14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

51. mál, samgöngur milli Akraness og Reykjavíkur

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrir nokkru fengu ýmsir aðilar innan þings og utan í hendur skýrslu frá n., sem um árabil hefur rannsakað samgöngur um Hvalfjörð. N. hefur kannað helztu hugmyndir, sem fram hafa komið um bættar samgöngur um fjörðinn, t.d. bílaferju eða farþegaskip milli Reykjavíkur og Akraness, bílaferju yfir Hvalfjörð sjálfan, jarðgöng undir fjörðinn eða brú yfir hann og loks varanlegan veg fyrir fjörðinn. Niðurstaða n. er sú, að hagkvæmast sé að leggja hraðbraut með varanlegu slitlagi inn fyrir Hvalfjörð, en hugsanlegt sé einnig að hafa farþegaflutninga milli Akraness og Reykjavíkur t.d. með skíðaskipi eða með þyrlum.

Þegar Alþ. fjallaði um vegáætlun áranna 1972–1975 snemma á þessu ári, var fjvn. skýrt frá niðurstöðu Hvalfjarðarnefndar, sem n. skilaði þó ekki frá sér formlega fyrr en nú nýlega. Í samræmi við þetta var ákveðið í vegáætlun að hefja á þessu áætlunartímabili framkvæmdir við hraðbraut fyrir botn Hvalfjarðar. Ákvörðun um framkvæmd þessa álits var því tekin meira en hálfu ári áður en álitið var fullgert ag birt.

Þessi óvenjulegu vinnubrögð gefa tilefni til þess að spyrja hæstv. samgrh., hvort hann líti svo á, að með þessari ákvörðun Alþ. og samþykki ríkisstj. hafi álit Hvalfjarðarnefndar verið samþykkt, án þess að nokkrar umr. færu fram um það, í heild innan Alþ. eða utan. Ég spyr um þetta mál af því, að mér er kunnugt um nokkra óánægju með niðurstöðu n., aðallega á Akranesi, og hefur komið til tals að halda þar borgarafund um málið. Virðist vera eðlilegt, að álitið verði kynnt og rætt, áður en frekari ákvarðanir eru byggðar á því.

Önnur spurning mín er, hvort hæstv. samgrh. hafi í hyggju að fara eftir till. Hvalfjarðarnefndar þess efnis, að fram fari frekari athugun á rekstri skips eða þyrlu til farþegaflutninga milli Akraness og Reykjavíkur. Ef það er ætlun ráðh., að slík athugun fari fram, hvernig verður hún framkvæmd og hvenær?

Loks spyr ég, hvort hæstv. ráðh. sé fáanlegur til að láta slíka rannsókn einnig ná til nýrrar bílaferju milli Akraness og Reykjavíkur? Hvalfjarðarnefnd gerir ráð fyrir, að í framtíðinni verði ekki bílaferja milli þessara staða, eins og verið hefur í áratugi. Núverandi skip, Akraborg, flytur um 50 þús. farþega og mikinn fjölda bíla á ári hverju milli þessara staða. Skipið er mjög úr sér gengið, og rík ástæða væri að öðru jöfnu til þess að endurnýja það. Hvalfjarðarnefnd bendir á, að hraðbraut milli Akraness og Reykjavíkur muni stytta aksturstíma svo mjög, að ferja gæti varla keppt við veginn. Þess er þó að gæta, að með núverandi framkvæmdahraða verður varanlegur vegur ekki kominn frá höfuðstaðnum til Akraness fyrr en eftir rúmlega 12 ár, svo að þessi samanburður á því varla við strax. Ég vil því leyfa mér að vona, að hæstv. ráðh. láti áframhaldandi athugun á bifreiðaferju fylgja þeirri rannsókn á farkostum fyrir leiðina á milli Akraness og Reykjavíkur, sem enn verður að gera þrátt fyrir margra ára starf Hvalfjarðarnefndar.