15.11.1972
Neðri deild: 13. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef ekki setið hér fundi s.l. 25 ár, en þó hef ég verið hérna nógu lengi til þess, að ég hélt, að það væri alveg undantekningarlaust, að þegar forseti hefur gefið manni orðið, ætti hann að fá orðið, hvað svo sem aðrir einstakir þm. kunna að hafa við það að athuga.

Ég vil ekki taka þátt í karpi um það, hvort hæstv. ráðh. Lúðvík Jósepsson sé fær um að gegna þeim störfum, sem hann hefur tekizt á hendur. Ég hélt, að það væri mál, sem engum dytti yfirleitt í hug að ræða í alvöru. Allir vita hans ágæti í störfum fyrr og síðar.

Ég ætlaði að koma hér með nokkrar aths. varðandi það, sem hv. 3. þm. Sunnl. lét falla hér í ræðu sinni áðan um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hann fullyrti að þeim aðilum, sem eru stjórendur og eigendur sjóðsins, hefði verið stillt upp við vegg, og ég vil nú leyfa mér að mótmæla því, því að þeir komu sjálfir með till. um það að fyrra bragði, að tekið skyldi úr sjóðnum. En þeirra till. var að vísu með nokkuð öðru sniði. Það var till. verðlagsráðsins og fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna og fiskiðnaðarins, að farið skyldi þannig að því að ná þessum peningum að ákveða svokallað viðmiðunarverð verðjöfnunarsjóðs svo hátt, að þessir peningar gætu komizt á þann hátt, og með þeim hætti þurfti ekki neina lagabreytingu til, svo hátt mætti setja þetta viðmiðunarverð, að svo til allir þessir peningar hefðu getað komið inn á þann hátt. Þessu mótmælti ráðh. og eins fulltrúar hins opinbera í stjórn sjóðsins. Þeim þótti ekki heppilegt að fara þessa leið. Svo kom að því, að ráðh. og hinir opinberu aðilar að sjóðnum lögðu til, að farin yrði þessi leið, sem sjá má á brbl., þetta ákveðna tímabil. og um það náðist samkomulag við þessa aðila, sem ég gat um áðan, þá, sem sjóðnum stjórna og sjóðinn eiga.

Einnig sagði hv. 3. þm. Sunnl., að þarna hefði verið um nauðungarsamninga að ræða, og vitnaði þá í umsögn Sambands ísl. samvinnufélaga, þ.e.a.s. sjávarafurðadeild SÍS. Ég get alls ekki séð, að það komi nokkurs staðar fram í umsögninni, og mig langar til að lesa þessa umsögn og athuga, hvort menn geta fundið þessa meiningu út úr umsögn sjávarafurðadeildarinnar, með leyfi forseta. Hér stendur:

„Frv. þetta er byggt á samkomulagi milli sjútvrh. og fulltrúa í Verðlagsráði sjávarútvegsins vegna nýs fiskverðs frá 1. okt. s.l.“ Þarna er talað um samkomulag. „Vér féllumst á það samkomulag á sínum tíma“. Það stendur ekki þarna: Við höfum verið neyddir til — eða neitt í þeim dúr. Og það má vera anzi vel sjáandi maður, sem finnur einhverja nauðung út úr þessari umsögn.

Hv. þm. sagði einnig, að þarna væri um að ræða glórulausa græðgi, — það vantaði nú ekki orðin, — ríkisstjórnarinnar að krafsa úr sjóðnum til ríkisins. Ég vil nú benda hv. þm. á það, að þarna er mikill misskilningur á ferðinni. Ég get ekki séð, að ríkisstj. eða ríkissjóður sé að hirða nokkurn skapaðan hlut úr þessum sjóði fyrir sig. Það er einmitt verið að taka úr þessum sjóði til þess að bæta upp það ástand, sem skapazt hefur með minnkandi afla eða verrí samsetningu aflans. Það er verið að taka fé úr þessum sjóði handa þeim aðilum, sem eiga hlut að honum. Ég get ekki séð, að það sé sanngjarnt hjá hv. 3. þm. Sunnl. að tala um, að verðjöfnunarsjóðurinn verði uppétinn. Um það er hægt að segja það, að þarna er um ákaflega litla upphæð að ræða, sem gerir ekki meira en samsvara ársvöxtum sjóðsins, sem er upp á 1100 millj., og vextirnir eru þá mjög varlega reiknaðir 88 millj., það sem af er árinu. Og það er einnig skýrt tekið fram, að þarna sé um hreint bráðabirgðasamkomulag að ræða, sem eigi að gilda þrjá síðustu mánuði ársins.

Ég lít svo á, að þarna sé um ákaflega svipað að ræða, hvort sem litið er á 1. gr. frv. eða nokkrar setningar í 7. gr. frv. Í 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta, að hlutverk sjóðsins sé að draga úr áhrifum verðsveiflna, er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Þetta er megintilgangurinn. En það verður einnig að gæta annars. Í 7. gr. laganna segir: „Skal hún,“

þ.e.a.s. sjóðsstjórnin, „þá einkum hafa hliðsjón af verðlagi þriggja undanfarinna ára, svo og af niðurstöðum Verðlagsráðs sjávarútvegsins um afkomu framleiðslunnar. „Þetta atriði, held ég, að sé rétt að hafa einnig í huga í þessum efnum.

Þegar svo stendur á, að verð á afurðunum lækkar erlendis, er heimilt eftir sérstökum reglum að bæta framleiðendum og aflamönnum það tjón með framlagi úr verðjöfnunarsjóði, þ.e.a.s. með lækkuðu verði erlendis kemur minna inn fyrir afurðirnar, og þá verður sá mismunur bættur að hluta úr verðjöfnunarsjóði. En með minnkandi og versnandi afla kemur einnig minna inn fyrir afurðirnar, þ.e.a.s. afleiðingarnar eru þær sömu, og hvers vegna þá ekki að hafa sama háttinn á við úrlausn þess máls?

Ég vil ekki lengja þessar umr. miklu meira. Það væri nú kannske ástæða til þess að taka í gegn fleiri atriði í því, sem hv. þm. sagði og reyndar aðrir, sem hér hafa tekið til máls um þetta efni, en ég læt máli mínu lokið að sinni.