14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

274. mál, orkumál Norðurlands

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. Það, sem skilur á um skilning heimamanna á Norðurlandi, og hæstv. ráðh. í þessum efnum, er það, að mér virðist, að hann segist vilja hafa samráð við þá, en neitar samt að skipa samstarfsnefnd við þá. Hann segist vilja hafa samráð við þá, en þeir leggja áherzlu á, að það sé leitað leiða heima fyrir til að afla þar orku, og benda á, að það sé þjóðhagslega betra og öruggara. Á sama tíma, sem þeir segja þetta, segir ráðh.: Ég ákveð að leggja línu norður. Þarna stendur hnífurinn í kúnni, og um þetta er misskilningur á milli Norðlendinga og hæstv. ráðh. í orkumálum. Hann hagar sér allt öðruvísi en hann segist ætla að haga sér um að hafa samráð við þá.