14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég fagna því mjög, að hv. 2. þm. Vestf. skuli hreyfa þessu máli hér á Alþ. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að sá aðstöðumunur, sem dreifbýlisfólk á við að búa í samanburði við þéttbýliskjarnann hér á Reykjavíkursvæðinu varðandi það að fá vöru og þjónustu á sambærilegu verði, er geysilegur. Ég er ekki í neinum vafa um, að dreifbýlishjarta hv. 2. þm. Vestf. hefur slegið jafn hratt til dreifbýlisins í þau 12 ár, er hann var í stjórnaraðstöðu, eins og það gerir nú. Og ég veit, að hann hefur hugsað á nákvæmlega sama hátt og hann gerir nú. En hann hefur ekki fengið því áorkað í þessi 12 ár, að neitt ynnist á í þessum efnum varðandi jöfnun á vöruverði og dreifingarkostnaði.

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda og öðrum, sem hér hafa talað, að þarna er stórmál á ferðinni varðandi aðstöðumuninn, sem er úti í dreifbýlinu, miðað við það, sem gerist hér á Reykjavíkursvæðinu, og á þessu máli þarf að taka með röggsemi. Það var ekki gert í 12 ár undir viðreisn, en ég vona fastlega, að það verði gert á næstu mánuðum, — ég tala nú ekki um ár undir vinstri stjórn.