landsmenn séu, að þessu hafi e.t.v. verið þröngvað upp á Orkustofnun frekar en að hún hafi tekið málið að sér að eigin frumkvæði. Mér sýnist einnig, með tilliti til þessara upplýsinga, enn meiri ástæða til þess en áður að endurskoða þessa opinberu rannsóknaráætlun; sem nú liggur fyrir, þar sem öll þessi sjónarmið koma fram, þar sem koma fram hugmyndir um virkjanir fallvatna, einnig með tilliti til vistfræðilegra vandamála, og grunar mig, að ef svo er gert tímanlega, megi koma í veg fyrir ýmsa árekstra, sem slíkar framsetningar, sem í hinni upphaflegu áætlun eru, geta og hljóta óhjákvæmilega að hafa í för með sér. Mér sýnist því, að þessar nýju áætlanir Orkustofnunar og hugmyndir ættu að stuðla að skjótri framkvæmd á meginþætti þessarar þáltill.

Hæstv. ráðh. taldi vistfræði ekki nýja vísindagrein. Það er að sjálfsögðu teygjanlegt, ef við lítum á erlenda hugtakið, ökologi“, en e.t.v. er þeirri þróun, sem orðið hefur, bezt lýst með því að halda áfram því, sem hv. 1. þm. Austf. nefndi í stuttri sögu núverandi náttúruverndarráðs. Í frv. var þetta kallað náttúruvernd, síðar umhverfisvernd, en í síðustu bréfum náttúruverndarráðs er talað um vistfræði, og á þessu er satt að segja nokkur munur. Vistfræðin er langtum víðtækara hugtak en náttúruvernd og jafnvel umhverfisvernd. Vistfræðin, þetta nýyrði, sem menn eiga e.t.v. erfitt með að venjast, — einhverjum heyrðist þetta vera listfræði áðan, þegar um var talað, — fjallar mjög náið um öll viðskipti allra lifandi vera innbyrðis og einnig við landið sjálft, eins og hv. 2. flm. rakti vandlega hér áðan.

Ég er að sjálfsögðu alveg sammála því, sem kom fram í bréfi Orkustofnunar, að vitanlega eru það margir þættir, sem ákveða, hvort virkjað verði á einum stað eða öðrum, á einn máta eða annan. Það er alveg ljóst. Ég vona, að þessi þáltill. okkar skiljist aldrei svo, að það beri að virkja aðeins með tilliti til vistfræðilegra vandamála. Ef hún skilst þannig, þá er þar um alvarlegan misskilning að ræða, en svo mátti jafnvel skilja á svari Orkustofnunar. Vitanlega hljóta aðrar tæknilegar forsendur að verða teknar til greina engu síður. En við erum aðeins að leggja áherzlu á, að þetta sjónarmið er ekki síður mikilvægt en önnur og jafnvel enn mikilvægara og ber að líta á það í fyrstu skoðun hverrar hugmyndar, ekki sízt til að forðast alls konar árekstra, sem frekar verða af þessum sökum en öðrum við þá, sem byggja landið.

Hæstv. ráðh. ræddi um það, að till. mætti vera víðtækari. Ég samþykki það og sagði það raunar í minni framsögu, sló því jafnvel fram, að það væri fróðlegt að reyna að gera okkur eins konar heildarmynd af þeirri búsetu, sem við viljum, að verði í þessu landi eftir nokkra áratugi. Og ég gat þess, að það eru orðnar mjög athyglisverðar aðferðir, sem hafa verið þróaðar í þessu skyni. En ég taldi hins vegar málið of viðamikið og ekki nægilega þekkt til að ræða það nú, en vonandi kemur að því fljótlega.

Hæstv. ráðh. minntist sérstaklega á iðnaðinn, áhrif hans og notkun orkunnar til ýmissa þarfa landsmanna, sem og áhrif virkjana, iðnaðar og notkunar orkunnar á búsetu í landinu, eins og hv. 5. landsk. þm. rakti einnig hér áðan. Í raun og veru er allt þetta í till. okkar þremenninganna. Í 4. lið segir: „Skoða ber hina ýmsu valkosti með tilliti til áhrifa búsetu í landinu (vistpólitísk áhrif).“ Og þar segir í 7, lið: „Leggja ber fram áætlun um eðlilega aukningu á raforkuþörf landsmanna til hinna ýmsu þarfa, og áætla ber eðlilega skiptingu fáanlegrar raforku til hinna ýmsu þarfa þjóðfélagsins.“ Í grg. segir einnig, með leyfi hæstv. forseta: „Norðmenn eru að gera áætlun um nýtingu þess vatnsafls, sem þar er enn talið virkjanlegt, með fullu tilliti til vistfræðilegra sjónarmiða. Þeir munu reyna að skipta þeirri raforku niður á heimilisnotkun og smærri iðnað, útþenslu iðnaðar, sem fyrir er í landinu, og loks, ef eitthvað telst til ráðstöfunar, til nýrra iðngreina. Þótt slík ráðstöfun sé ekki orðin eins brýn hjá okkur Íslendingum, telja flm. þessarar tili. þó mjög tímabært, að reynt sé að gera sér nokkra grein fyrir eðlilegri nýtingu orkulindanna.“

Í raun og veru tel ég, að í þessum greinum og þessum þáttum þáltill. felist það, sem hæstv. ráðh. var að geta um. En ég fellst á, að það sé sett fram á ítarlegri máta og víðtækari. En þess vil ég þó geta, að það er með vilja, að við þrengdum þetta svið nokkuð, því að við viljum

ekki, að þessi fyrsta framkvæmd á þessu sviði, langtímaathugun á þróun eins þáttar okkar þjóðlífs og þjóðarbús, verði svo umfangsmikil og flókin, að ekki verði við ráðið. Ég vil þó til upplýsinga geta um nokkur atriði strax, sem þarf í raun og veru að ákveða í þessu sambandi.

Fyrir dyrum stendur virkjun Sigöldu, eins og hv. þm. er að sjálfsögðu kunnugt. Þar munu fást um 160 Mw. eða um 900 Gwst. af orku. En það er ekki nema hluti af þessu afli, sem veitir forgangsorku. Hitt er afgangsorka. Og það er ljóst, að til þess að þessi virkjun verði verulega hagkvæm og viðráðanleg fyrir okkur Íslendinga, er æskilegt að fá einhvern orkufrekan iðnað þarna með til að taka í byrjun nokkurn hluta af orkunni, t.d. 1/3, þannig að orkuverðið komist fyrr í góða nýtingu. En staðreyndin er sú, að þær athuganir, sem hafa verið gerðar upp á síðkastið á slíkum orkufrekum iðnaði, hafa leitt i ljós, að áhugi fyrir kaupum á raforku til orkufreks iðnaðar er mjög mikill, og kemur þar fram það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að aðrar orkulindir hafa ekki reynzt svo samkeppnisfærar sem áður var talið. Ef ég má orða það svo, bjóðast a.m.k. 3 eða 4 iðngreinar, sem þarna gætu allar komið til tals. Nú vaknar sú spurning, ef valin er ein iðngrein í þessu sambandi, hvort þá eigi að hraða næstu virkjun og grípa, eins og sumir mundu segja, gæsina, á meðan hún gefst, og nýta næstu virkjun, Hrauneyjarfoss, hið fyrsta til annarrar stóriðju. Þetta er að sjálfsögðu stefnuatriði, sem ákveða þarf og það fyrr en síðar. Ættum við að hraða virkjun okkar vatnsafls, nýta það allt fyrir 1990, eins og sett er fram í áætlun Orkustofnunar, eða er engin þörf á því? Er það jafnvel óskynsamlegt? Eru önnur sjónarmið en hin hagfræðilegu eða hagvaxtarlegu orðin mikilvægari? Við flm. teljum, að svo sé. Og ég vil lýsa þeirri skoðun mínni, að ég tel enga ástæðu til þess að hraða sér þarna. Við eigum að virkja eins og við þurfum fyrir eigin þarfir með tilliti til hinna fjölmörgu sjónarmiða, sem hér hefur verið minnzt á, en getum svo athugað, þegar að næstu virkjun kemur vegna eigin þarfa, hvort þá verður jafnframt þörf fyrir annan orkufrekan iðnað. Ég ætla ekki að fara að ræða hér ítarlega um þessar iðngreinar. Ég vil aðeins geta þess hér til þess að fyrirbyggja allan misskilning í þessu sambandi, að þau boð, sem fengizt hafa, eru mjög á þá lund, að við Íslendingar ættum þessar iðngreinar að öllu eða mestu leyti, og gætu þær þannig að mínu viti orðið verulegir og æskilegir þættir i okkar þjóðarbúi. Ég nefni þetta sem dæmi um þau atriði, sem þarf að taka til skjótrar ákvörðunar i sambandi við hina almennu stefnu og við er átt að nokkru leyti í 7. lið þáltill. okkar, þótt þar sé einnig átt við lengri tíma ráðstöfun, eins og hæstv. ráðh. lagði áherzlu á.

Ég vil svo að endingu aftur þakka hv. þm. fyrir góðan stuðning við þessa þáltill. Ég fæ ekki séð, að hún rekist á neitt það, sem nú er verið að gera, hvorki hjá náttúruverndarráði né Orkustofnun. Hún ætti aðeins að verða til þess að lýsa yfir vilja hv. Alþ. í þessu mikilvæga máli og koma málinu inn á ákveðnari braut. Það er einnig von mín, að þessi æfing, ef ég má kalla það svo, í langtímaáætlun og stefnumörkun geti orðið til þess, að slík vinnubrögð verði tekin upp á fleiri sviðum og verði almennari fyrir okkar mannlíf.