09.11.1972
Sameinað þing: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

52. mál, kavíarverksmiðja á Norðausturlandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á því, að hér er ekki verið að taka neina ákvörðun, heldur er verið að fara fram á það, að gerð verði athugun. Það hefur verið upplýst hér af einum hv. þm., sem ég hafði að vísu hugmynd um fyrir alllöngu, að það hafi verið gerð tilraun með kavíarverksmiðju í Hafnarfirði, það hefði ekki lánazt og ástæðan verið tollamál. Þeir segja, að það yrði að borga, að mér skilst, innflutningstoll í viðkomandi löndum af fullunninni vöru, en hinar erlendu verksmiðjur fengju óunnu hrognin án þess að þurfa að greiða af þeim verulegt innflutningsgjald. Það er nokkuð síðan þetta var, og ýmislegt hefur og getur breytzt í markaðsmálunum. Ég tel sjálfsagt að athuga þetta mál. og ég kysi einmitt sérstaklega, að það væri athugað á þeim grundvelli, hvort ekki er hægt að vinna svona vöru í smáum stíl, án þess að þar þurfi að koma til mikill stofnkostnaður. Ég veit ekkert um, hvort það kostar 10 millj, kr. að byggja verksmiðju af ákveðinni stærð. Það getur vel verið, að hægt sé að koma upp svona vinnslu með minni kostnaði. Ég óska eftir, að þetta sé rannsakað, og ég veit, að það hefur mikla þýðingu fyrir sjávarþorp, sem liggja vel að grásleppuveiði, ef sá möguleiki er fyrir hendi að vinna úr hráefninu á þennan hátt. Það má vera, að það sýni sig, að það sé ekki hægt, það kemur þá í ljós. En ég vil óska, að það verði athugað í þeirri n., sem hér er um að ræða.

Það er siður að safna saman hráefni frá hinum minni stöðum til þess að vinna á fjölmennari stöðum til hagsbóta fyrir þá, en það er líka þörf á að gefa gaum að atvinnumálum þeirra, sem eru minni á þessu sviði.