13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

60. mál, menntaskólar

(Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt hv. 2. þm. Sunnl., frv. til l. um menntaskóla á Selfossi. Má segja, að það fari vel á því, að þegar mjólkurumr, er lokið, sé farið að ræða um skólamálin.

Í meira en 1000 ár var atvinnulíf Íslendinga nær óbreytt. Sjórinn var sóttur á litlum árabátum með lélegum veiðarfærum. Landbúnaðurinn var með frumstæðasta móti og byggðist á handverkfærum. Landið var ekki ræktað að neinu marki. Heimilisiðnaður var mikill, með sama hætti og verið hafði um aldaraðir, frá byrjun Íslandsbyggðar. Þrátt fyrir dugnað og ástundun var afkoma manna oft slæm og fátækt mikil. Þjóðartekjur voru litlar við þau skilyrði, sem þjóðin bjó við. Ekki bætti það úr, að verzlunarkjör voru yfirleitt slæm og erlendir aðílar tóku mikinn hagnað af lítilli framleiðslu landsmanna.

Íslendingar hafa alltaf verið fróðleiksfúsir og bókhneigðir. Fróðleiksfýsn og sjálfsbjargarviðleitni fjölda manna varð til þess, að Íslendingar kynntu sér nýjungar erlendis og fluttu til landsins ný og afkastamikil framleiðslutæki. Til þess að hin mikilvirku tæki kæmu að fullum notum, varð að kenna mönnum meðferð þeirra. Hefur reynslan sýnt, að Íslendingar eru fljótir að tileinka sér verkþekkingu. Má m.a. nefna okkar ágætu sjómannastétt, iðnaðarmenn og verkmennt og nýjungar á sviði landbúnaðar. Þá er og ljóst, að Íslendingar standast samanburð við aðrar þjóðir á sviði viðskipta og samgöngumála. Þjóðartekjur Íslendinga eru með því hæsta, sem gerist hjá öðrum þjóðum, sem hafa tileinkað sér tækni og verkmenningu.

Vegna þeirrar öru þróunar, sem orðið hefur í landinu, reyndist fært að breyta íslenzku þjóðfélagi frá því að vera frumstætt og fátækt í það, sem kalla má bjargálna framfaraþjóðfélag. Atvinnuvegirnir, sem fengið hafa afkastamikil tæki, gera mögulegt að auka þjóðartekjurnar. Það er vegna aukinna þjóðartekna, sem mögulegt hefur reynzt að halda hér uppi miklum framkvæmdum og góðum lífskjörum almennings. Það er vegna mikilla þjóðartekna, sem unnt er að halda uppi dýru og mikilvægu skólakerfi í landinu. Það sama má segja um heilbrigðismál, heilbrigðisþjónustu, tryggingakerfi og aðra félagslega hjálp. Framkvæmdir allar og opinber þjónusta er möguleg vegna þess, að í landinu eru afkastamiklir og í seinni tíð allfjölbreyttir atvinnuvegir, sem gefa bæði beinan og óbeinan arð í þjóðarbúið.

Íslendingar eiga í samkeppni við aðrar þjóðir. Til þess að standast samkeppnina, þarf þjóðin að tileinka sér þekkingu á sem flestum sviðum. Nauðsynlegt er að fylgjast með hagnýtum nýjungum og tileinka sér það bezta, sem kann að henta íslenzkum aðstæðum. Þess vegna þurfum við skóla, sem veita hagnýtt nám, og reynslu, sem að gagni getur komið. Þótt mikill árangur hafi náðst í batnandi lífskjörum, m.a. vegna fljótfengins sjávarafla, vantar mikið á, að verkþekking og verkmenning séu eins og bezt má verða hér á landi. Það er einnig fullyrt, að skólarnir, þótt þeir séu margir og skólaveran löng hjá mörgum íslendingum, þá hafi skólarnir ekki alltaf veitt hagnýta menntun eða beint nemendunum inn á þær brautir, sem styðjast við verklega mennt.

Samkv. 1. gr. þess frv., sem hér er um að ræða, er lagt til. að menntaskóli verði á Selfossi. Það má vera, að einhverjir segi, að það sé nægilegt fyrir Sunnlendinga að hafa Laugarvatnsskólann. Vissulega er sá skóli mikils virði. Hann er undir góðri og öruggri stjórn og hefur mikla aðsókn. í vetur eru þar 172 nemendur, og varð að vísa 50 umsækjendum frá á þessu hausti. Menntaskólinn að Laugarvatni er landsskóli og verður það áfram. Meiri hluti nemenda er víðs vegar að af landinu, en minni hlutinn af Suðurlandi. Menntaskóli í sveit með heimavist hefur leyst mikinn vanda, sérstaklega fyrir dreifbýlið. Aðsókn að Menntaskólanum að Laugarvatni mun verða áfram mjög mikil og meiri en unnt verður að taka á móti, þótt menntaskóli taki til starfa á Selfossi. Það má ljóst vera, að Menntaskólinn að Laugarvatni er ekki aðeins fyrir Sunnlendinga, heldur gegnir hann mikilvægu hlutverki fyrir landið allt.

Á Selfossi er starfandi gagnfræðaskóli með 340 nemendum. Skólinn hefur í vetur 42 nemendur í tveimur þriðja bekkjar landsprófsdeildum. Unglingar úr 10 hreppum stunda nám í gagnfræðaskólanum á Selfossi, og er þeim ekið í skólann á morgnana og heim seinni hluta dagsins. Þau sveitarfélög, sem hér eiga hlut að máli auk Selfoss, eru Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Gaulverjabæjarhreppur, Sandvikurhreppur, Stokkseyri, Eyrarbakki, Hveragerði, Grafningur og hluti af Grímsneshreppi. Með batnandi vegakerfi er auðveldara að aka nemendum til og frá Selfossi en áður var. Koma því fleiri sveitarfélög til með að nota menntaskólann á Selfossi en þau, sem hér hafa verið talin. Má m.a. nefna Þorlákshöfn, Ölfus og ýmis sveitarfélög í Rangárvallasýslu, eftir að hraðbraut er komin austur um sveitir. Það eru því 9–10 þús. manns á því svæði, sem menntaskóli á Selfossi með heimanakstri mun þjóna, og verður því að segja, að Selfoss sé vel settur miðsvæðis í þessu fjölmenna byggðarlagi. Fólki hefur fjölgað á þessu svæði í seinni tíð. Bendir margt til, að það geti orðið einnig áfram, ef framhald verður á uppbyggingu og auknum atvinnurekstri í héraðinu. Einnig munu bættar samgöngur og hraðbraut um héraðið hafa jákvæð áhrif.

Vera má, að ýmsir telji, að Íslendingar hafi nóg af menntaskólum, það sé ekki þörf á að bæta við menntaskóla á Selfossi eða annars staðar á landinu. Við flm. teljum, að þessi hugsunarháttur sé byggður á misskilningi. Þjóðin þarf nú á enn meiri menntun að halda en nokkru sinni fyrr, gagnhæfri og raunhæfri menntun. Sá menntaskóli, sem á að rísa á Selfossi, er ætlazt til. að verði með öðru sniði heldur en gömlu menntaskólarnir hafa verið. Reglugerð um skólann ákvarðar kennslufyrirkomulag og námsefni. Við flm. teljum, að menntaskólinn á Selfossi eigi að vera valgreinaskóli, sem býr ungt fólk, konur og karla, undir þátttöku í atvinnulífinu og hagnýt störf. Við teljum, að skólinn eigi að skiptast í kjörsvið þannig, að nemendur geti sérstaklega lagt stund á þær valgreinar, sem hugurinn stendur til. Með þeim hætti teljum við vera meiri líkur til en ella, að konur og karlar hefðu að loknu stúdentsprófi áhuga á ýmsum hagnýtum þáttum í atvinnulífinu, en ekki aðeins því, sem snýr að embættismennsku eða skrifstofustörfum. Verði menntaskólanum komið inn á þær brautir, sem tengja nemendurna við atvinnulífið, standa vonir til, að skólavistin verði til þess að beina áhuga nemenda að hagnýtum störfum í atvinnulífi nútímaþjóðfélags. Ef svo fer, er ekki ástæða til að tala um of marga menntaskóla, enda er stúdentspróf tæplega miklu meira virði í dag heldur en gagnfræðapróf þótti vera fyrir nokkrum áratugum. Það er nauðsynlegt, að áhugi þeirra, sem á skólabekk sitja, beinist að verklegu starfi og hagnýtu starfi á tæknisviðinu. Tækniþróað þjóðfélag þarf á fjölmenntuðum tæknimönnum að halda, til þess að þjóðin geti tileinkað sér tæknilegar nýjungar og sjálfvirkni. Hafi þjóðin ekki yfir að ráða fyllstu þekkingu á flestum sviðum, mun hún dragast aftur úr í framleiðni, vinnuafköstum og þjóðartekjum. Menntun er því nauðsynleg fyrir Íslendinga, sem ætla sér að sitja á bekk með þeim þjóðum, sem bezt hafa lífskjör og lengst eru komnar í verklegri menningu.

Það hefur oft verið sagt, að skólarnir gegni ekki á réttan hátt því hlutverki, sem þeim er ætlað að gera, að þeir séu ekki þær uppeldisstofnanir, sem þeir ættu að vera og ætlazt er til, að þeir séu. Um það skal ekkert fullyrt að þessu sinni. En margt bendir til, að kennslan sé ekki alltaf jafnraunhæf og í eins góðu lagi og æskilegt væri. Það kemur fyrir, að menn virðast vera illa að sér á ýmsan hátt, þótt skólaveran hafi verið æðilöng. Skólakerfið er dýrt, en þjóðfélagið hefur rétt til þess að gera háar kröfur til kennara og námsárangurs í skólum landsins.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsöguræðu lengri og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.