14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að það væri ekki úr vegi að taka til athugunar bréf það, sem okkur þm. hefur borizt frá ungu skólafólki utan af landsbyggðinni, sem sækir framhaldsskólanám í Reykjavík. Ég minnist þess ekki, að hann hafi fyrr tekið svo á honum stóra sínum í þeirri orðsnilld, sem honum er lagin, þann tíma, sem ég hef setið hér á Alþ., og ekki hefur það áður komið fyrir, að alþm. hafi beinlínis auglýst það, að hann sé valdur að því, hve margir séu á áheyrendapöllum Alþingis.

En í sambandi við þetta vil ég skýra frá því, að við hv. 2. þm. Vestf. tókum svolítið öðruvísi á þessu máli, og í morgun lögðum við inn til prentunar till. til þál., sem felur í sér, að skorað verði á ríkisstj. að koma upp heimavistum og mötuneytum fyrir þetta fólk. Í þessari till. er m.a. bent á þær leiðir að reyna samninga við starfandi hótel. Hins vegar er aðeins bent á það sem eina leið í þessu máli. Í till. er gerð grein fyrir því, að á síðustu árum hefur farið mjög í vöxt, að ungt fólk utan af landsbyggðinni sæki sérskóla í Reykjavík, sem það á ekki kost á að sækja annars staðar. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. stærri árgangar þessa fólks og eins betri og meiri möguleikar þess og meiri vilji til þess að sækja framhaldsnám. Við bendum á í grg. okkar, að það sé auðvitað fyrst og fremst stefna okkar, að þetta unga fólk eigi kost á því að sækja framhaldsnám sem næst sinni heimabyggð, en þar sem horfast verði í augu við það, sem er að gerast, að þetta unga fólk sækir í vaxandi mæli sérskóla á höfuðborgarsvæðinu, þá flytjum við þessa till.

Ég vil fagna því, að mér sýnist, að við eigum góðan hauk í horni í hv. 5, þm. Vesturl., og ég vænti þess, að hann og fylgismenn hans komi til drengilegs stuðnings við okkur flm. þessarar till. Okkur sýndist, að það væri þinglengra og eðlilegra að taka málið fyrir á þennan hátt. Hann hafði sín vinnubrögð. Á því eru nokkur blæbrigði, en ég vona, að það séu ekki þau blæbrigði, að hann bregði stuðningi við málið.