14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að gera aðeins örfáar ath. — Hv. síðasti ræðumaður sagði í sambandi við ræðu mína hér áðan, að hér hefði verið efnt til leiksýningar, og það er glöggt, við hvað hann á. Það heitir leiksýning, þegar fólk neytir þeirra sjálfsögðu lýðréttinda sinna að koma hér á pallana og fylgjast með umr. En ég segi: Má ég biðja um fleiri slíkar leiksýningar og jafnárangursríkar og þessa. Það er nefnilega ekki alls kostar rétt, sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði hér áðan, að hann hefði lagt fram till. í þessum málum í morgun. Hann lagði hana fram í dag, eftir að leiksýningin hófst hér á pöllunum. (LárJ: Þetta er rangt.) Hv. síðasti ræðumaður talaði um, að í þessari till. fælust raunhæfar aðgerðir, sem hins vegar vantaði alveg í málflutning minn. Það er naumast, að þetta er till. Hann talar um hana, eins og það megi strax í fyrramálið fara að búa í þessari till. og það sé í henni löggjöf um eitthvað tilheyrandi. Og þó var ekki einu sinni farið að útbýta henni. En ég vil lýsa því yfir að lokum, að vitanlega styð ég þessa till., og af því að ég á enn eftir að sjá, hvað flm. hefur kannað þetta mál, vil ég bjóða honum það hér með, af því að það er svo stutt síðan till. var lögð fram, að það er enn ekki búið að prenta hana, að sú ræða, sem ég flutti hér áðan og byggð er á upplýsingum frá þessu unga fólki sjálfu, verði notuð sem grg, með till. hans. Ég efast ekkert um, að hinir raunverulegu höfundar þessarar ræðu minnar hér áðan, sem ýmsir eru býsna nærstaddir, mundu styðja þetta.