14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér þykir tilhlýðilegt að svara hérna fáeinum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. 5. þm. Vestf., vegna þess að þær voru þess eðlis, að þær kynnu að valda nokkrum misskilningi, ef þeim væri látið ómótmælt.

Hann byrjaði á því, mjög alvöruþrunginn á svip að hafa uppi þungar áhyggjur í minn garð, vegna þess að ýmislegt af því, sem ég sagði hér áðan, fengi ekki staðizt, eins og hann orðaði það. Síðan, þegar hann vildi fara að tína til, hvað rangt hefði verið í málflutningi mínum, var það ekki nema eitt atriði, sem togaðist upp úr honum. Það var atriðið, sem fram kom í grg. till., þar sem segir, að engin lög séu á Íslandi um hámark húsaleigu. Þessu vildi hv. þm. mótmæla harðlega.

Ég hef sem sé fullyrt, að það séu engin lög í landinu um hámark húsaleigu, og ég stend við það áfram. Ég spyr: Hvað er það, sem afsannar þessa fullyrðingu mína? Ég heyrði ekki, að neitt það, sem hv. þm. nefndi, afsannaði þessa ákveðnu fullyrðingu mína, að það er ekki neitt hámark til í lögum um það, hver húsaleiga má vera.

Hv. þm. Þorvaldur Garðar fer að nefna verðstöðvunarlögin í þessu sambandi og þykist þar með geta sannað, að ég hafi farið hér með rangt mál. Sér þó auðvitað hver maður, að þau lög koma þessu ákaflega lítið við. Segja verðstöðvunarlögin til um það, hve húsaleiga má vera há í landinu? Er eitthvað því til fyrirstöðu, að tveggja herbergja kjallaraíbúð sé leigð út fyrir 12 þús. kr. á mánuði? Ég sé ekki, að verðstöðvunarl. hindri það á nokkurn hátt. Eru þá nokkur önnur lög til. sem skipta máli í þessu sambandi? Ekki nefndi hv. þm. það. Nei, ég held, að öllum megi vera það ljóst, að verðstöðvunarl. í sjálfu sér koma ekki þessum málum við. Þau gilda einfaldlega ekki, þegar verið er að leigja t.d. íbúð í fyrsta sinn, og sá, sem í eitt sinn hefur samið um okurleigu, er ekki á nokkurn hátt varinn af verðstöðvunarl., því að það eru engin takmörk fyrir því, hvað þessi okurleiga má lengi halda áfram. Hún lækkar ekki við það, þó að verðstöðvunarl. hafi verið sett. Í þriðja lagi er það svo augljóst sem verða má, að verðstöðvunarl. sem slík voru almenns eðlis, og það er ekkert eftirlit með því, að þau séu framkvæmd á þessu sviði. Það er enginn aðili, sem þarna getur á nokkurn hátt fylgzt með á sama hátt og verðlagseftirlitið fylgist þó með verzlunarálagningunni. Það er ekki framkvæmt neitt eftirlit á þessu sviði, og þar af leiðandi hafa ekki verðstöðvunarl. í þessu sambandi neina raunhæfa þýðingu.

Aðalatriði málsins hlýtur hins vegar að vera, hvort hv. þm. er með eða móti þeirri till. eða þeim anda, sem í henni felst. Ég verð að viðurkenna, að það var dálítið óljóst, hver niðurstaða hans væri yfirleitt. Stundum endurtók hann aftur og aftur, að till. væri allrar athygli verð, en miklu oftar talaði hann um þetta sem einhverjar óviðurkvæmilegar neyðarráðstafanir. Hann kvartaði fyrst yfir því, að ég hefði ekki lagt áherzlu á, að bygging leiguhúsnæðis væri lausnin á þessu máli. Ég verð að segja það, að þetta er nú ekki í fyrsta sinn, sem ég undrast málflutning þessa ágæta þm. En ég lagði verulegan hluta af ræðu minni einmitt í að undirstrika nauðsyn þess, að bygging leiguhúsnæðis yrði stórlega aukin. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm., að ef till. okkar frá 1965 hefði verið samþ., væri ekki slíkt neyðarástand í landinu á þessu sviði og er í dag.

Hvað þessar neyðarráðstafanir snertir að öðru leyti, vil ég fara aðeins nokkrum orðum um þær. Hv. þm. Þorvaldur Garðar talar um, að þarna sé verið að framkvæma neyðarráðstafanir með því að takmarka eignarrétt manna, þeir megi sem sé ekki leigja húsnæði sitt óhæfilegu verði. Ég vil minna hv. þm. á, að við erum alltaf að takmarka heimildir eigenda yfirleitt, handhafa eignarréttar af ýmsu tagi. við erum alltaf að takmarka heimildir þeirra til að nota eign sína, og það er yfirleitt alveg óhjákvæmilegt. Það er ósköp einfalt, að sá, sem á hamar, á eignarrétt á hamrinum, en hann hefur ekki ótakmarkaða heimild til að rota hvern sem er með honum. Við verðum að gera ráðstafanir til að hindra, að eignum sé beitt á óviðurkvæmilegan hátt. Sá, sem hefur peninga, hefur eignarrétt á þeim, enginn neitar því. En hann hefur ekki heimild til þess að lána þá út með okurvöxtum, og þjóðfélagið sér sig tilneytt að stemma stigu við því. Á nákvæmlega sama hátt er það, að sá, sem á íbúð, hefur eignarrétt á henni að vísu, en hann getur ekki og á ekki að geta notað hana til þess að hafa fé af eignalausu fólki með því að nota sér neyð þess á óviðurkvæmlegan hátt. Það eru sem sé ótal dæmi um það í löggjöfinni, að óhjákvæmilegt er að takmarka eignarrétt manna og meðferð þeirra á honum. Það eru ekki eingöngu neyðarráðstafanir, sem beita þarf í stríði, sem þar koma til greina.

Að lokum vil ég aðeins víkja að orðum hans um fasteignasalana og skipulag fasteignasölunnar. Hann sagði, að ég hafi verið að leggja til hér áðan, að Samband ísl. samvinnufélaga fengi einokun á fasteignasölu. Ég vil taka það fram, að því fer víðs fjarri, að ég hafi haldið því fram í ræðu minni. Ég benti hins vegar á, að það væri æskilegt, að annaðhvort einhverjir opinberir aðilar eða aðrir félagslegir aðilar tækju forustu í þessum efnum og kæmu upp myndarlegri þjónustustarfsemi á þessu sviði. Hvað fasteignasalana snertir að öðru leyti, vil ég taka undir það, sem hv. þm. sagði, að að sjálfsögðu eru þeir mjög misjafnir og sú þjónusta, sem þeir veita. Þetta er að sjálfsögðu ekki spurning um einstaklinga, heldur skipulagið í heild sinni. Því er nú þannig varið, að það geta ekki allir aðilar í þjóðfélaginu skammtað sér laun fyrir þá þjónustu, sem þeir veita. Spurningin hlýtur að vera sú, þegar um er að ræða þá fáu aðila, sem þetta geta, hvort við eigum ekki að gera sérstakar kröfur til þeirra, sem selja þjónustu fyrir hátt gjald, eins og í þessu tilviki. Eigum við yfirleitt að leyfa það, að menn selji þjónustu af þessu tagi fyrir hátt gjald, án þess að þeir veiti þá þjónustu, sem við hljótum að gera kröfu til? Það er þess vegna, sem ég hef lagt til, að skipulag fasteignasölunnar verði endurskoðað.