13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar svo langar, að það er engin ástæða til þess fyrir mig að lengja þær mikið, enda er ég víst búinn að tala mig dauðan, eins og sagt er hér í þessum sal. En mig langaði, af því að hér var minnzt á nokkur atriði, sem mér fannst ekki vera farið alveg nógu nákvæmlega rétt með, að gera ofurlitla aths.

Það var hv. 4. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, sem ræddi nokkuð um eignir Mjólkursam. sölunnar hér á samsölusvæðinu, þ.e.a.s. hvað hún ætti mikið fé bundið í mjólkurbúðum. Það er ekki fyllilega rétt, sem hann heldur fram um það. Hann segir, að ef Mjólkursamsalan seldi allar þessar búðir sínar, sem hún á á þessu svæði, mundu sennilega fást 70–80 millj. kr. út úr því. En þetta er langt frá því að vera rétt. Mjólkursamsalan á tiltölulega lítið af þessum búðum. Það er megnið af þeim í leiguhúsnæði, og það fé, sem Mjólkursamsalan hefur bundið í mjólkurbúðum, er 11.5 millj kr.

Hv. þm. gat einnig um það, að hjá samsölunni störfuðu 202 stúlkur, talsvert af þeim að vísu ekki nema hálfan daginn. Þetta er víst alveg rétt, sem bann fer þar með. Mjólkursamsalan er mjög mikill atvinnuveitandi, sérstaklega hér í Reykjavík, hefur í þjónustu sinni 450 manns venjulega og er öruggur og góður atvinnurekandi, og ég hygg, að það yrði talsvert brambolt í kring um það að fækka mjög þessu starfsfólki, sem unir sér vel hjá samsölunni og hefur þar góða atvinnu. Það væri mikil bylting hér í bænum, ef þyrfti að segja upp megninu t.d. af þessum stúlkum, sem vinna við mjólkursöluna. Ég vil taka fram, að þeim er ekki eingöngu borgað með þeirri álagningu, sem er á mjólkinni, í búðum Mjólkursamsölunnar eru einnig seld brauð og ýmislegt fleira, og það ber sinn hluta af kostnaðinum.

Hv. 4. þm. Austf. ræddi nokkuð um upphaf Mjólkursamsölunnar og kvaðst ekki vera kunnugur því, og það er skiljanlegt, því að hann hefur líklega varla verið fæddur þá, a.m.k. verið mjög lítill drengur, þegar það var að gerast. Ég hef upplýst það áður í þessum umr., að þá voru hér um 100 mjóikurbúðir í Reykjavík og meðferð vörunnar var í alla staði mjög slæm. Um það getur hv. þm. lesið og kynnt sér í sínu eigin flokksblaði, Morgunblaðinu, frá þeim tíma, því að Eyjólfur Jóhannsson, sem ég hef áður nefnt í þessum umr. og var forstjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur, var allra manna kunnugastur þessum málum og ritaði mjög ítarlega og góða grg. um þetta mál og birti í Morgunblaðinu, — ég þori ekki að fara með dagsetninguna á því eða árið, en ég á það hjá mér og get bent hv. þm. á það, hvar hann getur fundið þessa ritgerð. En hún er einhver bezta og öruggasta heimild um ástandið eins og það var þá.

Við breytinguna, sem gerð var með stofnun Mjólkursamsölunnar, fór þannig, að dreifingarkostnaðurinn á mjólkinni stórlækkaði. Hann lækkaði um meira en helming, og hollustuhættirnir eða heilbrigðisástandið í sambandi við mjólkursöluna breyttist til hins betra, en því var mjög viða ábótavant. Ég held, að sú breyting, sem þá var gerð, hafi verið til stórkostlegra bóta og við megum vera stoltir af því, bæði þeir, sem að þeirri breytingu stóðu, og allir að hafa slíkt skipulag hér í borginni sem hefur verið á mjólkurdreifingunni og meðferð þessarar vöru hér í borg. Ég held, að Reykvikingar ættu að hugsa sig vel um, áður en þeir krefjast mjög róttækrar breytingar í því efni.

Eins og áður hefur komið fram í þessum umr., hefur hæstv. landbrh. látið þess getið, að hann muni nú fljótlega skipa n., sem í ættu sæti menn bæði af hendi framleiðenda og neytenda, til þess að kanna þetta mál allt. Ég kvíði ekki sem stjórnarmaður í Mjólkursamsölunni þeirri niðurstöðu, sem verður af þeirri athugun, hvað Mjólkursamsöluna og framleiðendur mjólkurinnar snertir.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. taldi, að ég mundi ekki geta verið sér ósammála um, að það væru að öllu leyti skilyrði til þess, að mér skildist, að breyta þessu fyrirkomulagi úti á landi. Um þetta þori ég ekki að dæma, ég er ekki svo kunnugur úti á landi. Ég hygg þó, að í fjöldanum af bæjum og þorpum úti á landi sé engin ástæða til annars en hafa mjólkina á einum stað. Þetta eru ekki stærri staðir en það, að ég efast mjög um, að það séu yfirleitt fyrir hendi nema þá á stöku stað nokkur skilyrði hjá öðrum en kaupfélögum, eins og er a.m.k., til þess að taka sölu þessarar vöru að sér.