15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að ræða efni frv. Það hefur þegar verið gerð grein fyrir afstöðu fulltrúa Alþfl. í n. til málsins, auk þess sem ég hafði talað við 1. umr. málsins. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að ég vil vekja athygli hæstv. forseta þd. og raunar Alþ. í heild á því, að sá ráðh., sem er flm. að þessu frv., hæstv. sjútvrh., er ekki viðstaddur í d. og hefur fengið fjarvistarleyfi frá því að sækja fundi á Alþ. um sinn sökum anna, að því er frá hefur verið skýrt í blöðum. Ég leyfi mér að vekja athygli á ákvæðum í nýsamþykktum þingsköpum Alþ. um skyldu þm. til að sækja þingfundi, en svo segir í 34. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er þm. að sækja alla þingfundi, nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er, og metur hann nauðsynina. Heimilt er forseta að veita þm. brottveruleyfi, þó eigi lengur en tvær nætur að nauðsynjalausu, nema d. samþykki.“

Þessi ákvæði munu vera nokkuð breytt frá því, sem var í eldri þingsköpum, en þau eru skýrt orðuð og alveg ljóst, hvað í þeim felst. Það er ekki ætlazt til þess, að þm. fái leyfi frá því að sækja þingfundi, nema nauðsyn krefjist, og það er ekki heimilt að veita honum slíkt leyfi að nauðsynjalausu, nema d. samþykki.

Ég hef átt sæti á Alþ. í rúman aldarfjórðung, og þetta er í annað skipti, sem ég minnist þess á öllum þessum árum, að ráðh. hafi beðið um fjarvistarleyfi, þótt hann væri staddur í höfuðborginni, og óskað þess að þurfa ekki að sækja þingfundi og borið við önnum. Það var einmitt sami hæstv. ráðh, á s.l. þingi. Áður hafði það aldrei komið fyrir í þau rúm 25 ár, sem ég hef átt sæti á Alþ., að slíkt hafi gerzt, að ráðh. hafi verið við störf sín í stjórnarráðinu hér í höfuðborginni örfáa, nokkur hundruð metra frá þinghúsinu, en ekki treyst sér til þess að mæta á Alþ., sem hann þó sannarlega og vissulega ber ábyrgð gagnvart. Ég dreg það síður en svo í efa, að ráðherrann og ráðherrarnir allir hafi miklum störfum að gegna. Ég hef reynslu af því sjálfur, að það er rétt. Engu að síður taldi enginn það nokkru sinni vera utan við skyldu sína að mæta á Alþ., þegar um mál var að ræða, sem undir ráðh. heyrðu. Ég segi þetta ekki heldur til að finna að því að nokkru leyti, að sá varaþm., sem er varaþm. ráðh., hefur tekið sæti á Alþ. Hann hefur átt sæti á Alþ. áður og sýnt í störfum sínum og málflutningi, að hann er prýðilega til þess fallinn að gegna þeim störfum. Ég er að vekja athygli á grundvallaratriði, og það skiptir ekki máli, hvort ráðh. er staddur norður á landi þessa stundina eða ekki, heldur það, að honum hefur verið veitt fjarvistarleyfi í hálfan mánuð, og það er vitað, að hann er ekki norður á landi í hálfan mánuð. Hann ver meginhluta þessara 14 daga við vinnu í skrifstofu sinni í Reykjavík.

Þá er það spurningin, hvort það samrýmist ákvæðum hinna nýju þingskapa, að slíkt fjarvistarleyfi sé veitt. Öllum hv. þm. er kunnugt um það og ég tel, að þjóðinni eigi að vera það kunnugt líka, að þingflokkarnir hafa í góðu samstarfi, allir 5, verið að koma sér saman um reglur um að takmarka setu varaþm. á Alþ. Þetta hefur verið gert fyrir forgöngu forseta Alþingis, og hefur það mætt miklum skilningi af hálfu forráðamanna allra þingflokkanna. Það kvað allt of mikið að því, það var almenn hneykslunarhella með þjóðinni allri í fyrra, hversu mikið kvað að því, að varaþm. tækju sæti hér á Alþ. Það torveldaði störf þingsins stórlega. Um þetta urðu forsetar og allir þingflokkar sammála. Þess vegna var bundizt samtökum um það í upphafi þessa þings að takmarka sem allra mest sætistöku varaþm. hér á hinu háa Alþ. Þess vegna er það sannarlega mjög miður, að einn ráðh. skuli ganga þarna á undan með slæmu eftirdæmi um það að láta að vísu ágætan mann, varaþm. sinn, taka sæti sitt, að því er ég tel að nauðsynjalausu.

Það var erindi mitt í ræðustólinn að beina því til hæstv. forseta, — ég óska þess ekki, að hann úrskurði neitt um það eða svari neinu um það á þessari stundu, ég veit, að málið er vandasamt, og get vel skilið, að hann þurfi að taka svar sitt til rækilegrar athugunar, — en ég óska þess, að forseti d. og forsetar þingsins taki það til rækilegrar athugunar, hvort það geti samrýmzt þeim ákvæðum 34, gr. þingskapa, sem ég las áðan, að ráðh., sem sannanlega er í höfuðstaðnum og við störf í sinni skrifstofu, geti fengið leyfi frá því að mæta hér á hinu háa Alþ. og vera í forsvari fyrir þau mál, sem undir hann heyra. Þessi fsp, beini ég til hæstv. forseta og óska eftir því, að hann svari henni, þegar honum hefur gefizt tóm til að hugleiða málið og ráðfæra sig við starfsbræður sína, hina forsetana, og skrifstofu Alþingis.