14.11.1972
Sameinað þing: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

44. mál, leiga og sala íbúðarhúsnæðis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég á gott með að verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að lengja ekki þessar umr. mikið. Það er einfaldlega vegna þess, að ræða hv. frsm. gefur mér ekki beint tilefni til mikilla andsvara. Hann vildi halda því fram, að það hafi verið rangt með farið, að verðstöðvunarl. hefðu þýðingu í sambandi við húsaleigumálin. Ég geri ráð fyrir, að hann fullyrði þetta ekki gegn betri vitund, en hann veit greinilega ekki, hvað hann hefur verið að gera, því að hann hefur tvívegis rétt upp hendina hér á hv. Alþ. til að framlengja þessi ákvæði, sem gilda í dag. En þau eru, að það er óheimilt að hækka húsaleigu samkvæmt samningi fram yfir það, sem var í nóv. 1970. Þetta eru lög í dag. Hv. frsm. getur nú lagt sér þetta á minni. En þetta var ekki höfuðatriðið í málflutningi mínum. Þó að hv, frsm. kveinkaði sér undan því, að ég hefði verið með harðar átölur í þessu sambandi, þá er það ekki rétt. Ég get skilið það hins vegar, að hann fyrirverði sig fyrir að hafa ekki vitað jafneinfaldan hlut og þennan, sem er þó nokkurt atriði í sambandi við þetta mál.

En það, sem mér fannst athyglisvert við síðari ræðu hv. flm., var það, að hann gerði sér enga grein fyrir mismuninum á almennri húsaleigulöggjöf og sérstakri löggjöf bundinni við ákveðinn tíma til að mæta ákveðnu ástandi. Hann gerði ekki greinarmun á almennri löggjöf og neyðarráðstöfun. Þó liggur það ljóst fyrir, að menn hafa hér í þessu landi alltaf gert sér grein fyrir þessu. Lögin um húsaleigu frá 1917 voru afnumin 1927, af því að lokið var því vandræðaástandi, sem ófriðurinn olli. Lögin frá síðari heimsstyrjöldinni voru líka afnumin. Það voru að vísu deilur á þingi um það, hvort afnema ætti vissan hluta þeirra 1952 eða 1953, um það snerust deilurnar þá. Ný lög um hámark húsaleigu voru sett 1952 eftir ósk bæjarstjórnar Reykjavíkur. Þau voru sett fyrst sem brbl. eftir ósk bæjarstjórnar Reykjavíkur, af því að hún óttaðist, að of geyst væri farið í afnám húsaleigulaganna frá 1943. En sá ótti stóð ekki nema stuttan tíma, því að um það leyti, eða fyrir u.þ.b. tveim áratugum, var lagður grundvöllur að nýrri húsnæðismálalöggjöf, lánalöggjöf, sem gjörbreytti ástandinu í landinu og er grundvöllur fyrir öllum þeim miklu framkvæmdum og framförum í húsnæðismálum, sem síðar hafa orðið. Það eru þessar aðgerðir, sem tóku af öll tvímæli um það, að ekki var lengur neyðarástand, sem hægt var að jafna við stríðsástand.

Ég gat um það í fyrri ræðu minni, og hv. frsm, forðaðist að koma nálægt því atriði, að frá því 1965, að húsaleigulöggjöfin var afnumin, hefur enginn á Alþ. komið með till. um að taka neyðarráðstöfun upp aftur, fyrr en þessi till. kemur fram. Ég vildi gera tilraun til þess að skýra tillöguna á hinn betri veg og lagði því áherzlu á, að hún ætti að verða til þess, að sett yrði heildarlöggjöf um réttarstöðu leigusala og leigutaka. Hv. frsm. tók það illa upp og talaði eins og hann gerði enn ekki greinarmun á slíkri löggjöf og neyðarráðstöfunum. Það er þetta, sem spáir ekki góðu.

Ég vil ljúka máli mínu með því að ítreka það, að þó að þessi till. sé þannig úr garði gerð, að þar sé ruglað saman hinum óskyldustu hlutum, og þó að hv. flm. geri sjálfur ekki greinarmun á þessum atriðum, vænti ég þess, að málið verði gaumgæfilega athugað í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um málið. Ég á bágt með að trúa því, að ekki rætist úr þessum málum, þannig að hv. Alþ. fari ekki að gera samþykkt, sem jafngildir yfirlýsingu um, að stríðsástand sé í þessu landi og ástandið sé orðið svo hörmulegt eftir svo skamma stjórn vinstri stjórnarinnar.