14.11.1972
Sameinað þing: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

64. mál, skipulag vöruflutninga

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér virtist á hv. 7. landsk. þm., að hann gerði sér ekki grein fyrir, um hvað hefði verið spurt hér. Það var beinlínis spurt um framkvæmd á þál. frá árinu 1971, og þá till. hefur sjálfsagt fyrrv. samgrh. haft undir höndum í eina tvo mánuði eða svo, en það kom fram í svari hæstv. samgrh. skýlaust, að það hafi ekkert verið aðhafzt í framkvæmd þessarar till. Nú vill svo til, að þeir, sem voru flm. hennar á sinni tíð, eru í hópi núv. stjórnarsinna, svo að það er ekki óeðlilegt, þótt hv. 5. þm. Austf. sé órótt.

Mér virtist á sumu í svari hæstv. samgrh., að hann svararði í dúr, þegar hann var spurður í moll. Hann lét þess getið, að það væru tveir embættismenn að athuga, hagkvæmni á skiptingu flutninga á milli flugvéla, bifreiða og skipa. Ég fæ ekki komið því heim og saman, hvað þetta kemur beinlínis málinu við. Það getur verið einn þáttur þess, en ég get ekki séð, með hvaða hætti þetta getur verið einn aðalþáttur þess. Ég tel nauðsynlegt að skipuleggja það, hver skiptingin verði, en ég fæ ekki ráðið þá gátu, hvernig það á að vera aðallausn þess að koma á skynsamlegu skipulagi í þessum efnum og að dreifbýlismenn fái notið réttlætis í þessu efni. Greinilegt er, að hér þarf að taka til höndum, enda geri ég ráð fyrir, að svo verði gert innan skamms hér á Alþingi.