09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

43. mál, vátryggingastarfsemi

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Þáltill. þá um ríkisrekstur á vátryggingastarfsemi, sem hér er til umr., hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. 2. landsk. þm., Pétri Péturssyni, og er hún svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar, að öll vátryggingastarfsemi í landinu skuli ríkisrekin, og leggur fyrir ríkisstj., að hún láti þegar semja varðandi þetta frv. að lögum, sem komið geti til meðferðar yfirstandandi þings.

Þegar haft er í huga, að ríkisvaldið hefur bundið þegnum sínum á herðar margháttaða vátryggingarskyldu, má það raunar furðulegt teljast, að það hafi ekki gætt þess jafnframt, að sú skylda yrði þeim sem hagkvæmust og léttbærust. Svo er að vísu að sjá, að þetta hafi fyrrum vakað fyrir ríkisvaldinu með stofnun og rekstri Brunabótafélags Íslands, en allt hefur þetta farið svo úr böndum, að enn eru ný og ný vátryggingafélög að spretta upp og tryggingastarfsemin að færast á fleiri og fleiri hendur.

Nú skyldi einhver álíta, að samkeppni um viðskiptavini mundi auka og bæta þjónustuna, þjónustu þessara mörgu vátryggingafélaga, en svo virðist ekki hafa orðið heldur hefur hitt gerzt, að þau hafa komið sér saman um vissar leikreglur til að tryggja hag sinn gagnvart tryggingartökum og ýmis þjónusta þeirra orðið æ umdeilanlegri. Oft ná tryggingartakar engum bótum nema með málssókn, sem er tímafrekt og dýrt alþýðu manna, enda kinoka margir sér við að standa í slíku. Sjálfsagt er að taka fram, að ástæðan fyrir þessum hætti er að einhverju leyti sök þeirra vátryggingartaka, sem fara eins langt í kröfum og bótum fyrir tjón og þeir framast hafa hugkvæmni til, en algengari er þó hin ástæðan, að reglur um bætur eru oft undarlega hálar og teygjanlegar í framkvæmd. Væri þessi þjónusta í höndum ríkisins, eins og okkur flm. finnst sjálfsagt, verður að ætla, að ríkisvaldið hugsaði jafn vel um hag vátryggingartakans og sinn, því að ríkið er þegnarnir og þegnarnir eru ríkið. Enn er að geta þess, að ríkið sjálft er ugglaust langstærsti vátryggingartakinn beint eða óbeint, og nægir þar að benda á allar tryggingar veiðiflotans, sem ríkið greiðir í raun. Virðist þar einsætt, að ríkið ætti við sjálft sig, en ekki vátryggingahlutafélög, sem jafnvel dytti í hug, eins og í haust, að koma í veg fyrir framkvæmd laga, af því að þeim þætti skylda sín of þungbær.

Þá er að drepa á þann þáttinn, að öll vátryggingafélög munu verða að baktryggja sig hjá erlendum vátryggingafélögum, og þarf varla að leiða að því getur, að þær baktryggingar eru óhagstæðari þjóðarheildinni, þegar fleiri og smærri aðilar verða að kaupa þær, en ekki einn stór, í þessu tilfelli ríkið. Hér yrði eflaust um þó nokkurn gjaldeyrissparnað að ræða. Enn renna þau rök undir að hafa vátryggingastarfsemi alla á einni hendi, að hún krefðist færra starfsliðs og minna húsnæðis heldur en á höndum margra vátryggingafélaga. Hníga þannig að því öll rök, að ríkisrekstur á þessari þjónustugrein yrði þjóðarbúinu ódýrari en nú er, starfslið færra, skrifstofukostnaður minni, baktrygging erlendis lægri, þannig að iðgjöld ættu að geta lækkað og hótagreiðslur síður að verða ágreiningsefni fyrir dómstólum, því að ætla má, að ríkisvaldið sæi sér skylt að setja sem afdráttarlausust ákvæði um tjónabætur.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta, en legg til, að eftir að þessar umr. hafa farið fram, verði umr. frestað og till. vísað til allshn. Umr.