14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

265. mál, framhald á gerð Norðurlandsáætlunar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín spurningu í þremur bókstafsliðum, og verður þeim nú svarað.

Framkvæmdum samkv. Norðurlandsáætlun í vegáætlun á þessu ári er ekki öllum lokið. Það er gert ráð fyrir, að til vegaframkvæmda verði varið 100 millj. kr. í samræmi við þá sundurliðun framkvæmda, sem tilgreind er í 6. lið 4 í vegáætlun 1972. Þær 20 millj. kr., sem tilgreindar eru óskiptar í þessari sundurliðun og bætt var við Norðurlandsáætlun við afgreiðslu vegáætlunar á Alþ. á s.l. vori, hafa ekki komið til framkvæmda, þar sem lánsfjár til þeirra hefur ekki verið aflað. Er það raunar vafamál. að unnt hefði verið að koma í verk framkvæmdum fyrir þessar 20 millj. kr., þó að fé hefði verið fyrir hendi, sökum lítils tíma til undirbúnings og skorts á mannafla og tækjum til framkvæmdanna. Þetta var svar við a-liðnum.

Þá er það b-liðurinn: Hvað dvelur framkvæmdir ýmissa áætlaðra verkefna, t.d. á Ólafsfjarðarvegi norðan Hörgár?“ Í umr. um stefnu forsrh. á Alþ. hinn 17. þ.m. var gerð nokkur grein fyrir gangi helztu framkvæmda samkv. vegáætlun og þar með framkvæmda samkv. Norðurlandsáætlun. Var þess þá getið, að nú er unnið að lagningu Ólafsfjarðarvegar milli Hörgár og Reistarár og áætlað, að unnt verði að ljúka þeim framkvæmdum í vetur. Óvenjumiklar framkvæmdir einstaklinga og opinberra aðila á Norðurlandi hafa valdið því, að eigi hefur reynzt unnt að ljúka öllum áætluðum framkvæmdum samkv. vegáætlun yfir sumarmánuðina, sökum þess að tæki og mannafli hafa hreinlega ekki verið fáanleg í þeim mæli, sem þurft hefði. Má í því sambandi geta þess, að 6.5 km kafla af Ólafsfjarðarvegi, sem boðinn var út á s.l. ári og lokið átti að verða 1. ágúst s.l., er enn ekki að fullu lokið, og mun drátturinn að mestu stafa af því, að verktakinn hafi ekki getað fengið tæki og mannafla til þess að ljúka verkinu á tilsettum tíma. Framkvæmdir á Grenivíkurvegi á Svalbarðsströnd fyrir 6 millj. kr. hafa ekki verið hafnar. Er það í samræmi við ákvörðun Framkvæmdastofnunar ríkisins frá 12. maí um sundurliðun framkvæmda samkv. Norðurlandsáætlun, en þar er gert ráð fyrir því, að þessi fjárveiting megi ganga til þess að mæta því, sem á kann að vanta aðrar fjárveitingar vegna verðhækkana á öðrum framkvæmdum í Norðurlandsáætluninni, þar sem undirbúningi að lagningu þessa vegarkafla var mjög skammt á veg komið. Á fskj., sem ég hef hér, er heildaryfirlit um framkvæmdir í vegamálum samkv. Norðurlandsáætlun, en flestar þeirra upplýsinga, sem þar eru greindar, komu fram í umr. á Alþ, hinn 17. okt., en það fskj., held ég, að verði ekki tími til þess að lesa hér, og gæti þá fyrirspyrjandinn fengið þá skýrslu hjá mér.

Þá er það c-liður fsp. Hann er um flugmál. í samgönguþætti Norðurlandsáætlunar fyrir árið 1972 er ekki veitt neitt til flugmála, og eru því framkvæmdir þær, sem nú eru í gangi á Akureyrarflugvelli, utan þeirrar áætlunar. Ekki er kunnugt um, hvort veitt verður fé af Norðurlandsáætlun til Akureyrarflugvallar næsta ár, en í till. flugráðs um framkvæmdir þar árið 1973 og af fjárveitingum til flugmálanna er mælt með eftirfarandi, en það eru vitanlega ekki öruggar endanlegar tölur, þó að till. séu um það nú frá flugráði: í fyrsta lagi lenging flugbrautar 3 millj., í öðru lagi flugstöð, framhaldsframkvæmdir, 3.5 millj. kr. og brautarbíll 0.7 millj., eða samtals 7.2 millj. kr. Það er búizt við því, að hægt verði að taka í notkun viðbótarbyggingu þá, sem nú er unnið að við flugstöð Akureyrarflugvallar á næsta ári.

Þetta eru þau svör, sem ég get gefið hv. fyrirspyrjanda við spurningum hans, og kann að vera, að honum finnist þau ekki fullnægjandi, en svona standa málin, eftir því sem ég bezt veit.