14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Tveir hv, þm. hafa harmað þann seinagang, sem sé á athugun þessa máls, og má vel vera, að það hefði verið æskilegt að ljúka því fyrr. En málið er engan veginn einfalt, og mér þætti afar vænt um, ef þeir hv. þm., sem vildu hafa hraða á afgreiðslu þessa máls, kæmu með góðar hugmyndir um lausn þess við þá embættismenn, sem nú vinna að málinu, ef það mætti verða til þess að hraða afgreiðslu þess. En staðreyndin er sú, að það er verið að vinna að því af tveimur embættismönnum, sem hefur verið falið að finna lausn á því, hvaða skipting á milli vöruflutninga á landi, sjó og í lofti kunni að vera hagkvæmust frá þjóðhagslegu sjónarmiði og einnig hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til að ná því takmarki. Ég hygg, að þetta sé það, sem fyrir hv. fyrirspyrjanda vakir og flm. þáltill., sem þetta byggist á. Ég vona, að embættismennirnir komist að niðurstöðu með því að hafa náið samráð við aðila flutningakerfisins. Við nána athugun komst ég að þeirri niðurstöðu, að það væri til lítils að setja fulltrúa í n. frá aðalþáttum flutningakerfisins, það mundu aðeins verða uppgjörsfundir um sjónarmið hvers þeirra um sig á hverjum fundi, og ég taldi ráðlegra að setja í þetta embættismenn, sem hefðu síðan samráð við aðila flutningakerfisins. Og hvað sem bráðlæti manna líður, lýsi ég því yfir, að ég rýk ekki í að gera breytingar í þessu máli án athugunar og geri það ekki fyrr en niðurstaða frá þessum embættismönnum liggur fyrir.