17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Ég vil leyfa mér að nota þær fáu mínútur, sem ég hef hér til umráða, til þess að gera grein fyrir helztu störfum utanrrn. þann tíma, sem ég hef starfað þar, svo og því, sem fyrirsjáanlega er fram undan.

Hinn 18. ágúst 1971 fór ég ásamt embættismönnum rn. í fyrsta skipti utan þeirra erinda að kynna opinherlega þá fyrirætlan okkar að færa landhelgina út í 50 mílur hinn 1. sept. 1972. Átti ég þá fundi með ráðamönnum í London og Bonn um þessi mál og reyndi jafnframt að kynna málið í fjölmiðlum, með blaðamannafundum og á annan hátt. Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hélt ég ræðu þann 29. sept. 1971, þar sem ég leitaðist við að skýra afstöðu ríkisstj. til helztu málaflokka, er þinginu var ætlað að fást við. En meiri hluti ræðunnar fjallaði um landhelgismálið og fyrirhugaða útfærslu, og held ég, að mér sé óhætt að segja, að ræðan hafi vakið þó nokkra athygli, og miða þá við það, hversu margir erlendir fulltrúar ræddu við okkur í íslenzku sendinefndinni um það mál, er hún snerti. Síðan hefur verið unnið sleitulaust í utanrrn. að landhelgismálinu, og má greina þau störf í þrennt: 1) samningaviðræður við erlendar þjóðir, 2) þátttöku í störfum undirbúningsnefndar að þriðju hafréttarráðstefnunni og 3) alhliða kynningarstarfsemi.

Um 1. liðinn vil ég segja, að síðan umrædd ferð var farin í ágúst 1971, höfum við átt marga fundi með brezkum og vestur-þýzkum ráðh. og embættismönnum um hugsanlega bráðabirgðasamninga til undanþáguveiða innan 60 mílna markanna, og hafa þær samningaviðræður farið fram í góðri samvinnu við sjútvrn., sem mál þetta af augljósum ástæðum snertir mjög. Þessar samningaviðræður hafa, svo sem kunnugt er, enn þá eigi leitt til niðurstöðu, en allir aðilar hafa lýst sig reiðubúna til áframhaldandi starfa á þeim vettvangi. Nýlokið er hér í Reykjavík könnunarviðræðum embættismanna, íslenzkra og brezkra, og geri ég mér vonir um, að ráðherraviðræður geti farið fram, áður en langt um líður, þar sem reynt verði til þrautar að komast að bráðabirgðasamkomulagi. Og í gær barst ósk þýzku ríkisstj. um nýjar viðræður, sem enn þá er til athugunar hjá ríkisstj. Íslands.

Hinn 16. ágúst s.l. voru undirritaðir samningar við Færeyinga um línu- og handfæraveiðar innan 50 mílna markanna. Þar er ákveðið, að færeysk skip megi veiða innan 50 mílna frá landi eftir nánar ákveðnum reglum, enda sæki þeir um leyfi Íslendinga fyrir þau einstök skip, er veiðarnar hyggjast stunda. Jafnframt var ákveðið að taka síðar upp viðræður um veiðar færeyskra togskipa, en til bráðabirgða fallizt á, að þeir færeyskir togarar, er væru á veiðum innan 50 mílnanna, fengju leyfi til að ljúka yfirstandandi veiðiferð, en yrðu þó að vera horfnir út fyrir mörkin eigi síðar en 1. okt., ef þá væru ekki til komnir nýir samningar. Samkomulag þetta hefur nú verið framlengt um ótiltekinn tíma.

Hinn 7. sept. s.l. var skipzt á erindum við ríkisstj. Belgíu og þar með gengið frá samkomulagi um veiðiheimild til belgískra togara í íslenzkri landhelgi. Aðalefni samkomulagsins er, að Belgar fá rétt til veiða á tilteknum svæðum og tilteknum tímum fyrir þau skip, er hér hafa áður stundað veiðar, enda verði sótt um leyfi til íslenzkra stjórnvalda hverju sinni. samkomulagið gildir til 1. júní 1974, svo sem áðurgreint samkomulag við Færeyinga einnig gerir. Með þessum samkomulagsgerðum hefur verið tryggð í reynd viðurkenning tveggja þeirra þjóða, er hér hafa stundað veiðar, á útfærslu fiskveiðilögsögunnar, og er því um mjög þýðingarmikla áfanga að ræða í baráttu okkar fyrir viðurkenningu hennar.

Svo sem kunnugt er, hafa Pólverjar stundað nokkrar veiðar á Íslandsmiðum, og hafa þeir nú einnig farið fram á viðræður um málið. Utanrrn. hefur af því tilefni falið sendiherra Íslands í Póllandi að kanna, hvaða hugmyndir Pólverjar hafa um hugsanlega samningagerð. Í New York hitti ég utanrrh. Póllands, og lýsti hann þá áhuga sínum á þessum samningaumleitunum, þannig að ég geri ráð fyrir, að þær geti hafizt mjög bráðlega. Einnig hafa Austur-Þjóðverjar látið í ljós áhuga á viðræðum um þessi efni.

Um 2. liðinn, hafréttarráðstefnuna, vil ég segja þetta: Undirbúningsnefnd þriðju hafréttarráðstefnunnar hefur á því tímabili, sem hér er um fjallað, síðan í júlí í fyrra, haldið þrjá fundi, þ.e. í Genf í júlí 1971, New York í marz 1972 og aftur í Genf í júlí og ágústmánuði 1972. Á öllum þessum fundum hafa Íslendingar haft sendinefndir, er skipaðar hafa verið auk embættismanna fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Formaður hefur í öll skiptin verið Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur, sem jafnan hefur haldið á fundunum skeleggar ræður til kynningar hins íslenzka málstaðar, en auk þess hafa allir nm. notað hvert tækifæri, sem gefizt hefur til kynningar í einkasamtölum og á annan hátt. Það virðist samdóma álit íslenzku sendimannanna, að talsvert hafi þokazt í rétta átt á þessum fundum. Engu að síður er varlegra að treysta ekki um of á skjóta lausn landhelgismála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar eð andstæðingar hinnar frjálslyndari kenningar um víðáttu fiskveiðilögsögu eru voldugir og ófúsir til að gefa eftir þau forréttindi, er þeir hafa lengi notið. Mjög er óvíst, hvenær fyrirhuguð ráðstefna verður haldin, og enn þá vafasamara, hvort nægilegur meiri hluti fæst fyrir ákveðinni niðurstöðu. Er því augljóst, eins og nú er komið ástandi fiskistofnanna hér við land, að ekki gat komið til mála að bíða með útfærslu landhelginnar eftir því, að málin leystust á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða.

Um 3. liðinn, kynninguna, má segja, að öflugri kynningarstarfsemi hafi verið haldið uppi og til þess leitað ýmissa ráða. Bæklingar hafa verið gefnir út af utanrrn., og hefur þeim verið dreift- víða. Einnig hafa aðrir aðilar gefið út talsvert af bæklingum, sem víða hafa farið. Gerð hefur verið stutt kvikmynd um málið, óg hefur öllum íslenzku sendiráðunum verið send hún með fyrirmælum um að koma henni á framfæri, og hefur svo verið gert, í flestum tilvikum á blaðamannafundum. Ráðið hefur verið fyrirtækið Wittacker Hunt í London til kynningar á okkar málstað. Þá er einnig vert að geta sérstaklega starfs blaðafulltrúa ríkisstj., Hannesar Jónssonar, sem af miklum dugnaði hefur gengið fram til kynningar á landhelgismálinu erlendis, oft við erfið skilyrði. Síðast, en ekki sízt er vert að geta um mikilsverðan stuðning einstaklinga óg félaga, sem lagt hafa málinu drengilegt lið, en of langt yrði hér upp að telja.

Á 27. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hélt ég hinn 29. f.m. ræðu, svo sem venja hefur verið íslenzkra utanrrh. Að þessu sinni fjallaði ræðan eingöngu um landhelgismálið, og skýrði ég afstöðu okkar til Alþjóðadómstólsins og þeirrar málshöfðunar, sem þar hefur farið fram gegn okkur, afstöðu okkar og vonir þær, er við bindum við 3, hafréttarráðstefnuna, ástand fiskistofna í Norðurhöfum, og endurtók þau almennu rök, er að okkar mati gerðu það óhjákvæmilegt fyrir okkur að færa landhelgina út. Það er auðvitað ekki mitt að leggja dóm á það, hvernig þessi ræðuflutningur hefur tekizt, en ég þori að fullyrða, að málflutningur okkar vakti mikla athygli og átti talsverðan hljómgrunn hjá þeim, er hlýddu, enda þótt auðvitað væru einnig viðstaddir svarnir andstæðingar hans, svo sem fulltrúar Breta, sem sáu sig knúða til að mótmæla strax, en slíkt er fremur fátítt á allsherjarþingum.

Um önnur atriði málefnasamningsins, er utanríkismál snerta, er það að segja, að ég hef leitazt við að hafa náið samstarf við utanrmn. og Alþ., m.a. með skýrslum um utanríkismál, er orðið hafa grundvöllur almennra umr. Ég hef einnig kappkostað að hafa náin tengsl við Norðurlandaþjóðirnar, og leitazt hefur verið við að samræma afstöðu Norðurlandanna til einstakra mála á alþjóðavettvangi. Innan Sameinuðu þjóðanna höfum við skipað okkur í hóp þeirra ríkja, er hjálpa vilja undirokuðum þjóðum til sjálfstæðis og sjálfsbjargar.

Um varnarmálin er það að segja, að þau hafa fallið í skugga landhelgismálsins, og verður að játa, að lítið hefur enn verið gert til efnda á þeim kafla málefnasamnings ríkisstj. Þarf það raunar engum á óvart að koma, þar sem ég hef frá upphafi sagt, að varnarmálin yrðu að bíða, þar til mesta starfið að útfærslu landhelginnar væri að baki, og allir ráðh. í ríkisstj. hafa verið sammála um, að svo þyrfti að vera, þar sem hið fámenna utanrrn. hefði ekki bolmagn til að sinna tveim svo umfangsmiklum málum samtímis. Nokkur könnun á sumum þeirra atriða, er mestu máli skipta í sambandi við úrlausn þessa máls, hefur þó þegar farið fram, en mikið skortir enn á, að henni sé að fullu lokið.

Ég hef nú ákveðið að hefja viðræður við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins í janúarmánuði n.k. Ber þar aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi verður að vona, að mestu annirnar vegna landhelgismálsins verði þá um garð gengnar, og þá verða kosningarnar í Bandaríkjunum einnig afstaðnar, en óhægt mun að ræða þessi mál við Bandaríkjastjórn fyrr en þar er komið sögu.

Sérstakir samningar við Efnahagsbandalag Evrópu hafa þegar verið undirritaðir, svo sem ákveðið var í málefnasamningi ríkisstj. að leitað skyldi. Þeir samningar voru fyrir okkar hönd gerðir af nefnd embættismanna, sem undir forustu Þórhalls Ásgeirssonar ráðuneytisstjóra vann mikið og erfitt starf að undirbúningi þeirra. Samningarnir eru að mati kunnugra okkur hagstæðir, ef undan er skilið það atriði, að handalagið getur ákveðið, að þýðingarmesti hluti samningsins komi eigi til framkvæmda, nema fundin verði — það sem þar er nefnt viðunandi lausn á þeim vanda, er skapast kann við útfærslu íslenzku fiskveiðilögsögunnar. slíkri samtengingu viðskiptasamnings og fiskveiðilögsögu höfum við frá upphafi mótmælt. Vert er að gefa því gaum í þessu sambandi, að samningur sá, sem ég áðan nefndi og gerður var við Belgíu í s.l. mánuði, uppfyllir einmitt þau skilyrði, sem hér greinir, og hefur mér nýlega borizt skrifleg staðfesting á því frá utanrrh. Belgíu.

Samningurinn við Efnahagsbandalagið er vafalaust ein af ástæðunum fyrir því, að Alþ. fól ríkisstj. hinn 15. febr. s.l. með 60 shlj, atkv. að halda áfram samkomulagsumleitunum við Breta og Vestur-Þjóðverja, því að auðvitað væri æskilegast, að öll þessi mál mætti leysa með samkomulagi, þó þannig auðvitað, að fyllsti réttur Íslendinga yfir eigin landhelgi verði tryggður.

Að síðustu get ég þess hér, að ég hef látið kanna nokkuð, á hvern hátt utanríkisþjónustan gæti frekar orðið að liði við markaðskönnun og markaðsleit fyrir íslenzka framleiðslu erlendis en verið hefur. Vonast ég til að geta lagt fram till. um þetta, áður en langt um líður.

Um framtíðina vil ég að lokum aðeins segja, að ljóst er, að áfram verður unnið að þeim málum, er hér hefur verið drepið á, auk þess sem ný úrlausnarefni ber að höndum nær daglega á sviði utanríkissamskipta. Verður hér eftir sem hingað til leitazt við að starfa í þeim anda, er málefnasamningur okkar gerir ráð fyrir: Að mynda sér sjálfstæða skoðun á því, sem að höndum ber, og ráða fram úr því á þann hátt, er samrýmist sjálfstæðu, en vopnlausu smáríki, eins og hæstv. forsrh. komst að orði í ræðu sinni hér fyrr í kvöld, þótt slík skoðanamyndun sé formanni Alþfl. greinilega lítt að skapi, ef marka má ummæli hans hér áðan.

Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góða nótt.