17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Blöð stjórnarandstæðinga hafa stundum látið í ljós áhuga á því að fá upplýsingar um, hvað væri að gerast í stjórnarherbúðunum á sviði samgöngu- og félagsmála. Þetta er að vonum, þar sem engar bumbur hafa verið barðar um þessi mál, og mun ég því fyrst og fremst, svo sem naumur tími vinnst til. verja ræðutíma mínum í kvöld til að gera þessum málum nokkur skil.

Á seinasta þingi var afgreidd ýmiss konar merk löggjöf á sviði félagsmála og samgöngumála. Tímans vegna verður hér aðeins talið upp það allra helzta:

Ég nefni fyrst lögin um 40 stunda vinnuviku, þá lögin um fjögurra vikna orlof, og enn löggjöf um orlof húsmæðra, breyting á lögunum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem m.a. var niður felld vísitölubinding húsnæðislána, lögin um tekjustofna sveitarfélaga, lög um erfðafjárskatt, breyting á skipulagslögum og breyting á sveitastjórnarlögum.

Af löggjöf varðandi samgöngumálin her að sjálfsögðu fyrst að nefna vegáætlunina, sem ákvað miklu stærri átök í vegamálum næstu 4 árin en nokkru sinni fyrr. Þá nefni ég nýja löggjöf um vitagjald, lög um eftirlit með skipum, breyting á lögum um ferðamál. breyting á lögum um happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið, og að síðustu framvarp til nýrra hafnalaga.

Á þessu þingi verður svo fram borið frumvarp, er tryggi, að vinnulaun fáist greidd, þrátt fyrir gjaldþrot atvinnurekanda, frumvarp til breytinga á orlofslögum, er tryggi betur rétt sjómanna, frumvarp til laga um byggingarsamvinnufélög og frumvarp til nýrra laga um ferðamál. Þá eru ný byggingalög í undirbúningi.

Unnið hefur verið að gagnaöflun og öðrum undirbúningi að setningu laga um alhliða vinnuvernd. Einnig hefur verið unnið að undirbúningi lagasetningar um stofnun félagsmálaskóla verkalýðshreyfingar og samvinnusamtaka.

Flest er hetta samkvæmt fyrirheitum í stjórnarsáttmálanum. Þar var einnig lofað endurskoðun á skiptingu verkefna og valds milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta loforð var efnt með þeim ákvæðum tekjustofnalaga, að framlögum sveitarfélaga til almannatrygginga var af þeim létt, framlög sveitarfélaga til sjúkratrygginga voru lækkuð um helming og kostnaður sveitarfélaga við löggæzlu var með öllu felldur niður. Einnig voru iðgjöld til lífeyrisdeildar almannatrygginga og iðgjöld til sjúkrasamlaga afnumin.

Í sambandi við aukið sjálfsforræði byggðarlaga hefur tvennt gerzt: Landshlutasamtökum sveitarfélaga hefur verið tryggður tekjustofn og þannig séð fyrir nokkru starfsfé. Og með lögunum um Framkvæmdastofnun ríkisins er landshlutasamtökum sveitarfélaga tryggður tillöguréttur um byggðaáætlanir. Þá hefur félmrn. ritað Sambandi ísl. sveitarfélaga bréf, þar sem óskað er álits þess og tillagna um þau ákvæði sveitarstjórnarlaga og tekjustofnalaga, sem Sambandið teldi einkum þurfa breytinga við. Í því efni var einkum óskað álits á því, hver staða hinna nýju landshlutasamtaka ætti að vera gagnvart sveitarstjórnum, sýslunefndum og ráðuneyti.

Lofað var að gera framkvæmd orlofslaga auðveldari. Þetta verður efnt með þeim hætti, að orlofsmerki og orlofsbækur falla úr gildi. Þess í stað verður orlofsfé greitt með sama hætti og opinber gjöld, þ.e. að atvinnurekendur greiða orlofsfé til næstu póststöðvar innan þriggja daga frá greiðslu launa og afhenda skilagrein með orlofsfénu. Þessi nýskipan kemur til framkvæmda frá og með 1. maí 1973. Hefur framkvæmdin öll þegar verið ákveðin með reglugerð.

Með því sem nú hefur verið sagt, er ljóst, að flest af því, sem heitið var í stjórnarsáttmálanum varðandi félagsmál, er þegar komið allvel á undirbúningsstig eða til fullra framkvæmda.

Ekki verður annað sagt en að atvinnulífið standi nú með blóma. Kemur þar tvennt til: einkaatvinnureksturinn er rekinn af fyllsta þrótti og hið opinbera — ríki og sveitarfélög hefur sennilega aldrei færzt jafnmikið í fang og einmitt nú. Allt vinnufært fólk á Íslandi hefur nú verk að vinna. Enginn þarf að sitja auðum höndum. Á seinustu atvinnuleysisskráningu voru aðeins 100 nöfn á öllu landinu og þess naumast að vænta, að sú tala geti lægri orðið.

Vil ég nú gefa yfirlit yfir þær framkvæmdir, sem unnið hefur verið að í þeim ráðuneytum, er ég stjórna.

Vík ég þá fyrst að vegamálunum:

Með afgreiðslu vegáætlunar fyrir tímabilið 1972–1975 á seinasta þingi var ákveðið að veita mun meira fjármagni til vegamála á framkvæmdatímabilinu en nokkru sinni fyrr.

Niðurstöðutölur áætlunarinnar eru þessar hvert árið um sig: Á þessu ári 1790 milljónir, á árinu 1973 1957 milljónir, á árinu 1974 2100 milljónir og 2030 milljónir á árinu 1975.

Helztu framkvæmdir í vegamálum, það sem af er árinu, vil ég nefna þessar:

Á Vesturlandsvegi er verið að ljúka lagningu slitlags úr steinsteypu upp að Mógilsá í Kollafirði. Og um næstu mánaðamót verður varanlegt slitlag (olíumöl) komið á Suðurlandaveg um Hellisheiði, allt austur að Selfossi.

Krókóttasti og hættulegasti hluti Akranesvegar hefur verið endurbyggður og tekinn í notkun. Varanlegt slitlag hefur þó ekki verið lagt á hann.

Fyrir nokkru var kafli Norðurlandsvegar sunnan Akureyrar, að flugvelli, tekinn í notkun með malarslitlagi til bráðabirgða. Næsta sumar verður lagt malbik á kaflann og lokið ýmsum frágangi hans.

Þá er lokið að mestu þeim kafla Norðfjarðarvegar, sem liggur gegnum Egilsstaðakauptún, og hefur hann verið tekinn í notkun með malarslitlagi.

Þetta eru allt hraðbrautarframkvæmdir. Framkvæmdir við lagningu þjóðbrauta og landsbrauta hafa í stórum dráttum gengið samkvæmt áætlun.

Ef stiklað er á stóru, má nefna eftirtaldar framkvæmdir í þjóðbrautum og landsbrautum: Á Ólafsvíkurvegi hefur verið tekin í notkun 3 km langur kafli. Ný brú byggð á Norðurá hjá Haugum, og vegagerð að henni svo til lokið. Á Hraunhreppsvegi syðri er lokið við 4 km kafla milli Akra og Kálfalækjar. Brú byggð á Tunguá á Vesturlandsvegi í Dölum, og vegur tengdur við hana. Og á Klofningsvegi er lokið við tæplega tveggja km kafla um Ytra-Fell.

Á Vestfjarðavegi er lokið við 61/2 km kafla inn með Þorskafirði frá Kinnarstöðum að Kollabúðum og einnig 2.6 km kafla um Dagverðardal hjá Ísafirði. A Barðastrandarvegi hefur verið lokið við tæplega fjögurra km kafla frá Brjánslæk að Flókalundi á Barðaströnd. Í Djúpvegi var lokið við 3 km kafla frá Kambsnesi að Eyri í Seyðisfirði, en frágangi þó ekki að fullu lokið. Þá hefur að mestu verið undirbyggður 6 km kafli frá Eyri í áttina að Hestfirði. Aðalframkvæmdir í Djúpvegi voru þó í Skötufirði. Var að mestu lokið við sprengingar frá Hjöllum að Kleifaósi. Brú var byggð á Kleifaós. Þessi kafli er um 9 km langur. Þá er að mestu búið að undirbyggja veginn frá Kleifaósi út fyrir Hvítanes, en sá kafli er 14 km langur. Eru þá eftir alveg óhreyfðir í Djúpvegi 18 km í Hestfirði. Standa því vonir til, að endar nái saman í Djúpvegi eftir 2 ár, svo sem ráð er fyrir gert í vegáætlun. Væri þá langþráðum áfanga náð í samgöngumálum Ísfirðinga og Djúpmanna.

Á Strandavegi sunnan Hólmavíkur var í sumar byggð ný brú á Hrófá og jafnframt byggður rösklega tveggja km langur vegarkafli. Er að þessu góð samgöngubót. Þá var endurbyggður 1.2 km langur vegarkafli um Ennisháls.

Á Norðurlandsvegi er lokið 4.4 km löngum kafla í Hrútafirði norðan við Stað og einnig tæplega tveggja km kafla hjá Sporðhúsum í V.- Húnavatnssýslu. Í lok þessa mánaðar verður lokið byggingu nýrrar brúar á Hnausakvísl í Vatnsdal, og einnig er lokið lagningu um 2 km kafla í Langadal og frágangi á 7 km vegi, sem ekki var fullgerður á s.l. ári.

Milli Víðimýrar og Silfrastaða hefur verið lokið við rúml. km kafla hjá Miðhúsum og byggð ný brú á Úlfsstaðagil. Á Sauðárkróksbraut hefur verið lokið við byggingu nýrra brúa á Grófargil og Staðará og lagningu rúml. 3 km vegarkafla í því sambandi. Þá hefur á Siglufjarðarvegi í Fljótum verið unnið að framkvæmdum á 8 km kafla milli Móskóga og Brúnastaða. Í Ólafsfjarðarvegi mun verða lokið framkvæmdum, sem boðnar voru út á liðnu ári milli Reistarár og Fagraskógar, og nú er unnið að framkvæmdum milli Reistarár og Hörgárbrúar. Einnig er lokið lagningu vegarkafla næst Dalvík að norðan og byggingu brúar á Brimnesá.

Á Tjörnesvegi er lokið lagningu 6 km kafla milli Bakka og Rekárgils. Í Axarfirði lauk lagningu 6.5 km kafla milli Jökulsár og Klifshaga.

Þá var í sumar lokið við 11 km veg um Hálsa milli Ranfarhafnar og Þórshafnar. Er þeirri vegagerð mjög fagnað af héraðsbúum, því að hún bætir mjög vetrarsamgöngur milli þessara kauptúna. Lokið verður við byggingu nýrrar brúar á Skjálfandafljót á Norðurlandsvegi hjá Fosshóli í byrjun næsta mánaðar.

Á Norðurlandsvegi er lokið byggingu brúar á Sauðá á Jökuldal, — og byggingu brúar á Gilsá verður lokið í haust.

Framkvæmdum við jarðgöng í Oddsskarði hefur miðað hægar en gert var ráð fyrir sökum óvæntra erfiðleika. Er því tæpast búizt við, að sprengingum jarðganganna verði lokið fyrir áramót, eins og áætlað hafði verið.

Aðrar framkvæmdir í Austurlandskjördæmi hafa gengið eftir áætlun, enda hefur tíðarfar verið þar einmuna gott í sumar.

Í sambandi við framkvæmdir á Skeiðarársandi austan sands er rétt að skýra frá, að lagður hefur verið 6 km kafli frá Virkisá og nokkuð fram hjá Svínafelli.

Í sambandi við framkvæmdir á Skeiðarársandi að vestanverðu (hringveginn) hafa verið lagðir 25 km af nýjum vegi milli Kirkjubæjarklausturs og Lómagnúps og 6.5 km endurbyggðir. Á þessari leið hafa verið byggðar 8 brýr, og er brúin á Breiðbalakvísl (Stjórn og Geirlandsá) þeirra lengst, eða 166 metrar. Framkvæmdir við sjálfar brýrnar á Skeiðarársandi hófust í september, og er nú langt komið niðurrekstri steyptra staura undir stöpla brúar á Núpsvötn og Súlu. Er gert ráð fyrir, að byggingu stöpla verði e.t.v. lokið í byrjun desember. Boðið hefur verið út stál í allar brýrnar á Skeiðarársandi og samningum þar að lútandi lokið við lægstbjóðanda, sem var stórfyrirtækið Dorman Long í Skotlandi. Samkvæmt þeim samningi kemur stálið í brúna á Núpsvötn og Súlu í byrjun febrúar. — Hafa allar þessar framkvæmdir gengið samkvæmt áætlun til þessa.

Í Meðallandsvegi hefur verið lagður 4 km vegarkafli milli Efri-Eyjar og Melhóls. Þá hefur verið byggður nýr vegarkafli hjá Tungufljóti í Skaftártungu á Suðurlandsvegi og endurbyggður um 3 km kafli á Suðurlandsvegi á Mýrdalssandi vestan Blautukvíslar. — Í Rangárvallasýslu voru endurbyggðar 2 brýr á Suðurlandsvegi, á Kaldaklifsá og Steinlæk í Holtum, og vegur tengdur við þær. Á Þykkvabæjarvegi var endurbyggður 4 km kafli sunnan við Djúpá.

Á Þingvöllum var unnið nokkuð að vegaframkvæmdum ofan til á Leirum og við heimreið að Valhöll til undirbúnings þess, að unnt verði að leggja olíumalarslitlag á þennan vegarkafla á næsta ári. Þá voru endurbyggðir 2.5 km af Álftanesvegi ásamt heimreið að Bessastöðum, og er þess vænzt, að unnt verði að ljúka lagningu olíumalar á þennan kafla í haust.

Helztu framkvæmdir næsta árs hafa fengið verkfræðilegan undirbúning. Þannig hefur verið gerð lokaáætlun um hraðbrautarkaflann í Vesturlandsvegi frá Mógilsá í Kollafirði inn fyrir Kiðafell. Jafnframt hefur verið unnið að undirbúningi vegagerðar við Borgarfjörð milli Seleyrar og Borgarness. Unnið hefur verið að lokaáætlun um kaflann á Suðurlandsvegi frá Selfossi að vegamótum Hrunamannavegar.

Einnig hefur verið unnið að gerð lokaáætlunar um kaflann norðan Akureyrar og hluti af því verki fullgerður. Jafnframt hefur verið unnið að undirbúningi að áætlun um veg fyrir botni Eyjafjarðar og á syðsta hluta Svalbarðsstrandar, og er nú beðið álits skipulagsyfirvalda um legu vegarins á þessum slóðum.

Útboðsgögn að lagningu varanlegs slitlags á Grindavíkurveg og Reykjanesbraut um Miðnesheiði verða tilbúin upp úr áramótum.

Þá er hafinn undirbúningur að lagfæringum, sem nauðsynlegar eru, áður en varanlegt slitlag verður lagt á Hnífsdalsveg, og á öðrum undirbúningi að vera lokið snemma á næsta ári.

Einnig hefur verið unnið að verkfræðilegum undirbúningi fyrirhugaðra framkvæmda á næsta ári í þjóðbrautum og landsbrautum.

Líkur eru á, að kostnaður við framkvæmdir í almennum höfnum verði á þessu ári um 185 millj. kr. Alls er unnið á 23 stöðum. Unnið verður að landshöfnum fyrir um 20 millj. kr., auk þess sem greidd hafa verið bráðabirgðalán frá liðnu ári, um 8 millj. kr., og til þess notað fé, sem aflað var skv. framkvæmdaáætlun ríkisstj.

Að hafnaframkvæmdum hefur verið unnið í samráði við heimaaðila, og hliðsjón höfð af 4 ára áætlun þeirri, sem gerð var fyrir árin 1969–1972. Vegna fjárhagsörðugleika hafnarsjóða hefur ekki tekizt að ljúka öllum þáttum hennar, en þó tel ég, að verulegt gagn hafi orðið af þessari áætlunargerð. — Er nú unnið að gerð nýrrar 4 ára áætlunar um hafnargerðir og safnað til þess gögnum. Hefur sveitarfélögum verið gefinn kostur á að koma óskum sínum á framfæri, en með því að ný hafnalög verða sennilega afgreidd á þessu þingi, hefur ekki þótt rétt að fullvinna áætlunina, en óskir heimamanna kynntar fjvn. í sambandi við væntanlegar fjárveitingar ársins 1973.

Geta má þess, að lokið er nú skýrslu um athuganir á möguleikum til hafnargerðar við Dyrhólaey. Að þessum rannsóknum hefur verið unnið allt frá árinu 1958.

Helztu nýmæli í vitamálum eru þau, að veruleg hækkun vitagjalds var lögleidd á árinu. Gerir hún fært að hraða meir en ella endurnýjun og fullkomnun vitakerfisins. Sérstaklega er nauðsynlegt að endurnýja flesta radíóvitana, sem orðnir eru mjög gamlir og erfiðir í viðhaldi sökum varahlutaskorts. Þá hefur átt sér stað á undanförnum árum veruleg fjölgun ljósdufla, og er sú reynsla, sem komin er af notkun radiósvarvita, ákveðin ábending um, að knýjandi þörf sé á fjölgun þeirra.

Ákveðin hefur verið endurnýjun radíóvitanna og undirbúningur hafinn að fjölgun radíósvarvita.

Væntanleg er mjög bráðlega skýrsla um störf nefndar, sem skipuð var skv. þál. til að athuga radíóstaðsetningakerfi við Ísland með sérstöku tilliti til fiskveiða, en líkur eru til, að slíkt kerfi verði ærið kostnaðarsamt.

Nú er unnið að undirbúningi lokaframkvæmda þess áfanga Rifshafnar, sem hafinn var fyrir 10 árum og ætti að veita þeim bátaflota, sem þar er gerður út, mjög bætta aðstöðu og aukið öryggi. Þá er einnig í undirbúningi hönnun vegna bráðnauðsynlegrar stækkunar Þorlákshafnar og endurhóta á bátahöfninni í Njarðvík.

Hafnasambandið hefur í samstarfi við hafnarstjóra unnið ágætt og mikilvægt starf við endurskoðun og samræmingu á gjaldskrám hafnanna. Hafa mjög margar gjaldskrár þegar verið endurskoðaðar og samræmdar. Ættu hinar nýju gjaldskrár að létta verulega fjárhag margra hafna, — en nokkrar, sérstaklega smærri hafnir, og staðir með mjög dýr mannvirki munu eftir sem áður eiga í miklum erfiðleikum vegna mikilla skulda frá liðnum tíma.

Hinir vaxandi erfiðleikar hafnarsjóðanna leiddu til þess, að á árinu voru hafnalög endurskoðuð af nefnd, sem skipuð var á s.l. ári, og frumvarp að nýjum hafnalögum lagt fyrir seinasta þing, en náði ekki afgreiðslu. Verður það nú borið fram á ný í byrjun þessa þings og vafalaust afgreitt sem lög á þessu þingi. Með hinum væntanlegu nýju hafnalögum verður hagur hafnarsjóðanna bættur verulega og fjárframlög ríkisins til hafnargerða aukin til muna. Þannig eru hin þýðingarmiklu hafnamál nú á ýmsan hátt í deiglunni.

Fjárveiting til flugmála fékkst verulega hækkuð á þessu ári, og er því um nokkuð auknar framkvæmdir í þjónustu flugmála að ræða á árinu. En þar er svo margt ógert, að brýn þörf væri á stórhækkuðum fjárveitingum til þessara mála, enda sanngjarnt og sjálfsagt með tilliti til þess, hve gífurlega þýðingarmikill þáttur flugmálin eru orðin í samgöngumálum þjóðarinnar.

Vil ég nú nefna það helzta, sem framkvæmt hefur verið á árinu og unnið er að um þessar mundir varðandi aðstöðu flugmálanna.

Unnið hefur verið áfram að stækkun Flugstöðvarinnar á Akureyri og byrjað á lengingu flugbrautarinnar til norðurs.

Á Ísafirði var flugbrautin breikkuð og athafnasvæði við flugstöð stækkað. Þá hefur verið unnið að uppsetningu nýs radíóvita við Reykjanesskóla.

Gerðar voru í sumar athuganir á stöðum, sem til greina gætu komið sem nýtt flugvallarstæði hjá Egilsstöðum. Fullnaðarniðurstöður þessara athugana liggja þó ekki enn fyrir, en verður hraðað. Aðflugshallaljós voru sett á norðurenda Egilsstaðaflugvallar. Á Hornafirði var nýtt yfirlag sett á N-S-flugbraut og aðflugshallaljós sett á báða enda hennar. Í Vestmannaeyjum var unnið að því að fullgera lengingu N-S-flugbrautar. Aðflugshallaljós voru sett á báða enda A-V-flugbrautar. Í Stykkishólmi var unnið að gerð nýs flugvallar. Verður þeirri framkvæmd væntanlega lokið á næsta ári. Á Patreksfirði var leitt vatn að flugvellinum og hreinlætisaðstöðu komið fyrir. Þeirri framkvæmd er þó ekki að fullu lokið. Á Þingeyri var nýtt yfirlag sett á flugbrautina, farþegaskýli stækkað og völlurinn girtur. Að Holti í Önundarfirði var flugbrautin lengd um 150 metra. Í Bolungarvík var flugbrautin endurbyggð. Á Þórshöfn var farþegaskýli endurhætt og hreinlætisaðstöðu komið fyrir. Á Bakkafirði var nýr 600 m sjúkraflugvöllur byggður. Á Fáskrúðsfirði var einnig byggð ný flugbraut. Dýrasta framkvæmdin, sem ráðizt var í á árinu, var þó endurbætur á Reykjavíkurflugvelli. Vegna lengingar A-V-flugbrautar varð að skipta um jarðveg á 350 metra kafla, og voru af því malbikaðir 230 metrar. Aðrar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli eru þær, að flugvélastæði hafa verið maíhikuð og haldið áfram girðingu umhverfis völlinn. Unnið er að uppsetningu aðflugsljósa. Aðflugshallaljós hafa verið sett á flugbraut 14 og skýjahæðarmælir keyptur í samvinnu við Veðurstofuna.

Af öðrum fjárfestingum flugmálanna má nefna endurbætur á fjarskiptatækjum ýmissa flugvalla, kaup á slökkvivögnum á helztu flugvelli og færanleg ljósker á nokkrar flugbrautir. Einnig er hafinn undirbúningur að uppsetningu fjölstefnuvita á S-A-landi Og loks hefur flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík fengið til afnota ratsjárbúnað, sem tengdur er langdrægri ratsjárstöð við Keflavikurflugvöll.

Á sviði póst- og símamála er talsverður framkvæmdahraði, þó að mörgum þyki hægt miða og aðkallandi verkefni séu nær óþrjótandi.

Engin samgöngutæki hafa í eins ríkum mæli og siminn rofið einangrun fólksins í sveitunum. Á undanförnum árum hefur verið unnið stórvirki í uppbyggingu sjálfvirks símakerfis. Alls eru nú 60 sjálfvirkar símstöðvar á landinu öllu, þar af 4 á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir fáum dögum var opnuð sjálfvirk símstöð í Búðardal, og ráðgert er að ljúka uppsetningu sjálfvirkra símstöðva í Grímsey og á Kirkjubæjarklaustri á þessu ári. Fyrri hluta næsta árs verður væntanlega lokið við uppsetningu sjálfvirkra símstöðva á Reyðarfirði, Þingeyri, Þórshöfn og í Breiðholti.

Til þessa hafa aðeins örfáir sveitabæir fengið sjálfvirka síma með sérstökum tengibúnaði út frá Brúarlandi, Akranesi, Akureyri og Dalvík.

Á árinu 1974 er svo ráðgert að vinna að uppsetningu sjálfvirkra símstöðva á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi, svo og í sveitum út frá Víðihlíð, Marteinstungu, Aratungu og Hnausum. Að þessum áfanga loknum hefðu allir þéttbýliskjarnar landsins fengið sjálfvirkan síma og sjálfvirki síminn þó einnig hafið innreið sína í sveitirnar. Auðvitað yrði svo unnið að uppbyggingu sjálfvirka símans í sveitum landsins eftir ýtrustu fjárhagsgetu.

Það er álit yfirstjórnar Landssímans, að sérstaka áherzlu beri jafnframt að leggja á radiótalstöðvar í skipum, hátum og farartækjum á landi. Fer notkun þeirra mjög ört vaxandi vegna hagkvæmni og öryggis, sem þær veita. En verkefnin eru aðkallandi á fleiri sviðum símamála. Það verður ekki síður að leggja áherzlu á aukningu langlínukerfisins, en það er nú viða veikburða og þröngt. Þó hefur það nú upp á síðkastið verið bætt stórlega á nokkrum höfuðleiðum.

Milli Reykjavíkur og Selfoss verður fjölsímalínum fjölgaði úr 48 í 120, auk gamla jarðsímans, sem er með 37 línur.

Milli Akureyrar og Húsavíkur hefur verið fjölgað úr 24 fjölsímalínum í 60, auk 24 nýrra lína milli Húsavíkur og Breiðumýrar/Reynihlíðar við Mývatn. Þá hefur línufjöldinn út frá Brú til Hvammstanga verið aukinn í 12 línur og til Blönduóss í 60 línur, sem þó er hægt að fjölga í 120 línur. Sambandið Reykjavík–Ísafjörður hefur verið aukið um 12 línur. — Þetta eru helztu umbæturnar varðandi langlínusamböndin.

Díargar radíótalstöðvar á landssímastöðvum (svokallaðar strandarstöðvar) hafa verið endurnýjaðar, til þess að þær geti svarað kröfum tímans.

Radíóstöðin á Gagnheiði hefur verið aukin að tækjabúnaði vegna símasambanda, sem nauðsynleg verða, þegar sjálfvirka símakerfið á Austurlandi verður orðið útbreiddara, en það gerist nú smám saman á næstu árum.

Á þessu ári hefur verið lokið við smíði póst- og simahúsa á eftirtöldum stöðum: Grindavík, Breiðholti, Reyðarfirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Hveragerði, Vopnafirði, Breiðumýri og á Staðarhóli.

Í smíðum eru póst- og símahús á Þingeyri og á Fáskrúðsfirði.

Á næsta ári er áformað að hefja smíði húsa á Laugarvatni, við Mývatn, í Bolungarvik, á Hellissandi, Varmahlíð og í Keflavík. Og í Reykjavík verður að byggja aðalpóstgreiningarstöð.

Þessu næst koma til greina ný póst- og símahús á eftirtöldum stöðum: Stöðvarfirði, Breiðdalsvík, Djúpavogi, Hólmavík (II. áfangi), Blönduósi (II. áfangi), Brúarlandi og stækkun á Húsavík. Einnig þarf víða að byggja vélahús í sveitum.

Hér hefur aðeins verið stiklað á því stærsta, og má því öllum ljóst vera, að í mörg horn er að líta hjá Pósti og síma.

Ein er sú stofnun, er heyrir undir samgrn., sem eftir lagasetningu 1970 hefur vaxið mjög að verkefnum og þýðingu. Það er Siglingamálastofnun ríkisins. Væri fyllsta ástæða til að gera rækilega grein fyrir starfssviði hennar og störfum, en ég sé, að tími minn er þrotinn, og verður það því að bíða betri tíma.

Herra forseti. Aðeins að lokum örfá orð um landhelgismálið, sem ég vil nefna mál allrar ríkisstjórnarinnar, mál allra stjórnmálaflokka, mál allrar þjóðarinnar.

Það var mikill gæfudagur, þegar allir íslenzkir alþingismenn sameinuðust um að ná þeim áfanga að færa íslenzka fiskveiðalögsögu út í 50 sjómílur. Þennan einróma þingvilja og þjóðarvilja framkvæmdum við 1. sept. síðastliðinn, góðu heilli. En þar með er þó enginn lokasigur unninn. Bendir nú flest til, að þetta hefðum við þurft að gera miklu fyrr. Um það ber brezkum fiskifræðingum og íslenzkum saman, að svo langt sé komið á þeirri braut að útrýma þorskstofninum á Íslandsmiðum, að um 60% af þeim þorski, sem brezkir togarar veiða hér við land, sé nú smáfiskur undir 60 cm á lengd — ókynþroska fiskur. Þetta er líka staðfest álit íslenzkra togarasjómanna, þ.e. reynslu og vísindum ber saman. Þetta er hryllileg staðreynd og ætti að gera öllum ljóst, að fyrst svo er komið, er hér í rauninni ekkert rúm — ég segi ekkert rúm fyrir togaraflota erlendra þjóða. Vegna réttar Íslendinga til að lifa í landinu eru þeir að vísu tilneyddir að auka sóknina á íslenzk mið, og er þó nógu illt að verða að gera það, svo sem komið er. En því miður er sá kostur ekki fyrir hendi að geta rekið alla erlenda veiðiþjófa út fyrir 50 mílna mörkin þegar í stað, sem okkur væri þó lífsnauðsyn að geta.

Kostirnir eru aðeins tveir. Og þá verðum við að meta af raunsæi: Að leggja út í hart stríð sem mér virðist geta staðið í 2–3 ár — við alla erlenda veiðiþjófa, með það takmark fyrir augum að draga sem mest má verða með öllum tiltækum ráðum úr aflamagni þeirra. Hinn kosturinn er sá að freista þess að ná bráðabirgðasamningum við Breta og Þjóðverja, og líður nú brátt að því, að þar verði að bíta úr nálinni. Ég held, að það verði dómur þjóðarinnar, að þann kostinn beri að velja — þótt hvorugur sé góður — sem líklegri verði talinn til þess eftir vandlega skoðun að bjarga þorskstofninum á Íslandsmiðum frá eyðingu. — önnur sjónarmið, svo sem metnaður og annað þvílíkt, held ég verði léttvæg fundin.

En hvaða kostur sem valinn verður, er eitt nauðsynlegt: að þjóðareining um málið verði ekki rofin af neinum. Það er sannfæring mín, að hver sá stjórnmálamaður, sem reyndi að slá sig til riddara á landhelgismálinu, eða sá stjórnmálaflokkur, sem það reyndi, fengi af því enga sæmd. Það sæmir engum að telja sig öðrum heilli í landhelgismálinu, því að í því máli eru allir Íslendingar heils hugar. Hvíslingar um úrtölu- og undanhaldsmenn í þessu máli málanna eru fram til þessa tilefnislausar og aðeins til þess fallnar að grafa undan og veikja samstöðu þjóðarinnar.

Í landhelgismálinu skulum við gera öllum heimi opinbert, að við erum einhuga þjóð, sem á ekkert minna en líf sitt og framtíð að verja og gefst því aldrei upp fyrir ofbeldinu. — Góða nótt.