18.10.1972
Efri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

14. mál, fiskeldi í sjó

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. um sama efni og það frv., sem þér liggur fyrir, var lagt fyrir síðasta þing, en náði þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Frv. er samið í sjútvrn., en starfsmenn þess telja, að það sé orðið mjög aðkallandi að fá í lög viss ákvæði varðandi fiskeldi í sjó.

Eins og kunnugt er, hefur verið vaxandi áhugi fyrir fiskeldi hér á landi undanfarin ár. Margar till. hafa komið fram á Alþ., sem bera vott um þennan áhuga, og ýmsar samþykkir hafa hér verið gerðar, þar sem lagt hefur verið til, að hafizt væri handa í þessum efnum. Nú fjallar þetta frv. í sjálfu sér ekki um neina ákvörðun varðandi það að hefjast handa út af fyrir sig. Það er ekki meiningin með þessu frv., að ríkisvaldið taki hér upp neinn rekstur í sambandi við fiskeldi í sjó. Til þess þyrfti alveg sérstaka ákvörðun síðar, ef það þætti rétt að hverfa að því. En það er talið, að ekki sé hægt að hefjast handa í þessum efnum, nema stjórnvöld séu tilbúin til þess að veita leyfi með ákveðnum réttindum, og það er einnig álit þeirra, sem um málið hafa fjallað, að nauðsynlegt sé, að viss skilyrði verði sett í sambandi við þessar framkvæmdir, ef til kæmu á vegum einstaklinga eða félaga, til þess að tryggja viss undirstöðuatriði. Það hafa m.a. komið aðilar til rn. og óskað eftir því að fá leyfi til þess að mega loka heilum fjörðum og stórum lónum við sjó og hafa haft uppi miklar áætlanir um framkvæmdir í þessum efnum, en telja sig ekki geta ráðizt í slíkar framkvæmdir, án þess að fá leyfi stjórnvalda og öryggi þar fyrir vissum atriðum.

Þá hefur sem sagt einnig komið fram, að nauðsynlegt kunni að vera að tryggja það, að ekki verði ráðizt í slíkar framkvæmdir, nema gætt sé vissra undirstöðuatriða varðandi fiskverndarmál. því er haldið fram, m.a. af fiskifræðingum, að slíkar ráðstafanir gætu í vissum tilvikum haft alvarlegar afleiðingar fyrir annað fiskeldi, ef ekki er farið þar að réttum ráðum, og því er gert ráð fyrir því, að verði leyfi veitt til framkvæmda í þessum efnum, þá verði sett ýmis skilyrði, eins og t.d. varðandi sóttvarnir, reglur um flutning á fiski, gerð mannvirkjanna, um skýrslugjöf og um réttindi sérfræðinga til þess að fylgjast með því, sem þarna fer fram.

Það þykir rétt, að af hálfu opinberra aðila séu leyfi af þessu tagi veitt aðeins að fenginni umsögn Fiskifélags Íslands, Hafrannsóknastofnunarinnar og veiðimálastjóra. Það hefur að vísu verið bent á það af ýmsum, að það væri nægilegt að hafa hér umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar og veiðimálastjóra, en það hefur verið gömul venja að leita einnig til Fiskifélagsins.

Hér er sem sagt um formsatriði að ræða, en talið er, að ekki séu miklar líkur til þess, að hafizt verði handa um fiskrækt í sjó eða sjólónum án þess, að einhver lagasetning sé til varðandi þessi mál af því tagi, sem hér er lagt til að setja.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en óska eftir, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til frekari fyrirgreiðslu.