14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

274. mál, orkumál Norðurlands

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Hér er ekki vettvangur til að fara út í neinar meiriháttar deilur um þessi mál. Ég vil aðeins í tilefni af því, sem hv. þm. Magnús Jónsson sagði hér áðan, lýsa yfir, að vissulega hefur núv. ríkisstj. markað nýja stefnu í raforkumálum. Það er staðreynd, sem ég vil á engan hátt víkjast undan að játa á mig, því að það höfum við sannarlega gert. Í þessari stefnumótun felst stóraukin aðild héraðanna bæði að orkuöflun, orkuflutningi og orkudreifingu, og ég hef orðið þess var, að þessi stefna fær mjög góðar undirtektir úti um land, m.a. á Norðurlandi. Ég geri mér vonir um, að það verði mjög fljótlega komið á laggirnar landshlutafyrirtæki, sem annist orkuöflun og orkuflutninga á Norðurlandi. Með því móti er gengið miklu lengra en talað er um í þeirri nefndarhugmynd, sem fram kom í fyrra og var ítrekuð núna af þeirri einu ástæðu, að Fjórðungssambandið ítrekaði fyrri samþykktir sínar um raforkumál. Á sama hátt er verið að endurskipuleggja Rafmagnsveitur ríkisins eða er ætlunin að gera það, þannig að þær fái stjórn í héraði, og einnig þetta er ánægjuefni úti um allt land, einnig á Norðurlandi. Á því er ekki nokkur vafi, að Norðlendingar almennt viðurkenna, að með þessari stefnu er verið að hafa miklu nánari samráð milli stjórnarvalda og Norðlendinga en áður hafa verið og að völd þeirra og áhrif verða allt önnur en þau hafa verið.