15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Forseti (GilsG):

Í tilefni af ræðu hv. 7. þm. Reykv. vil ég taka þetta fram:

Það er alveg rétt hjá honum, að forsetar þingsins hafa tekið fjarvistarmál þm. sérstaklega upp og rætt þau við formenn þingflokka og lagt á það áherzlu, að þm, leituðust við að hafa fjarvistir sínar í hófi og fylgja þeim reglum, svo sem framast er unnt, sem þingsköp mæla fyrir um.

Að því er snertir það sérstaka tilvik, sem hv. 7. þm. Reykv. vék að og gerði að umtalsefni, að hæstv. sjútvrh. og viðskrh. hefur leyfi frá störfum á Alþ. nú þessa dagana, vil ég taka fram, að þegar hæstv. ráðh. fór fram á það, að varamaður kæmi í sinn stað um hríð, þá var ráðið, að hann færi til útlanda í opinberum erindagerðum. Hann hætti við þá ferð vegna fyrirhugaðrar samningsgerðar eða hugsanlegra samninga við Breta í sambandi við landhelgismálið, en eins og kunnugt er, er jafnvel búizt við, að þeir samningar eða þær viðræður hefjist mjög bráðlega. En ég þarf ekki, hygg ég, að lýsa því fyrir hv. dm. og allra sízt fyrir hv. 7. þm. Reykv., að það stendur stundum þannig á, að ráðh. þurfa í opinberum erindum að bregði sér til útlanda, og það mun hafa alloft komið fyrir fyrrv. viðskrh., eins og alþjóð veit, að þurfa að fara í embættiserindum til útlanda. Og það hefur aldrei, að ég veit, verið reynt af hálfu forseta að koma í veg fyrir slíkt, þar sem þeir hafa vafalaust litið svo á, að slík ferðalög væru farin af nauðsyn. En eins og hv. þm. las sjálfur upp úr þingsköpum Alþingis, þá er í sambandi við heimild til fjarvista, ef um lengri tíma er að ræða en tvo daga, það að mati forseta, hvort þær fjarvistir eru að nauðsynjalausu eða ekki.

Ég vildi, að þetta kæmi fram í sambandi við það tilvik, sem hv, þm. gat um, að það hagaði þannig til. að hæstv. viðskrh. hafði ákveðið för til útlanda, sem hann hætti síðan við vegna hugsanlegra eða væntanlegra samningsviðræðna um landhelgismálið við Breta.