15.11.1972
Neðri deild: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. 2. minni hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. með neinu málþófi eða löngu máli. Ég vil aðeins koma hér lítillega að því, sem hv. 5. þm. Sunnl. sagði hér áðan.

Hann virðist vera mjög trúr og tryggur lærisveinn hæstv. sjútvrh., því að hann endurtók þá staðhæfingu, sem þessi hæstv. ráðh. flutti hér við 1. umr., að forsvarsmenn verðjöfnunarsjóðsins og útvegsmanna og þeirra, sem eru í forsvari fyrir fiskiðnaðinn, hefðu komið að fyrra bragði til ríkisstj. og beðið um þessa lagasetningu. Ég tók það strax þannig, þegar ráðh. sagði þetta, að hann hefði hreinlega mismælt sig, því að hann hlaut að vita betur en þessi yfirlýsing hans gaf tilefni til að ætla. Sannleikurinn er sá, og það vita allir forsvarsmenn fiskvinnslu og útgerðar og sjóðsstjórnin, að þeim var, eins og ég sagði, hreinlega gefinn þessi eini kostur. Þeir áttu engra kosta völ og var hreinlega stillt upp við vegg með það, að ef ekki átti að koma til stöðvunar þessa atvinnuvegar, varð að fara í verðjöfnunarsjóðinn að þessu sinni sem bráðabirgðaráðstöfun. Þetta liggur fyrir og verður ekki á neinn hátt vefengt. Um þessa ráðstöfun má að sjálfsögðu deila. En það verður ekki um það deilt, að þannig bar málið að, og af þeim ástæðum einum eru meðmæli þessara aðila jákvæð. Þau eru aðeins, eins og ég sagði áðan, til að staðfesta það, sem þeir höfðu áður orðið að fallast á, — nauðugir, segi ég, því að þetta var vissulega ekki þeirra vilji. Þeir hafa orðið að fallast á það nauðugir. Þeir eru aðeins í umsögnum sínum að staðfesta það, sem þeir höfðu áður fallizt á við ríkisstj. undir þessum kringumstæðum og á þessum forsendum.

Ég vil óska hv. 5. þm. Sunnl. til hamingju með afstöðu sina, því að ég hygg, að hann eigi eftir að sjá það, að sjómenu í Vestmannaeyjum og kannske annars staðar séu ekkert ánægðir með að láta fara í þennan sameiginlega sjóð, sem þeir vissulega eru að vissu marki einnig eigendur að, og látnir reiða sjálfum sér kauphækkun með eigin fé. ég hef orðið þessi greinilega var heima í héraði, að þetta er ekki á neinn hátt missýning. Menn vita alveg, hvað er að gerast. Það er farið í þeirra eigin bankabók í Seðlabankanum og kaup þeirra hækkað þessa þrjá mánuði með peningum, sem þeir telja sig eiga sjálfir.