15.11.1972
Efri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

74. mál, vélstjóranám

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi báru flm. þessa frv. fram frv. um sama efni og samhljóða því, sem hér er til umræðu. Málið fór þá til menntmn. þessarar hv. deildar. Hún tók það til athugunar og fékk umsagnir um málið frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og skólastjóra Vélskólans. Eftir að nefndin hafði athugað þessar umsagnir, mælti hún með samþykkt frv. Málið fór síðan til neðri deildar, þegar mjög var liðið á tíma síðasta þings, og menntmn. Nd. afgr. málið frá sér og mælti einróma með samþykkt frv. En þrátt fyrir það, að nefndin í Nd. afgreiddi málið, fór svo á síðustu dögum þingsins og í því mikla annríki, sem þá var við afgreiðslu mála, að málið hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu í Nd. Þess vegna er það flutt hér á ný.

Vélskóla Íslands er falið það hlutverk að veita þá fræðslu, sem þarf til þess að búa menn undir að gegna vélstjórastarfi á skipaflota landsmanna. Nauðsynlegt er, að á þessu sviði sé veitt fullnægjanleg menntun í samræmi við þær kröfur, sem gerðar eru á hverjum tíma, og eðlilegt er, að þær kröfur fari vaxandi, um leið og skipaflotinn stækkar og vélarnar verða stærri og sótt er æ lengra út á fiskimiðin, svo að ekkert má út af bera um að fyllsta öryggis sé gætt. Fiskiskipaflotinn er endurnýjaður og vélarnar verða æ fullkomnari, og á hinum traustu skipum er sótt mjög djarft á fiskimíðin, svo að ekkert má á það skorta, að hæfir menn séu við vélgæzlu á hverju fiskiskipi. En að undanförnu hefur a.m.k. sums staðar á landinu ekki tekizt að fá menn með fullum réttindum á þessu sviði til að starfa á fiskiskipunum.

Í lögum um atvinnuréttindi vélstjóra á íslenzkum skipum er það ákvæði, að ef skortur er á mönnum með nægjanleg vélstjóraréttindi, getur siglingamrn. eftir ósk útgerðarmanns eða skipstjóra veitt manni, sem eigi fullnægir skilyrðum laga þessara, með undanþágu rétt til vélstjórnar á tilteknu skipi um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en 6 mánuði í senn. Áður en undanþága er veitt, skal ávallt leita umsagnar viðkomandi stéttarfélags vélstjóra. Á grundvelli þessa lagaákvæðis, hefur a.m.k. sums staðar á landinu þurft að veita undanþágu allmörgum mönnum, til þess að þeir mættu gegna starfi á fiskiskipum. En þó að brýna nauðsyn hafi borið til. að þetta væri gert, er það ekki æskileg þróun til frambúðar, að þannig þurfi að halda á máli, heldur ber brýna nauðsyn til þess, að hægt sé að veita þá menntun, sem tilskilin er, nægilegum fjölda manna, sem hafa með höndum þau störf, sem hér um ræðir.

Vélstjóranám greinist í 4 stig, og veitir nám á hverju stígi þá menntun, sem krafizt er til þess að geta öðlazt tiltekin atvinnuréttindi.

Nám á fyrsta stigi fer fram á námsskeiðum á vegum Vélskóla Íslands, og sá, sem lokið hefur vélstjóranámi fyrsta stigs, fær þegar í stað réttindi til að vera yfirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 250 hestafla vél og undirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 500 hestafla vél. og að loknum 12 mánaða starfstíma öðlast hann rétt til að vera yfirvélstjóri á fiskiskipi með allt að 500 hestafla vél.

Kennsla á 1. stigi vélstjóranáms er nú veitt í Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjum, en hins vegar hefur ekki verið að jafnaði gefinn kostur á slíku námi á Austfjörðum eða Vestfjörðum, en eins og ég tók fram áður, mun ekki sízt í þessum landshlutum hafa þurft að ráða menn til vélgæzlu á skipum með undanþágu frá tilskildum réttindum. Það er efni þessa frv., að kennslu á 1. stigi vélstjóranáms skuli eftirleiðis haldið uppi á Vestfjörðum, og er þá valinn staðurinn Ísafjörður, og einnig í Austurlandskjördæmi, og er þá valinn staðurinn Höfn í Hornafirði.

Það er almennt stefnt að því í fræðslukerfinu, að nemendur geti fengið fræðslu sem næst heimili sínu eða eigi greiða leið að sem fullkomnustu námi í hverjum landsfjórðungi. Sú till., sem fram er borin í þessu frv., er því mjög í þá stefnu, sem viðurkennd er í fræðslukerfinu um þessar mundir. Hún miðar að því að jafna aðstöðu ungmenna til náms í tiltekinni grein á verklegu sviði, en sú starfsgrein er svo mikilvæg að menntun til undirbúnings í því starfi má sízt af öllu vanrækja.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta litla frv., en vænti þess, að því verði vel tekið í þessari hv. deild, eins og raun var á síðasta þingi, þannig að málið geti nú fengið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.