14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgmrh. þessi svör. Hins vegar verð ég að segja það, að ég harma, að framkvæmd þessarar þáltill. hefur gersamlega lent í undandrætti. Upptalning hæstv. ráðh. á því, hvað ríkið greiði til ákveðinna þátta samgangna, kemur þessu ekki við, það hefur ríkissjóður gert í fjöldamörg ár. Það er ekkert nýtt eftir samþykkt þessarar þáltill.

Samgöngukerfið skiptir auðvitað höfuðmáli í sambandi við öll viðskipti við landsbyggðina. hað þróast ekki innflutningsverzlun úti um landið, ef fastar ferðir frá helztu viðskiptaborgum okkar erlendis eru varla fyrir hendi. Þá er auðvitað grundvöllur undir slíkri verzlun og viðskiptum á þessum stöðum brostinn, þannig að viðskiptin verða að fara fram í gegnum Reykjavík, eins og hefur verið, frá því að innflutningshöftin voru sett á sínum tíma. Áður var blómleg innflutningsverzlun viðast hvar um land.

Ég harma því, að það hefur ekkert eða sama og ekkert verið gert til þess að framkvæma þessa till. Það verður að segja eins og er, að það er mikill munur á því, hvar fólk býr á landinu, hvort það býr úti um hina strjálu byggð landsins eða hér í Reykjavík. Það er hægt að hafa verðjöfnun á vöru, sem flutt er inn í tugþúsundtonnatali inn á þéttbýliskjarnann, en ef á að flytja iðnaðarvörur og aðrar vörur, sem er neyðzt til að flytja í gegnum aðalhöfn landsins út um landið, þá á að bæta við háum og miklum flutningsgjöldum og gera aðstöðu þess fólks erfiðari en ella. Stórsigur vannst, þegar jöfnunarverð á olíu var samþykkt hér á Alþingi, og það hafði mjög mikið að segja. Hitt má kannske segja, að hafi skipt minna máli, þegar ríkið vildi sýna réttlæti sitt með því að selja þá vöru, sem það græðir mest á, áfengi og tóbak, á sama verði á útsölustöðum úti á landi og í Reykjavík. Hitt er annað mál, að það hefur mátt bíða lengur eftir því að fá jöfnunarverð á sementi, sem Sementsverksmiðja ríkisins framleiðir. Ef hæstv. samgrh. fengi gefinn upp taxta Skipaútgerðar ríkisins á sementi og bætti við út- og uppskipun á það vörugjald, þá veit ég, að hann mundi fljótt sjá, hvílíkur aðstöðumunur er í sambandi við flutning á sementi og yfirleitt öllu byggingarefni út á land.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta — mál hér. Ég taldi sjálfsagt og eðlilegt að spyrjast fyrir um framkvæmd þessarar þál., en ég harma, að lítið sem ekkert hefur verið gert til bóta í þessum málum.