14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

274. mál, orkumál Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Síðustu árin hafa orkumál Norðlendinga verið mjög ofarlega á baugi. Hafa þær umræður fyrst og fremst snúizt um fyrirhugaða Laxárvirkjun. Hugmyndir manna um stórvirkjun í Laxá eru úr sögunni, og þar var um að ræða mál, sem fyrst og fremst var deilumál heimamanna, og af hálfu stjórnvalda, bæði af fyrrverandi núverandi iðnrh., var lögð fram lofsverð viðleitni í þá átt að sætta þá deilu. Eftir að það mál þróaðist í þá átt, sem ég gat um, að lausn á orkuþörf Norðurlands fengist ekki með þeim hætti, vaknaði að sjálfsögðu áhugi nyrðra á því að kanna aðra valkosti til þess að tryggja Norðurlandi nauðsynlega orku, því að það þarf auðvitað ekki að útskýra það fyrir einum eða neinum, að undirstaða atvinnulífs á hverjum stað og ekki sízt nyrðra, þar sem iðnaður er mikill. er að sjálfsögðu háð því, að nægileg orka sé til staðar, og orkuþörf Norðlendinga er á engan hátt fullnægt með viðunandi hætti, eins og er í dag. Norðlendingar hafa sýnt á þessu máli og þeim vanda, sem risið hefur, mjög mikinn skilning og víðsýni og hafa tjáð sig reiðubúna til þess að kanna alla valkosti í því efni. En þeir hafa að sjálfsögðu lagt á það mikla áherzlu, að endanlegar ákvarðanir verði ekki teknar varðandi lausn orkumála Norðurlands nema í samráði við heimamenn, og getur naumast nokkurn undrað það. Það virðist hins vegar vera svo, að af hálfu stjórnvalda hafi verið fyrirhugað að taka ákvarðanir, án þess að haft yrði slíkt samráð við Norðlendinga, sem þeir höfðu óskað eftir. Á s.l. vetri voru að tilhlutan forráðamanna Norðlendinga bornar fram óskir um, að sett yrði á laggirnar viðræðunefnd milli ríkisvaldsins og þeirra til þess að kanna hina ýmsu valkosti varðandi lausn á orkuþörf Norðlendinga. Held ég, að enginn geti annað sagt en að þetta hafi verið mjög sanngjörn ósk.

Ástæðan til þess, að þessi fyrirspurn er fram borin nú, — sem í fljótu bragði virðist vera næsta þarflaust, þar sem hægt virðist vera að kynna sér það mál með öðrum hætti, — er sú, að því miður hefur ekki fengizt enn þá svar frá hæstv. iðnrh. — eða hafði ekki fengizt, þegar þessi fsp. var samin, — um það, hvort orðið yrði við þessum óskum Norðlendinga. En síðasta ósk þeirra um þetta efni er borin fram á nýafstöðnu fjórðungsþingi og hefur verið send okkur þm. Norðlendinga með bréfi frá framkvæmdastjóra Fjórðungssambandsins. Þar segir svo í Íok bréfsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur er vakin athygli yðar, hr. alþm., á samþykkt fjórðungsráðs, þar sem ítrekuð er krafa um, að skipuð verði nefnd af ríkisstjórninni og Fjórðungssambandinu, sem gerir hlutlausa könnun á orkuþörf, orkuöflun og skipulagi á dreifingu orkunnar á Norðurlandi“

Þar sem ekkert svar hafði borizt frá hæstv. iðnrh. eða hæstv. ríkisstj. um, hvort orðið yrði við þessari ósk, sýndist mér eðlilegast, að það fengist skýrt og ákveðið hér á hinu háa Alþingi, þannig að það lægi fyrir, hvort ekki ætti að verða við þessari ósk Norðlendinga, og ef svo væri ekki, þá af hvaða ástæðum. Þess vegna hef ég leyf mér að leggja þessa fsp. fram.