14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

53. mál, vararafstöðvar

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Hjartansson): Herra forseti. Fyrri fsp. hv. þm. Ragnars Arnalds snýr að því, hvort ekki sé unnt að koma því til leiðar, að vararafstöð, sem sett var upp til bráðabirgða á Hvammstanga eftir ísingarveðrið mikla 27. okt. s.l. verði þar til frambúðar.

Á árinu 1970 var gerð athugun á setningu 500 kw vararafstöðvar og jafnframt toppstöðvar í vesturhluta Húnavatnssýslu. Til greina komu tveir staðir, Hvammstangi og Reykjaskóli. Eftir athugun aðstæðna var stöðin sett upp á Reykjaskóla, og þjónar hún sem slík vesturhluta Húnavatnssýslu, Borðeyri og Ströndum. Lína til Hvammstanga frá greinistöð, sem fær orku úr tveimur áttum, þ.e. frá Laxárvirkjun og frá dísilstöð að Reykjaskóla, er um 6 km. Lína þessi hefur aldrei bilað þau 18 ár, sem hún hefur verið í notkun, fyrr en í fárviðri því, sem varð 27. okt. s.l.

Dísilstöð sú, sem tekin var í notkun á Hvammstanga, meðan viðgerð raflínunnar fór fram, var á verkstæði Rafmagnsveitna ríkisins tilbúin til sendingar að Búðardal í Dölum, en þar var bráð nauðsyn á auknu afli. Þegar viðgerð á Hvammstanga var lokið, var dísilstöðin, sem hafði verið sett á bíl, flutt til annarra svæða, þar sem viðgerðir stóðu yfir. Þessi dísilstöð verður því ekki til frambúðar á Hvammstanga, heldur verður hún flutt til Búðardals eins og áformað var. Hins vegar hafa Rafmagnsveitur ríkisins fest kaup á 500 kw. færanlegri dísilrafstöð, sem nú er rétt ókomin til landsins. Verður henni valinn staður á Norðurlandi vestra.

2. fsp. er um það, hve víða standi svo á í þéttbýlisstöðum með yfir 300 íbúa, að ekki séu til staðar varaaflsstöðvar, og síðan er spurt, hvort ekki sé nauðsynlegt af öryggisástæðum að koma upp varaafli á þessum stöðum eða a.m.k. tryggja, að í hverju kjördæmi sé færanleg dísilvél, sem setja megi upp með litlum fyrirvara.

Á þeim þéttbýlisstöðum, sem fsp. víkur að, eru mjög víða á landinu varaaflstöðvar. Er þar víðast hvar um dísilstöðvar að ræða. Það er almenn stefna raforkustjórnar landsins að vinna að því, að varaaflstöðvar verði tiltækar á öllum þéttbýlisstöðum. Unz því marki verður náð, er ætlunin að hafa færanlegar stöðvar, þar sem þess er mest þörf. Eru það einkum tvö landssvæði, þar sem skortir varaafl á tilteknum stöðum, þ.e. Norðurland vestra og Suðvesturland. Nú innan skamms verður bætt úr þörfinni á Norðurl. v. með færanlegri 500 kw. dísilstöð, eins og áður er að vikið. Á Suðvesturlandi verður síðan höfð færanleg varaaflstöð á sama hátt. Í öðrum landshlutum virðist ekki brýn nauðsyn færanlegra stöðva nú sem stendur.

Þó að fsp. taki aðeins til þéttbýlisstaða með 300 íbúum eða fleiri, vil ég víkja nokkrum orðum að dreifbýlisveitunum, en þar er á ýmsum svæðum mjög mikil þörf á varaorku. Á stórum kúabúum, sem tengd eru samveitum með einföldum lögnum, er vá fyrir dyrum, ef línur bila og viðgerð tekur langan tíma. Þá eru m.a. brynningar og mjaltir mjög illa á vegi staddar. Rafmagnsveitum ríkisins er ljós þessi hætta. Þess vegna er haft í huga tvöfalt línukerfi eða hringtengingar.

Þetta er almennt svar mitt við 2. fsp., en ég fór þess á leit við Rafmagnsveitur ríkisins, að þær sendu um þetta mál ítarlega grg., og liggur hún nú hér á borðum hv. alþm. Hún er lengri en svo, að þess sé nokkur kostur, að ég flytji hana hér, enda gerist þess ekki þörf, þar sem þm, hafa hana fyrir framan sig, en ég vil aðeins lesa upp stuttan kafla, sem er á bls. 6, þar sem eru greindar niðurstöður um varaafl í rafveitukerfunum.

Þar eru í fyrsta lagi rafveitur sveitarfélaganna. „Sé Reykjavík og Kópavogi sleppt með um 94 þús. íbúa, eru viðhorfin sem næst þessi: 8 kaupstaðir og kauptún með 26500 íbúa eru með varaaflsvélar í einhverju formi. 8 kaupstaðir og kauptún með 26 þús. íbúa njóta varalínu í einhverju formi, oft mjög veiku, eins og t.d. Hafnarfjörður með 10 þús. íbúa. 5 kauptún með 4 þús. íbúa eru án varaafls.“

Í öðru lagi eru Rafmagnsveitur ríkisins. „30 kaupstaðir og kauptún með 13500 íbúa eru með varaaflsvélar, ýmist sem orkuver með fleiri vélum eða sérstakar vararafstöðvar. 8 kauptún með 4300 íbúa njóta varalína í einhverju formi. 15 kauptún með tæpa 3400 íbúa eru að mestu án varaafls. Sveitaveiturnar, sem ná til 20 þús. íbúa, eru að mestu án varaafls. Samkv. þeirri flokkun, sem hér er gerð, hafa rafvæddir íbúar landsins utan Reykjavíkur og Kópavogs varaafl sem hér segir: 40 þús. íbúar frá orkuverum, 30.3 þús. íbúar frá varalínum, 25–27 þús. íbúar hafa ekkert varaafl.

Enda þótt þetta yfirlit sé að sjálfsögðu ekki nákvæmt, af því að hér er oft um matsatriði að ræða, hvort veita getur talizt hafa yfir að ráða varaafli eða ekki, gefur þetta nokkra hugmynd um núverandi ástand í þessu efni.“

Ég vil einnig leyfa mér að vitna í það, sem segir á bls. 8 um viðeigandi átak til úrbóta í þessu efni, en þar segir, að til þess þyrfti í fyrsta lagi að „koma upp nokkrum nýjum föstum varaaflstöðvum og skipta út þeim lélegustu, sem nú eru fyrir hendi og kallast varastöðvar“, og í öðru lagi að „koma upp hæfilegum fjölda færanlegra stöðva. Hér þarf mikið fé til, vart undir 40–50 millj. kr., ef verulegar úrbætur ætti að gera, og mun meira, ef gera ætti dreifbýlinu skil að marki. Þessi upphæð legðist á Rafmagnsveiturnar sem rekstrarbaggi, sem næmi 5–6 millj. kr. á ári eða 2–3% hækkun á raforkuverði, og eru þá sveitirnar að verulegu leyti óleystar, eins og áður getur. Þessar aðgerðir mætti þó taka í áföngum, og er t.d. núna að koma til landsins ein 500 kw. varavél. „flökkuvél“. Á fjárhagsáætlun næsta árs eru áætlaðar 8 millj. kr. til dísilvélakaupa, og er sú áætlun vafalaust of lág. Að verulegu leyti eru þetta ákvörðunaratriði.“

Og það er mergurinn málsins. Þetta eru að verulegu leyti ákvörðunaratriði. Þegar verið er að meta öryggi í þessu efni, reyna menn að sjálfsögðu að bera saman hæsta fáanlegt öryggi annars vegar og tilkostnaðinn hins vegar, og þær ákvarðanir, sem í verður ráðizt, eru auðvitað málamiðlun á milli. Og það er að sjálfsögðu í höndum Alþ. hverju sinni, hversu miklu fjármagni talið er unnt að veita til öryggisráðstafana af þessu tagi.