17.10.1972
Sameinað þing: 3. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Kjarni stjórnarstefnunnar, sem sett er fram í málefnasamningi ríkisstj., er að bera fram til sigurs réttindi íslenzku þjóðarinnar út á við, halda fram fullum rétti hennar gagnvart öðrum þjóðum og stuðla að jafnrétti með landsmönnum sjálfum inn á við. Í rauninni haldast þessi stefnumörk í hendur, eru tveir þættir í einni og sömu líftaug íslenzkrar félagshyggju. Samstaða þjóðarinnar í stöðugri baráttu hennar til að efla sjálfstæði sitt og fullveldi er þeim mun traustari sem fólk finnur skýrar, að það nýtur jafnréttis, bæði til að afla sér þeirra gæða, sem þjóðfélagið hefur að bjóða, og til að hafa áhrif á framvindu þjóðmála. Þjóðfélagsheildin er þeim mun sterkari og fúsari til sameiginlegra átaka sem betur er séð fyrir jafnrétti einstaklinganna af samfélagsins hálfu.

Að áliti þeirra, sem að núv. ríkisstj. standa, er það eitt helzta hlutverk almannavaldsins að vinna markvisst gegn þeim tilhneigingum til misréttis, sem ætið hlýtur að gæta í þjóðfélagi í örri þróun, tilhneigingum, sem fylgja ósjálfrátt þjóðfélagsbreytingum, jafnvel þótt engir einstaklingar né hópar einsettu sér að sitja yfir annarra hlut. Blind hagþróun getur ekki síður valdið háskalegu misrétti en meðvituð ásælni forréttindasinna.

Meginforsendan fyrir raunverulegu jafnrétti er, að hverjum og einum séu búin skilyrði til að þroska hæfileika sína og neyta þeirra. Menn eru misjöfnum hæfileikum búnir, en inntak jafnréttishugmyndarinnar felst í því, að hver hafi til sins ágætis nokkuð.

Jöfn skilyrði til þroska til að ávaxta það pund, sem hver og einn fær í vöggugjöf, velta á sem jafnastri aðstöðu til þess að afla sér menntunar, þeirra þjálfunar og þekkingar, sem samfélagið lætur uppvaxandi kynslóð í té. Í forréttindaþjóðfélagi er menntun sérréttindi fárra útvaldra. Í tæknivæddu þjóðfélagi á lýðræðisgrunni eru almenu menntun og þroskaskilyrði fyrir sérstaka hæfileika, hvar sem þá er að finna, bæði félagsleg nauðsyn og eðlilegt keppikefli hvers einstaklings.

Lífsmáttur og þroski íslenzks þjóðfélags á komandi tímum veltur ekki sízt á því, að þjóðinni auðnist að koma sér upp fræðslukerfi, sem uppfyllir kröfuna um þjálfun og menntun hvers einstaklings á þann hagkvæmasta hátt, sem til boða stendur á hverjum tíma. Frv. um grunnskóla hefur undanfarið verið í endurskoðun með það fyrir augum, að ákvæði þess uppfylli sem bezt þessi tvö skilyrði, og verður það lagt fyrir Alþ. svo skjótt sem unnt er. Þar er stefnt að almennum skóla, sem tryggir eins og framast er kostur jafna aðstöðu til undirstöðumenntunar hvar á landinu sem er. Með því einu móti verður jafnræði strjálbýlis og þéttbýlis í fræðslumálum tryggt. Það væri voði fyrir heilbrigða byggðaþróun í landinu, ef skólar strjálbýlisins yrðu í hvívetna eftirbátur þéttbýlisskólanna í húsakynnum, kennslu og búnaði. Fengi slíkt að viðgangast, væri vegið að búsetu í ýmsum landshlutum. Annað mál er, að engin ástæða er til að binda skólastarfið hvarvetna við nákvæmlega sama tíma árs. Þar er sjálfsagt að taka tillit til aðstæðna og atvinnuhátta. Meginatriðið er, að skilyrði séu sköpuð til fullnægjandi fræðslu, ekki sízt námsleiðsagnar og sérkennslu, hvar sem er á landinu. Sums staðar er þetta ógerlegt án heimavistardvalar nemenda í eldri deildum grunnskóla, en fullreynt er, að heimavistum ber að halda í lágmarki og viðhafa í staðinn akstur nemenda milli heimila og skóla, þar sem honum verður við komið.

Sérstök ástæða er til að huga að því, hversu sjónvarpið, sem með ærnum kostnaði hefur verið dreift um landið, getur þjónað skólastarfinu. Þar er mikið verk óunnið, en líka von um mikinn ávinning, ef vel tekst til.

Óhjákvæmilegt er, að nemendur víða um land þurfi að sækja framhaldsnám og sérmenntun af ýmsu tagi út fyrir átthaga sína. Þetta hefur valdið tilfinnanlegu misrétti, þar sem nemendur úr strjálbýli, þar sem meðaltekjur eru einna lægstar, hafa orðið að bera mun þyngri námskostnað en ungt fólk, sem á þess kost að stunda sama nám heiman frá sér.

Á síðasta þingi voru að frumkvæði ríkisstj. sett lög um jöfnun námsaðstöðu, sem stefna að því að jafna þennan aðstöðumun. Koma þau í fyrsta sinn til framkvæmda á yfirstandandi skólaári, og hafa í för með sér, að fjárhæðin, sem varið er til svonefndra dreifbýlisstyrkja til að bæta aðstöðu nemenda, sem fara verða í önnur byggðarlög til að afla sér menntunar, þrefaldast á tveimur árum.

Námslánakerfið er eldra. En í fyrra og í ár hafa fjárframlög til þess líka vaxið hröðum skrefum. Koma þar bæði til hækkun lána, stórfelld fjölgun í námsmannahópnum, sem notið hefur námslánanna frá öndverðu, og ákvarðanir um að veita nýjum flokkum námslánarétt. Með lagasetningu á siðasta þingi bættust þannig nemendur sjómannaskóla og vélskóla við þá, sem fyrir voru. Nú hefur verið ákveðið að taka löggjöfina um námslán og námsstyrki til gagngerðrar endurskoðunar í ljósi fenginnar reynslu. Allt kapp verður á að leggja, að þessi aðstoð við námsfólk nái sem bezt tilgangi sínum og komi réttlátlega niður.

Námslánaréttur nemenda sjómanna- og vélskóla er vísbending um enn eina braut, sem brjóta verður til aukins jafnréttis í fræðslukerfi okkar. Fyrst í stað var sem sé námslánarétturinn við þá námsmenn eina hundinn, sem stunduðu háskólanám að loknu stúdentsprófi. Einhliða áherzla á hefðbundna stúdentsmenntun, sem ríkt hefur til skamms tíma og enn eimir töluvert eftir af, er tvímælalaust ein helzta veilan í fræðslukerfi okkar. Verk- og tæknimenntun hefur fyrir bragðið orðið útundan með þeim afleiðingum, að háskalegs misræmis gætir milli þessara tveggja námsbrauta. Hér þarf mikið verk að vinna. Námsbrautirnar verða að vera jafnréttháar og auðgengið á milli þeirra, ef fræðslukerfið á að svara á fullnægjandi hátt þörfum síbreytilegs þjóðfélags. Hentugasta skólafyrirkomulagið, sem enn hefur verið bent á til að ná þessu marki, er fjölbrautaskólinn eða sameinaður framhaldsskóli, þar sem margvislegar námsbrautir fá sama sess innan sömu stofnunar. Frv. um Fjölbrautaskóla í Reykjavík, sem lagt var fram á síðasta þingi, er nú í endurskoðun. Hún beinist að því, að heimilað verði að þróa þessa skólagerð hvar sem aðstæður leyfa.

Eitt einkenni fjölbrautaskólans er náin tengsl hans við aðrar stofnanir og almenning á svæðinu, sem hann þjónar. Ber ekki sízt að gefa gaum að fullorðinnafræðslu, sem tvímælalaust á eftir að ryðja sér til rúms í stórum stíl. Þar kemur bæði til þörf vaxandi hóps, sem vegna örrar tækniþróunar þarf að skipta um starf eða afla sér nýrrar starfshæfni á miðri starfsævi, svo og jafnræðissjónarmið, að fólk, sem einhverra hluta vegna hefur orðið af framhaldsmenntun og sérþjálfun á yngri árum, geti aflað sér slíks síðar á ævinni. N. á vegum menntmrn. hefur nú árlangt unnið að undirbúningi lagasetningar um fullorðinnafræðslu.

Fyrir Alþ. liggja nú frv. um aðstoð við byggingu og rekstur dagvistunarbeimila fyrir börn innan skólaaldurs og um Fósturskóla, til að tryggja fullnægjandi menntun starfsliðs, sem slíkar uppeldisstofnanir þarfnast. Þarna er einnig um jafnréttismál að ræða, því að réttur kvenna til starfs og til náms jafnt við karla verður ekki að veruleika, nema mæður hafi aðstöðu til að vista börn sín í þroskavænlegu umhverfi þann hluta dags, sem þær sinna verkefnum utan heimilis.

Margt mætti fleira rekja, ef tími gæfist til af nýmælum og endurbótum á sviði menntamála, sem væntanlega koma til kasta nýbyrjaðs þings. Aðeins skal drepið á frv. um bókasöfn, frv. um verzlunarmenntun og frv. um framtíð húsmæðraskólanna, en þeir skólar hafa átt við mikla erfiðleika að stríða upp á síðkastið.

Ég hef, herra forseti, kosið að leitast við að gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem liggja til grundvallar menntamálastefnu ríkisstj. Jafnréttisstefnan í fræðslumálum er leiðarljós, sem ekki missir gildi sitt, hverjar breytingar sem verða kunna á ytri skilyrðum fræðslustarfsins. Í menntamálum eru ekki til nein töfrabrögð, sem leysa vanda á vetfangi. Þar þýðir ekki að viðhafa auglýsingaskrum né loddarabrögð. Slíkt hefnir sín fljótt. Eina úrræðið, sem að gagni kemur, er látlaust starf að því að veita margvíslega fræðslukosti, sem megna að efla sérhvern Íslending til þess þroska, sem hugur og hæfileikar stefna að.

Þökk þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.