15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

77. mál, lántaka Fiskveiðasjóðs Íslands o.fl.

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 81 er ábyrgðaheimild fyrir ríkisstj. vegna lántöku Fiskveiðasjóðs Íslands o.fl. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að veita sjálfskuldarábyrgð á erlendu láni, allt að 10 milljónum dollara, er Fiskveiðasjóður Íslands tekur til endurlána vegna kaupa og smíði á togurum erlendis. Hér er aðeins gert ráð fyrir því að heimila fiskveiðasjóði að annast þessa erlendu lántöku á þennan hátt. Ekki er um að ræða nýtt lán, því að eins og kunnugt er, eru lán veitt erlendis út á þá togara, sem þar eru smíðaðir, og þessi lántaka er eingöngu gerð í sambandi við þau. Hins vegar þykir henta að láta fiskveiðasjóð taka heildarlán vegna togarasmíða erlendis. Sérstaklega er þar átt við togarasmíðina í Japan. Þetta lán, sem þannig yrði tekið, yrði til lengri tíma en þau lán, sem veitt eru með hverjum togara fyrir sig. Það er gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður geti þá á síðara stigi notað þetta fé almennt vegna togarakaupa. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir að breyta lánsskilyrðum einstakra togara frá því. sem áður hefur verið, heldur mundi það verða almennt notað. Ríkisstj. hefur ekki heimild til sjálfskuldarábyrgðar vegna lántöku fiskveiðasjóðs. eins og nú er, og fiskveiðasjóður befur ekki heldur heimild til þess að lána 4/5 af verði slíkra togara. En vegna þess að fiskveiðasjóður er aðilinn, sem lánið á að taka, þarf að gera þessa lagabreytingu, þar sem hvort tveggja er um að ræða, að það er sjálfskuldarábyrgð hjá ríkissjóði á lánunum og fiskveiðasjóður má lána 4/5.

Þannig stendur á þessu máli, að það þarf vegna framkvæmda erlendis að hraða málinu, og ég mun því leita eftir samkomulagi um það við hlutaðeigandi aðila, að fjhn. beggja d. geti unnið saman, svo að afgreiðsla málsins geti átt sér stað á morgun. Ég vonast til. að um það geti orðið samkomulag, því að hér er ekki um neitt efnisatriði að ræða, heldur breytt form á lánsmeðferð í sambandi við togarakaupin.

Ég legg svo til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.