14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Mér þóttu fróðlegar upplýsingar hæstv. ráðh. um þetta mál, en ég get ekki annað en látið í ljós undrun og hryggð yfir þeim seinagangi, sem verið hefur á framkvæmd þessarar þáltill. hjá fyrrv. og núv. ríkisstj.

Ég vil nota tveggja mínútna ræðutíma minn til að vekja athygli á því, hversu þróun vöruflutninga á sjó á árunum 1960–1970 var neikvæð fyrir strjálbýlið, ef það mætti verða til leiðbeiningar fyrir þá menn, sem starfa að þessum málum. Frá 1930 til 1962 var hægt að fá svokölluð „gegnumgangandi“ vörufarmgjöld á allar viðurkenndar hafnir millilandaskipa eða strandferðaskipa, ef vörur voru þegar frá útlöndum skráðar á endanlegar ákvörðunarhafnir. Samtímis gátu stærri innflytjendur a.m.k. einnig fengið eigendur millilandaskipa til þess að veita „gegnumgangandi“ flutningakjör, þ.e. greiðslu umhleðslu í Reykjavík og greiðslu framhaldsstrandferðafarmgjalds samkvæmt umsömdum afsláttartöxtum fyrir ýmsa þungavöru, þó að henni væri ekki skipt til sendingar út á land fyrr en í Reykjavík. Þessi kjör náðu í mörgum tilfellum einnig til fóðurs, sem blandað var í Reykjavík. Í þessu fólst mjög þýðingarmikil verðjöfnun.

Þetta kerfi var afnumið í þremur áföngum á árunum 1962–1968. 1. marz 1.968 boðaði Eimskip, að umhleðslukostnaður og framhaldsfarmgjöld yrðu ekki greidd fyrir vörur, sem í útlöndum yrðu skráðar til annarra hafna en til Reykjavíkur og Akureyrar. Síðan bættust svo Ísafjörður, Húsavík og loks Reyðarfjörður við þessar tvær hafnir. Skipadeild SÍS setur í seinni tíð skilyrði um tiltölulega mjög stóran vöruslatta, ef þessir hagkvæmu flutningar eiga að fást. Þessi þróun hefur orðið dreifbýlinu dýr. E.t.v. er orsök hennar m.a. sú, að skipafélög, sem hafa skip í millilandasiglingum, hafi verið knúin til þess á undanförnum árum að flytja ýmsar vörur, einkum þær, sem höfðu veruleg áhrif á vísitöluna, fyrir óeðlilega lágt gjald, og nauðvörnin hafi svo orðið niðurfelling „gegnumgangandi“ farmgjalda svokölluðu, sem þýddu stórfellda skattlagningu á atvinnulíf og neyzlu fólksins á ströndinni. Nýjasta dæmi, sem ég veit um, er, að 5 tonn af þilplötum, sem í haust áttu að fara til Austurlands og voru flutt frá Kotka til Reykjavíkur, fyrir 13 713 kr., tóku á sig 7718 kr. viðbótarkostnað vegna viðkomunnar í Reykjavík. M.a. á þessu sérstaka sviði þarf áreiðanlega að snúa við blaðinu, sbr. 4. lið þeirrar fsp., sem hér er til umr.