14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér sýnist ekki úr vegi, að í sambandi við þá mjög svo gagnlegu till., sem hér er til umr., verði tekið til athugunar það erindi, sem okkur alþm. barst núna í vikunni sem leið, varðandi unga fólkið utan af landsbyggðinni, sem stundar nám í hinum ýmsu framhaldsskólum höfuðborgarinnar og er ofurselt því ástandi, sem hv. frsm. till. lýsti hér áðan, þ.e. skorti á leiguhúsnæði. Bréfið er undirritað af fulltrúum þriggja samtaka framhaldsskólanema, þ.e.a.s. fulltrúum Sambands ísl. kennaraskólanema, nemendaráðs Kennaraskóla Íslands og Landssambands ísl. menntaskólanema. Í bréfinu segir m.a., að námsfólk utan af landsbyggðinni sé algerlega háð sveiflum á húsnæðismarkaðinum hér í borginni og með tilliti til þess, að æ fleira námsfólk utan af landi stundi nám hér á Reykjavíkursvæðinu, sé ljóst, að slíkt sé með öllu óviðunandi ástand. Þetta er hverju orði sannara.

Háskóli Íslands starfrækir, sem kunnugt er, stúdentagarðana og mötuneyti og aðra slíka húsnæðisaðstöðu fyrir nemendur sina. En af öðrum framhaldsskólum hér í Reykjavík munu aðeins tveir geta boðið nemendum sínum að búa og borða í heimavistum, þ.e. Hjúkrunarskólinn og Stýrimannaskólinn. Hinir framhaldsskólarnir allir, þ.e. menntaskólarnir og hinir fjölmörgu framhaldsskólar hér, þ. á m. ýmsir þeir, sem einir eru til sinnar tegundar hér á landi, eins og t.d. Tækniskólinn og Kennaraskólinn, — en á þetta er einnig bent í bréfinu til okkar alþm., — þessir skólar eru allir starfræktir án nokkurrar heimavistaraðstöðu og án nokkurra mötuneyta, sem heitið geti. Nemendur þessara skóla, — samkvæmt upplýsingum, sem ég fékk nú í morgun, — eru í vetur 12 020 talsins. Mun 1/10 hluti af nemendum a.m.k. vera fólk, sem á fast heimili utan þess svæðis, sem nefnt hefur verið Stór-Reykjavík, þ.e.a.s. utan höfuðborgarinnar sjálfrar, Kópavogs og Hafnarfjarðar. Flest af þessu fólki er í Kennaraskólanum, sennilega um 250 manns, enda er sá skóli, eins og ég hef þegar drepið á, hinn eini sinnar tegundar á öllu landinu. Hingað verður þetta fólk að koma, ef það ætlar að sækja sér menntun. Sumir af þessum nemendum ganga raunar að húsnæði vísu hjá ættingjum og kunningjafólki hér á höfuðborgarsvæðinu, og aðrir hafa verið svo heppnir að geta tryggt sér leiguherbergi á sanngjörnu verði hjá einhverju heiðarlegu og góðu fólki, meðan á náminu stendur. Það er, hamingjunni sé lof, til gott og heiðarlegt fólk, sem hefur tök á því að taka slíka leigjendur. En þeir eru líka margir, — ætli þeir séu ekki fullt eins margir þeir nemendur úr þessum hópi, sem verða að eyða löngum tíma í það haust eftir haust að þreifa sig fram og aftur um þann frumskóg, sem húsaleigumarkaðurinn hér á höfuðborgarsvæðinu er orðinn.

Ég hef átt þess kost að ræða við sumt af þessu unga fólki, og það hefur sagt mér dæmi um erfiðleika sína. Oft verður harla lítið, næstum má segja ekki neitt, úr skólanáminu fyrstu vikurnar, vegna þess að nemandinn er með allan hugann við þann ógnarvanda að fá einhvers staðar herbergiskompu leigða. Á meðan fær hann oftast nær til bráðabirgða að sofa í herbergi hjá einhverjum kunningja sínum, þar sem veitir kannske ekkert af plássinu handa einum. En fyrir það, sem þetta unga fólk missir í skólanámi, öðlast það talsverða þekkingu, sem e.t.v. mætti flokkast undir þjóðfélagsfræði. Það kvartar kannske undan því, að herbergi sé lítið, óvístlegt og kalt og umfram allt allt of dýrt, og það fær þá oft þetta svar: Jæja, farðu þá. Ég get fengið nóga leigjendur. — Svipað svar fær það, ef það minnist t.d. á leigusamning. Að nefna leigusamning er í augum furðumargra leigusala hin argasta ósvífni. Þannig öðlast þetta unga fólk mikilvæga fræðslu um réttarstöðu sina í þjóðfélaginu. Og þegar leigan er greidd, oft æðihá leiga og kannske allur veturinn fyrirfram, þá fær þetta unga fólk oft að heyra þessa setningu: Og svo manstu að láta þetta hvergi koma fram. — Þannig öðlast þessi uppvaxandi kynslóð Íslendinga einnig hagnýta tilsögn í skattamálum.

Já, svona er þetta, og sannarlega ekki að ófyrirsynju, að í bréfi sínu til okkar alþm. kvartar þetta unga fólk undan ástandinu og hvetur til þess, að stofnaðar verði heimavistir til þess að leysa þennan vanda. Slíkar heimavistir virðist sjálfsagt að nota sem ferðamannahótel af ódýrara tagi að sumrinu, eins og löngum hefur verið um stúdentagarðana og heimavistir margra skóla úti á landsbyggðinni. En hvað þá um hótel Esju? spyr kannske einhver í þessu sambandi. Er það ekki rétt munað, að þegar sú hótelbygging var á döfinni, hafi fengizt sérstök fyrirgreiðsla í Seðlabankanum vegna þess, að forráðamenn fyrirtækisins höfðu heitið menntmrn. því, að hótelið yrði að vetrarlagi notað sem nemendabústaður að einhverju eða jafnvel öllu leyti? Jú, jú, þetta er alveg rétt munað, eða svo segir mér a.m.k. sá maður, sem þá var menntmrh. Hann er því miður ekki staddur í salnum núna, hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason. Menntmrh. og Seðlabankinn munu hafa gert ráð fyrir, að íburði öllum yrði þarna svo í hóf stillt, að hægt yrði að leigja skólafólki herbergin á skaplegu verði. En hvernig sem á því stóð, varð úr þessu enn eitt lúxushótelið, og skólafólk, sem í vandræðum sínum leitaði til Hótel Esju núna í haust, fékk þau svör, að þar væri að vísu hægt að fá nóg af herbergjum, — í hótelinu munu vera rúm fyrir um það bil 270 manns, — en herbergið átti að kosta um 12 þús. kr. á mann á mánuði, jafnvel þó að um væri að ræða tveggja manna herbergi. Slíka húsaleigu getur að sjálfsögðu enginn venjulegur skólanemandi greitt, enda munu engir slíkir fyrirfinnast sem fastir gestir á Hótel Esju. — Svona fór sem sé um sjóferð þá.

En ég spyr: Væri nú ekki rétt fyrir stjórnarvöldin að athuga nánar um þetta fagra fyrirheit, sem forráðamenn hótelsins gáfu forðum? Mætti ekki athuga hvort ekki mætti einhvers staðar t.d. í Seðlabankanum grafa upp eitthvert plagg þar að lútandi, svo að hægt sé að herma fyrirheitið formlega upp á forráðamennina og í krafti þess að uppáleggja þeim að leyfa nokkrum hópi skólafólks afnot af einhverjum herbergjum hótelsins á skaplegu verði. Ég held a.m.k., að fáum fyndist það nein goðgá, og varla getur það heldur flokkazt til þjóðhagslegra glæfraverka, þó að eitt af þeim mörgu lúxushótelum í höfuðborginni, sem standa hálftóm mestan part vetrarins, verði að einhverju leyti notað til þessara þarfa.

Víkur nú sögunni að öðru hóteli. Hér við Skipholt er lítið hótel, Hótel Nes, og þar er gistirými fyrir 28 manns. Núna í haust gerðu 28 kennaraskólanemar með sér félag og tóku þetta hótel á leigu, og þarna býr þetta fólk, 6 stúlkur og 22 piltar. Stúlkurnar, tvær eða þrjár, munu sjá um alla matargerð, en einhverjir piltanna annast aðdrættina, og hópurinn skiptist svo á um uppþvotta og ræstingu og önnur slík störf, sem snerta eðlilegt og gott heimilishald. Ég heimsótti þennan stað nú ekki alls fyrir löngu, dvaldist þar kvöldstund, og ég sannfærðist um það, að heimilisbragurinn er þar hinn prýðilegasti og dálítið svipaður því og gerist á friðsælum sveitaheimilum, enda munu margir þessir nemendur hafa fengið uppeldi sitt á slíkum heimilum. Andrúmsloftið, svo maður taki nánara dæmi, er þarna ekki ósvipað því prúðmannlega andrúmslofti, sem ríkt hefur á áheyrendapöllum Alþingis í dag. En skylt er að geta þess, að menntmrn. veitti þessu fólki nokkra fyrirgreiðslu, þegar það var að taka hótelíð á leigu, og lagði fram fjárstyrk til að létta því húsaleigukostnaðinn, og fyrir þessa aðstoð er þetta fólk þakklátt og væntir þess, að það megi eiga vísan styrk og helzt nokkru meiri, ef hótelið fengist aftur til sömu nota næsta vetur. Þetta er ekki neitt lúxushótel, síður en svo. Og sá partur, sem hver þessara nemenda borgar af hinni sameiginlegu húsaleigu, er líklega heldur lægri en það, sem algengast er, að skólafólk borgi fyrir sæmileg herbergi í einkahúsum hér og þar um borgina. En þetta fólk nýtur svo þess að hafa sérstaka rétt þokkalega setustofu til eigin afnota.

Það er vikið að því í margnefndu bréfi til okkar alþm. um húsnæðismál skólaæskunnar, að þessi lausn sé að vísu hvergi nærri fullnægjandi, enda aðeins til bráðabirgða, en bréfritararnir vænta þess, að hún geti orðið yfirvöldunum til eftirbreytni, eins og það er orðað. Bréfritarar láta sem sagt vinsamlegast í ljós þá von, að sjálfsbjargarviðleitni þessa unga fólks, eins og hún birtist t.a.m. í þessu rösklega framtaki þess, verði yfirvöldum hvatning til að leysa vandann til frambúðar með því að koma upp myndarlegum nemendabústöðum eða heimavistum, og á meðan beðið er eftir þeirri lausn, verði sem mest reynt að leysa vandann til bráðabirgða með þessum hætti, þ.e. með því að útvega hús, sem heppileg væru til þess að gegna sama hlutverki og Hótel Nes gegnir í vetur og orðið gætu ofurlitlar heimavistir hvert um sig, og þyrfti þá að koma til að sjálfsögðu góð fyrirgreiðsla af hálfu hins opinbera, en unga fólkið mundi fyrir sitt leyti ekki telja eftir sér að annast sjálft um reksturinn.

Í þessu títtnefnda bréfi til okkar alþm. er einnig minnzt á þörfina fyrir mötuneyti. Sú þörf er viðurkennd og henni fullnægt í flestum meiri háttar stofnunum, og maturinn er þar niðurgreiddur og það svo að um munar. T.d. liggur það fyrir, að útgjöld ríkissjóðs vegna slíkra niðurgreiðslna á fæðiskostnaði í mötuneytum ríkisstofnana var s.l. ár hvorki meira né minna en 60 millj. kr., sbr. ræðu hæstv. fjmrh. hér um daginn. Allir bankarnir, t.a.m. hér í miðbæ Reykjavíkur, reka mötuneyti, og starfsfólk mun víðast hvar vera látið borga um 40 kr. fyrir hverja máltíð, sem metin er annars á 100 kr., ef utanaðkomandi fólk borðar þarna. Bankarnir borga sjálfir mismuninn. Þetta er talin sjálfsögð þjónusta, jafnt í hinum stærri bönkum, eins og t.d. hinum stærsta, Landsbankanum, þar sem starfsfólkið mun vera hátt á þriðja hundrað, sem í hinum smærri, þar sem starfsfólk er ekki nema nokkrir tugir. Og hver neitar því, að þetta sé sjálfsögð þjónusta? Matur er mannsins megin. En hér í miðbænum, — svo að segja á sömu torfunni og allir bankarnir, og þessi torfa er stærri en sú, sem kennd er við Bernhöft gamla, þar sem eru þessir bankar allir og ríkisstofnanir og aðrar stofnanir með sín mötuneyti, þar eru tveir menntaskólar með samtals um 1600 nemendur, og þegar við bætist kennarafjöldinn, sem starfar við þessa skóla, lætur nærri, að þessir tveir skólar séu starfsvettvangur fyrir um 1700–1800 manns. En þar er ekki um að ræða neina þá sjálfsögðu þjónustu, sem nú var frá sagt, ef undan er skilið kókó og brauð, sem nemendur gamla menntaskólans geta keypt sér á morgnana í löngu frímínútunum í kjallaranum á Casa nova. Svipað er að segja um flesta hina framhaldsskólana. Nemendur þeirra eiga oft svo langt að sækja í skólana og stundatöflu þeirra oft þannig háttað, að ógerningur er fyrir þá að skreppa heim og borða í hádeginu, og gildir þetta að sjálfsögðu ekkert frekar um þá nemendur, sem eru utan af landsbyggðinni, heldur en hina, sem eiga fast heimili utanvert á því mikla og vaxandi flæmi, sem nefnt hefur verið Stór-Reykjavík. Samt geta þessir nemendur, þessi uppvaxandi kynslóð okkar, með alla sína vaxtarverki ekki fengið í húsakynnum skólanna neinn þann undirstöðumat, sem t.a.m. hver banki telur sjálfsagt að bjóða starfsfólki sínu, af því að bankastjórar skilja að sjálfsögðu manna bezt sannleiksgildi hins fornkveðna, að matur er mannsins megin. En uppvaxandi kynslóð okkar á ekki annars völ en hlaupa í næstu sjoppu, þar sem á boðstólum er þjóðarrétturinn frægi, Prince Polo og drykkurinn Coca cola.

Þetta er að sjálfsögðu geysilegt vandamál og alls ekki auðleyst, og um þetta er alls ekki við yfirvöld hinna ýmsu skóla að sakast. Það stendur yfirleitt ekki á þeim að bæta úr þessu, ef möguleikar bjóðast til slíks. Þannig t.d. er nú unnið að því að koma upp mötuneyti við Hamrahlíðarskólann. Það væri líka mikil ósanngirni að kenna núv. hæstv. menntmrh. um þetta allt, að ætlast til þess, að hann hafi kippt þessu öllu í lag á því aðeins rúma ári, aðeins 16 mánuðum, sem hann hefur gegnt embætti sínu. Þetta er aðeins eitt af svo fjöldamörgu, sem sigið hafði jafnt og þétt til vaxandi vandræða árum og áratugum saman, áður en hann tók við skólamálum. En ef hæstv. menntmrh. á að geta komið til leiðar einhverjum verulegum úrbótum á þessu sviði, verður hann að sjálfsögðu að geta treyst á liðsstyrk okkar alþm. Okkur ber skylda til þess að sjá svo um, að Alþ. láti ekki sinn hlut eftir liggja. Það er þess vegna, sem ég hef vakið máls á þessu hér, enda verið til þess hvattur af ýmsum forustumönnum þessa unga fólks, sem mál þessi varða, og það er þess vegna, sem svona margt fólk hefur verið á pöllum Alþ. í dag. Þetta fólk kom ekki vegna Bernhöftstorfunnar, eins og sumir munu hafa haldið.

Hugmynd mín er sú, að n., sem fær til meðferðar þá till., sem hér liggur fyrir, taki einnig til vinsamlegrar athugunar þessi mál, sem ég hef rætt hér sérstaklega, og sjái svo um, ef fært þykir, að einnig verði stefnt að varanlegri lausn þeirra í því lagafrv., sem till. gerir ráð fyrir, að undirbúið verði, en ella komi til annað frv. sérstaklega til lausnar þessum málum. Raunar munu vera til lagaákvæði um heimavistir og mötuneyti við nokkra af umræddum framhaldsskólum og drjúgur tími siðan þau voru sett sum hver, svo að segja má kannske, að ekki sé seinna vænna að fara að framkvæma þau. Þannig mun t.d. vera gert ráð fyrir hvoru tveggja, heimavist og mötuneyti, í lögum um Háskóla Íslands frá því herrans ári 1907.