13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstuttar aths. út af ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. Honum virtist vera mjög þungt niðri fyrir yfir því, að ég hefði sagt, að það væri ófremdarástand í mjólkursölumálum á Ólafsfirði. Ég nefndi miklu fleiri staði að vísu, en málið er þannig vaxið í Ólafsfirði, að þar hefur verið sótt eftir að fá að selja mjólk af hálfu einkaaðila á jafnréttisgrundvelli við kaupfélagið, en ekki fengizt. Það hefur aldrei komið til mála, að einkaverzlunin á Ólafsfirði greiddi ekki nákvæmlega það sama og kaupfélagið fyrir mjólkina, þannig að það væri nákvæmlega jafngott fyrir bændur að selja mjólkina þar. Það hefur aldrei komið til orða, að það væri neitt óhagstæðara fyrir bændur. Þess vegna er þessi saga, sem hv. 4, þm. Norðurl. e. var að segja okkur hér áðan, gersamlega út í hött. Auðvitað hefðu bændur haft nákvæmlega jafngóða aðstöðu og jafnvel betri eftir sem áður, vegna þess að það hefði örugglega verið jöfn og sennilega meiri mjólkursala í Ólafsfirði og alls ekki a.m.k. verið flutt þangað mjólk og seld frá öðrum svæðum, sem var gert, þó að það væri ekki í samræmi við reglur, þannig að það, sem hv. 4, þm. Norðurl. e. var að segja okkur áðan, er gersamlega út í hött. Það hefur aldrei komið til orða í Ólafsfirði, að það væri sótt eftir því frá hálfu einkaverzlunarinnar að standa þannig að mjólkursölumálum, að verra yrði fyrir bændur.

Ég vil í sambandi við þetta mál benda á það, þegar hv. 4, þm, er að spyrja að því, hvort hugsa eigi um kaupmenn, að kaupmenn eru náttúrlega fólk eins og við. Þeir hafa alveg sinn rétt eins og við. En við erum ekki að hugsa eingöngu um kaupmenn í þessu sambandi. Við erum að hugsa um, að það séu eðlilegir verzlunarhættir í landinu og fólk fái að fara í þær verzlanir, sem það vill verzla í, og verzla þar með þær vörur, sem því sýnist. Það er einfalt mál. Það er vitanlegt, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði áðan, að mjólk er þannig vara, að hún laðar að sér viðskiptavini, og þess vegna er hún notuð eins og hún er notuð viða t.d. úti um land. Hún er notuð til þess að halda í þau forréttindi, að fólk verði að koma í ákveðnar verzlanir, það verði helzt að ganga í kringum allt vöruúrval viðkomandi verzlunar til þess að ná mjólkinni, og þetta þarf það að gera á hverjum degi, vegna þess að það sækir mjólkina á hverjum degi. Þetta er ósköp einfalt mál.

Ég held, að við ættum hér á hv. Alþ. að fara að stilla okkur í þessu mjólkurmáli og láta frekar hendur standa fram úr ermum og gera eitthvað, sem raunhæft í málinu.

Mér sýnist, að hv. 2. þm. Sunnl. ætli að bæta einhverju við. Ég vona, að hann hafi í huga það, sem ég sagði áðan um landsbyggðina og þau atriði, sem hann og hæstv. ráðh. voru að tala um fyrr við umr. Að þetta frv. auki dreifingarkostnaðinn og hafi einhver áhrif í þá átt, að það sé hætta á, að það slakni á hollustukröfum, það er gersamlega út í loftið og alveg sérstaklega á landsbyggðinni. Það mundi ekki kosta krónu meira fyrir framleiðendur að láta einkaverzluninni í té mjólkursölu úti á landsbyggðinni. Vitanlega mundi einkaverzlunin fá mjólkina með nákvæmlega sömu kjörum og kaupfélagsverzlanirnar. Og það er engin hætta á því þar, að sölubann yrði á mjólk eða einkaverzlunin reyni að klekkja á framleiðendum með því að fá hækkaða álagningu, vegna þess að þá þyrfti hún að fá kaupfélögin með sér, og við skulum vona, að kaupfélögin stæðu með bændum. Þessar röksemdir eru svo gersamlega út í hött úti á landsbyggðinni, að það er ekki hlustandi á þær. Ég vona að hv. 2. þm. Sunnl. leiðrétti mig, ef hann kemur hér upp og ef ég hef rangt fyrir mér í þessu efni.

En ég vil endurtaka það, að við skulum fara að framkvæma eitthvað í þessu máli, en ekki ræða um það hér endalaust og taka til þess aðra viku undir.