15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Mig langar aðeins til að lýsa yfir undrun minni yfir því, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason skuli leyfa sér að halda hér uppi persónulegum árásum á hæstv. ráðh. Lúðvík Jósepsson að honum fjarstöddum. Ég held, að það hefði verið sæmilegra og drengilegra af þessum hv. þm. að bíða með slíkar persónulegar árásir, þangað til hann gæfi talað um það beint við hæstv. ráðh. Lúðvík Jósepsson.

Það er alveg rétt, sem hæstv. forseti minntist á áðan, að við höfum reynslu af störfum þessa hv. þm., Gylfa Þ. Gíslasonar, hér á þingi. Það kom ákaflega oft fyrir, meðan hann var ráðh., að hann gat ekki mætt hér í sölum Alþ., vegna þess að hann var á landsfrægum ferðalögum, og ég held, að þetta hafi verið umtalsefni þjóðarinnar allrar.

En hvað viðvíkur fundarsköpum, þá held ég, að þeir menn, sem sitja á þingi, hafi orðið mjög langa reynslu af störfum Lúðvíks Jósepsar. Hann hefur setið hér 32 þing, og ég held, að það séu ekki aðrir menn, sem hafa tekið verkefni sín alvarlegar, hvort sem hann hefur verið óbreyttur þm. eða ráðh., heldur einmitt hann. Ég held, að það stangist á við reynslu okkar allra, sem hér erum, að bera honum á brýn vanrækslu í störfum. Það eru mörg fordæmi fyrir því, að forsetar Alþ. hafa túlkað 34. gr. þingskapa þannig, að menn hafi leyfi til þess að sitja ekki á þingi vegna anna. Fyrir því eru mörg fordæmi gagnvart óbreyttum þm. Slík leyfi hafa verið gefin mönnum úr öllum flokkum, að ég hygg, líka mönnum, sem hafa haft annir hér í Reykjavík. Og ég veit ekki, hvers vegna aðrar reglur ættu að gilda um ráðh. í þessu tilviki heldur en óbreytta þm. Eigi að taka upp nýjar reglur í þessu efni, er sjálfsagt, að þær nái jafnt yfir alla. En það, sem ég vil vita alveg sérstaklega, er að þessi hv. þm. skuli leyfa sér að fara með persónulegar árásir og hreinan róg um fjarstaddan þingbróður sinn.