17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Gamalt máltæki segir, að enginn fitni af fögrum orðum. Þessi sannindi rifjast upp, þegar hlýtt er á stefnuræðu hæstv. forsrh., Ólafs Jóhannessonar, sem hann flutti í kvöld. Fögru orðin voru stefnuskrá ríkisstj., þegar hún tók við völdum fyrir rúmum 15 mánuðum. Sá frómi óskalisti var prentaður í litlu kveri, og svo kokhraustur var forsrh. þá, að hann skoraði á landsmenn að lesa kverið kvölds og morgna, þá kæmi skilningurinn smám saman.

Fyrstu orð ráðh. í kvöld voru á þá lund, að stefna stjórnarinnar væri óbreytt. Nú var ekki minnzt á að lesa kverið góða kvölds og morgna, heldur þurfti að gefa sérstaka yfirlýsingu um, að stefnuskráin væri enn í gildi. Sennilega hefur hæstv. forsrh. fundist þörf á að fullvissa almenning að þessu leyti, því að ekki verður sagt að verkin tali.

Veigamesta atriðið í stefnuskrá ríkisstj. var fyrirheit um 20% hækkun á kaupmætti launa á næstu tveimur árum. Þarna var markið sett hátt, og væri sannarlega ánægjulegt, ef þessi stefna yrði að veruleika. En eitt er að ráðgera, annað að framkvæma. Nú, aðeins 15 mánuðum síðar, nefnir forsrh. þetta loforð ekki einu orði í stefnuræðu, heldur er meginboðskapur hans sá, að þjóðin verði að lækka seglin. Hann segir í ræðu sinni, að þegar litið sé til neyzlustigsins og afkomu fólksins, sé enginn voði á ferð, þótt við verðum að lækka ofurlitið seglin. Ráðh. segir með þessum orðum við launþega, þ. á m. þá, sem greiða nú öll eða svo til öll laun sín í skatta, að lífskjör þeirra séu fullgóð, þeir megi draga saman seglin. Það á sannarlega við máltækið gamla: Enginn fitnar af fögru orðum þessarar ríkisstj. Við eigum aðeins eftir að sjá, hvernig hún fer að því að láta alþýðu landsins draga saman seglin.

Það hefur verið alþjóð ljóst frá upphafi, að samkomulag ráðh. innan ríkisstj. væri ekki sem bezt. Síðustu vikurnar hefur framkoma Lúðvíks Jósepssonar við samrh. sína verið með slíkum endemum, að þess eru engin dæmi. Forsrh. hefur sýnt Lúðvík ótrúlega langlundargeð og ekki gert minnstu tilraun til að bera hönd fyrir höfuð sér. Forsrh. ætti þó a.m.k. að ávita Lúðvík fyrir þá furðulegu vanrækslu að hafa ekki undirbúið löggjöf og reglugerðir um það, hvernig við Íslendingar ætlum sjálfir að nýta hina nýju landhelgi, sem við stöndum nú allir saman um. Lúðvík virðist vera svo upptekinn af því að þykjast vera utanrrh., að hann sinnir ekki einu mikilvægasta hlutverki sjútvrh., sem er að hugsa fyrir því, hvernig Íslendingar eigi að skipuleggja veiðar sínar innan 50 mílnanna. Nú fyrst, eftir að landhelgin hefur verið færð út, tekur til starfa n. alþm., sem er sagt að vinna verkið. Það ríkir því miður algert ráðleysi í þessum efnum á stjórnarheimilinu, og málinu verður vafalaust ekki sómasamlega bjargað, nema sjómenn og útgerðarmenn um land allt láti til sín heyra og bendi á leiðir til lausnar. Þetta er vandasamt mál, af því að við verðum að tryggja okkur sjálfum eins góðan hlut af aflanum innan landhelginnar og framast er unnt, en um leið verðum við að koma að eins mikilli verndun fiskistofnanna og hægt er. Þetta mál hefur einnig geisimikla þýðingu út á við, af því að Bretar rægja okkur ekki sízt fyrir það, að við stundum rányrkju og okkur sé ekki treystandi fyrir vernd fiskistofna. Okkur er áríðandi að sanna, að þetta er lygi, sem þeir láta auglýsingarfyrirtæki sín í Sviss breiða út um allan heim okkur til minnkunar.

Lúðvík Jósepsson hefur ekki mátt vera að því að sinna þessu máli. Og það er ýmislegt fleira, sem hann hefur vanrækt. Hann er einnig viðskrh. og er að vísu búinn að gera samning við hið mikla Efnahagsbandalag, svo mjög sem hann hafði áður fordæmt það. En hann er einnig ráðh. verðlagsmála og þar með verðlagseftirlitsins, sem snertir hvert heimill nálega hvern dag. En á þeim sviðum eru afrek hans ekki ýkjamikil eða fögur.

Hinn hógværi forsrh. veitti Lúðvík að vísu í ræðu sinni í kvöld áminningu, er hann sagði: „Það er óhjákvæmilegt, að verðlagseftirlitið verði miklu raunhæfara en verið hefur.“ Þetta eru athyglisverð orð. Forsrh. ríkisstj. hinnar vinnandi manna, eins og hún kallar sig, segir eftir 15 mánaða stjórn, að það sé óhjákvæmilegt, að verðlagseftirlit verði raunhæfara. Skyldi aldrei hafa hvarflað að hæstv. ráðh., t.d. ekki að sjálfum verðlagsráðh. Lúðvík Jósepssyni, að vinnandi menn eru líka neytendur, raunar stærsti hópur neytenda í þessu landi og sá, sem mest þarf á neytendavernd að halda? Lúðvík Jósepsson og ríkisstj. lét ekki standa á því að heimila fjölmargar og miklar verðhækkanir, þegar verzlun, iðnaður, hinir og þessir kapítalistar eða opinberar stofnanir lögðu fram kröfur sínar. En þeir hafa ekkert gert til þess að auka verðlagseftirlit og vernda þannig hagsmuni neytenda. Af hverju eru ekki birtar upplýsingar um lægsta og hæsta verð á nauðsynjum neytendum til leiðbeiningar, eins og einu sinni var gert? Hvernig stendur á því, að Lúðvík Jósepsson hefur ekki flutt frv. um neytendavernd, sem hefur legið tilbúið í skúffu í rn. hans síðan hann kom þangað? Hvernig stendur á því, að Lúðvík Jósepsson og þeir félagar hans í ríkisstj. hafa yfirleitt ekki sinnt málefnum neytenda á nokkurn hátt eða sýnt þeim nokkurn áhuga?

Nú er vanræksla Lúðvíks Jósepssonar á þessu sviði gengin svo langt, að jafnvel forsrh. hefur misst þolinmæðina og veitir honum áminningu í sjálfri stefnuræðu ríkisstj. með því að segja það óhjákvæmilegt, að verðlagseftirlit verði gert raunhæfara.

Það má e.t.v. skjóta inn þeirri ráðleggingu til handa Lúðvík Jósepssyni, hæstv. verðlagsmálaráðh., að hafa hann ekki tíma til að sinna málefnum neytenda, þá sjaldan hann er hér heima, þá gæti hann kynnt sér skipan neytendamála í Washington, Moskvu, London, Genf, Austur-Berlín eða hvað þær heita, allar borgirnar, þar sem hann tíðast er. Neytendalöggjöf er örugglega mjög fullkomin á öllum þessum stöðum.

Íslendingar bera nú ugg í brjósti út af framþróun efnahagsmála. Það má að vísu segja um afkomu okkar, að saman liggja veður og óveður. Það er oft skammt á milli feitu áranna og hinna mögru. Þó hefur núv. ríkisstj. slegið öll met með því að breyta blómlegu góðæri á einu ári í slíkan ólgusjó erfiðleika, að enginn sér fram úr þeim í dag.

Efnahagsmálin hljóta alltaf að vera mál málanna, eins og hæstv. forsrh. sagði réttilega, og verður framar öllu að leggja áherzlu á að halda atvinnutækjum gangandi og tryggja þannig bæði atvinnu og afurðir til að selja. Á þessu byggjast lífskjör allrar þjóðarinnar beint eða óbeint. Vandinn er öllum ljós í stórum dráttum. En í stefnuræðu ríkisstj. getur forsrh. ekkert sagt þjóðinni um lausn vandans annað en það tvennt, að skipuð hafi verið nefnd og þjóðin þurfi nú að lækka seglin.

Erfiðleikarnir byrjuðu að segja til sín s.l. sumar, en þá gat ríkisstj. á nærri eins árs afmæli sínu ekkert gert nema bráðabirgðaráðstafanir. Aftur knúði vandinn að dyrum 1. okt. og þá var enn gripið til bráðabirgðaráðstafana og gengið í þá sjóði, sem ætlaðir eru til að mæta erfiðleikum verðlækkunar erlendis, sem við þekkjum af illri reynslu. Það er lítil stjórnvizka að fleyta sér á því að éta upp slíkt sparifé.

Fjárlög hafa verið lögð fram, og þau benda til þess, að á hálfu öðru ári muni ríkisstj. takast að tvöfalda upphæð fjárl. Fjármálastjórn Íandsins hefur verið eins og að skvetta olíu í eld verðbólgunnar með þeim afleiðingum, sem öllum eru kunnar. Til þess að hækka fjárlög enn um marga milljarða kr. verður auðvitað að leggja þessa upphæð á landsfólkið í einu eða öðru formi. Um annað er ekki að ræða. Það er t.d. þegar ljóst, að tekjuskattur einstaklinga á að hækka á annað þús. millj. kr. Það væri gaman að spyrja hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson, sem talaði hér áðan, hverjir hann haldi, að eigi að greiða þetta fé, og hvaðan það eigi allt að koma, ef hann heldur, að ekki verði komið við kjör neytendanna, við kjör launþeganna, bæði þeirra, sem hafa lítil laun, miðlungslaun, og svo hinna breiðu baka.

Þrátt fyrir allt þetta er fjárlagafrv. eins og hálfsögð saga. Í það vantar stórupphæðir, sem augljóst er, að verður að setja í fjárlög. Þar á meðal má nefna uppbætur og annað, sem snertir verðlag og vísitölu, og bendir ýmislegt til þess, að nú sé skollaleikur á ferð, vísitölubreytingar eða annað, sem velti yfir á launþega stórupphæðum, án þess að þeir fái þær bættar. Þetta á allt eftir að koma í ljós, og er ráð að fylgjast vel með afgreiðslu fjárl. og breytingum skattal., ef þær sjá þá dagsins ljós á þessu þingi.

Núv. ríkisstj. hefur að langmestu leyti búið til þá erfiðleika, sem nú steðja að framleiðslunni og ríkissjóði og stofna afkomu almennings í hættu. Ríkisstj. virðist að vísu ekki traust á fótunum, ósátt innbyrðis og ýmsir líklegir til að hlaupa úr henni. En hún verður að horfast í augu við það ástand, sem hún hefur sjálf magnað, og sýna þjóðinni, hvernig hún leysir vandamálin. Ráðh. segja hver af öðrum, að stjórnarandstæðingar vilji ríkisstj. feiga og það sem fyrst. Ég er ekki í þessum hóp. Ég vil hana ekki feiga, fyrr en hún hefur staðið andspænis þeim vandamálum, sem hún hefur sjálf skapað og sýnt þjóðinni, hvernig hún ræður bót á þeim. Ég vil, að íslenzka þjóðin fái að sjá svart á hvítu, hvernig Frjálslyndir, Alþb. og Framsókn bregðast við vanda sem þessum, og þau viðbrögð verði borin saman við orðræður og yfirlýsingar þessara flokka og manna, meðan þeir voru í stjórnarandstöðu undanfarin áratug eða svo. Sá samanburður mun verða lærdómsríkur fyrir Íslendinga.

Þökk þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.