15.11.1972
Neðri deild: 15. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

79. mál, hafnalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til nýrra hafnalaga er samið af n., sem í voru þessir menn: Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri í samgrn., sem var formaður n., Gunnar H. Ágústsson hafnarstjóri í Hafnarfirði, Matthías Bjarnason alþm., Tryggvi Helgason sjómaður á Akureyri og Ragnar Sigurðsson hafnarstjóri í Neskaupstað. Ég hugsa, að það verði ekki um það deilt, að þarna fjölluðu um mál hafnanna menn, sem eru þeim nákunnugir og gengu til verks síns með það fyrir augum að gera hinar nauðsynlegustu breytingar á gildandi hafnalögum og til þess að mæta brýnni þörf hafnanna fyrir löggjöf, sem létti eitthvað byrðar þeirra, sem hafa reynzt þeim nálega ofurefli í mörgum tilfellum. Við það virðist mér líka allar brtt. n. miðaðar að létta byrðar hafnanna og þar með færa nokkuð af þeim yfir á ríkið. Hvað sem öðru líður verð ég að viðurkenna, að undan þessu verður ekki komizt, eins og sakir standa.

N. lauk störfum á s.l. vetri, og var frv. að hafnalögum lagt fram á síðasta þingi. Það var lagt fram þá í hv. Ed., en varð ekki útrætt, enda varð tæpast til þess ætlandi, þar sem frv. kom fram seint á þingi.

Mér er kunnugt um það, að n. hafði náið samstarf við hafnamálaskrifstofuna og hafnarstjóra og einnig formann Hafnasambands sveitarfélaga og tók tillit til till. þessara aðila.

Það var álit n., sem samdi þetta frv., að ef brtt. hennar næðu fram að ganga, væri fengin allviðunandi lausn á alvarlegustu fjárhagsvandamálum hafnanna, þó vitanlega hvergi nærri gengið eins langt til móts við þarfir hafnanna og þær, sem þyngstu byrðarnar bera, hefðu sjálfsagt óskað. Auk þess, sem nú hefur sagt verið, hefur farið fram endurskoðun til samræmingar á gjaldskrám hafnanna, og hefur það verið gert mjög í samræmi við till. Hafnasambands sveitarfélaga. Flestar þessara gjaldskráa hafa nú þegar fengíð staðfestingu, ég beld allar þær, sem um hefur verið sótt, að yrðu endurstaðfestar.

Þýðingarmestu breytingarnar, sem felast í þessu frv. frá gildandi hafnal., eru þrjár, og sé gerð grein fyrir þeim í mjög stuttu máli, þá eru þær þessar:

Í fyrsta lagi, að framkvæmdir, sem styrktar eru með 75% framlagi af ríkisfé, eru með frv. auknar frá því, sem áður var, og jafnframt gerð skýrari mörk milli þeirra framkvæmda, sem njóta 75% framlags frá ríkinu, og hinna, sem njóta 40% framlags. Aðalbreytingin er fólgin í því, að bryggjur og viðlegukantar, sem áður nutu 40% ríkisstyrks, munu samkv. frv. njóta 75% ríkisstyrks. Samkv. upplýsingum Hafnamálastofnunarinnar hefur meðalframlag ríkissjóðs til hafnaframkvæmda, síðan núverandi lön tóku gildi, numið um og yfir 60%, á árinu 1973 nam það 63% og gæti raunveruleg kostnaðarþátttaka ríkissjóðs því hækkað úr því, sem það hæst hefur verið, 63%, og um það bil í 72–74%. Nokkuð er enn þá af framkvæmdum, þar sem ríkissjóður greiðir 40% af stofnkostnaði, og eru þar dráttarbrautir þýðingarmestar.

Önnur meginbreyting frv. er sú, að hafnabótasjóður verði nokkuð efldur frá því, sem verið hefur. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að framlag til sjóðsins nemi 12% af árlegum framlögum ríkissjóðs á fjárl. hverju sinni til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. En það ákvæði er síðan sett, að framlagið verði þó aldrei lægra en 25 millj, kr. Meginreglan er 12% af framlögum ríkisins á fjárl. til lendingarbóta og hafnarmannvirkja, en lágmarksupphæð 25 millj. Auk þess koma svo eigin tekjur hafnabótasjóðsins, en þær eru enn sem komið er fremur lágar. Þessar till. um breytingu á ríkisframlagi og eflingu hafnabótasjóðs mundu að áliti n., miðað við framlög á fjárl. ársins 1972, hafa í för með sér útgjaldaaukningu ríkissjóðs, sem næmi milli 30 og 35 millj. kr.

Í þriðja lagi má svo geta þeirrar breytingar, að með frv. er ákvæði til bráðabirgða og gert ráð fyrir því, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði af löngum lánum þeirra hafnarsjóða, sem verst eru settir. Þeir eru sannarlega ýmsir svo illa staddir fjárhagslega, að ég held, að hjá því verði ekki komizt. Þó að byrðar þeirra framvegis um þátttöku í gerð hafnarmannvirkja séu léttar verulega með frv., verður líka að gera ráðstafanir til þess að létta áfallnar byrðar, sem nú hvíla eins og mara á þeim mörgum.

Ástæða er kannske til að fara nokkru nánar í helztu breytingar samkv. frv. Þær eru í fyrsta lagi í 3. gr. Þar segir, að Hafnamálastofnun ríkisins hafi umsjón með hafnarframkvæmdum, sem styrktar eru samkv. þessum lögum. Hafnamálastofnunin skal hafa umráð yfir vélum þeim og tækjum, sem nauðsynleg eru til að annast þau verkefni, sem henni eru falin, svo og hafa í þjónustu sinni sérþjálfað starfslið. Ráðh. er heimilt, að fenginni umsögn hafnamálastjóra, að veita bæjar- eða sveitarfélagi leyfi til þess að hafa á hendi eigin hafnarframkvæmdir undir tæknilegu og fjárhagslegu eftirliti Hafnamálastofnunarinnar. Þarna er um verulegt nýmæli að ræða. Þá er og heimílt, eftir því sem hagkvæmt þykir, að einstakar hafnarframkvæmdir eða hlutar þeirra verði unnir af verktökum samkv. tilboði á grundvelli útboðs. Einnig þarna er um auknar heimildir að ræða frá því, sem verið hefur. Það er þó viðurkennt af flestum, sem til þessara mála þekkja, að útboð og framkvæmdir í hafnargerðum á ákvæðisgrundvelli séu ýmsum annmörkum háðar og geti þannig ekki orðið hin almenna framkvæmd, sökum þess að verktakar yfirleitt munu. í mörgum tilfellum ekki hafa þeim tækjakosti á að skipa, sem til slíkra framkvæmda er nauðsynlegur.

Nefndin aflaði sér upplýsinga um, hvaða sérhæfð tæki til hafnargerða væru í eigu hafnamálastjórnarinnar. Það eru ýmiss konar tæki, sem ekki eru almennt í eigu verktaka, og hygg ég, að menn fallist á það yfirleitt, að slík tæki verður hafnamálastjórnin að eiga og þar af leiðandi í ýmsum tilfellum að nota þau til framkvæmda samkv. reikningi varðandi hafnarbætur og hafnargerðir. Fyrir þessu er gerð grein á fskj. IV. Er þarna í fyrsta lagi um að ræða tæki til grjótvinnslu og neðansjávarsprenginga, loftþjöppur, bortæki, borvagna, grjótflutningsbíla, borðfleka og ýmiss konar lyftitæki, þ.e.a.s. stóra krana. Í öðru lagi eru tæki til rekstrar staura og þilja, stálþilja, loft- eða gufulóð, mismunandi stærðir, rammbúkkar, fallhamrar og lyftitæki ýmiss konar, einkanlega stórir vinnukranar. Þá eru það dýpkunartæki, sem verða að teljast til sérhæfðra tækja við hafnargerðir, stórir lyftikranar, grafskóflur, sanddæla. Það er ein sanddæla, sem hafnarstjórnin á, Hákur, fleki með grafkrana og grafskipið Grettir. Í fjórða lagi eru tæki til neðansjávarvinnu, svo sem köfunarbúningar og dælur, tæki til blöndunar köfunarlofts, afþrýstiklefi, köfunarhykli til djúpkafana, sérhæð verkfæri til neðansjávarvinnu, svo sem sjónvarpstæki og ýmiss konar önnur slík tæki. Þá á hafnamálastjórnin einnig vatnsdælur af mismunandi stærðum og gerðum og minni vélknúin smiðaáhöld til bryggjusmiða og margs konar mælitæki o.fl.

Ég hygg, að þessi tæki verði að vera í eigu hafnarmálastjórnarinnar, því að ólíklegt er, að einstakir verktakar útveguðu sér slík tæki. En þetta takmarkar auðvitað möguleika til almennra útboða í hafnargerðum, þó að menn kynnu að vilja hverfa að því sem meginreglu, og hygg ég því, að svo geti ekki orðið þrátt fyrir þær heimildir, sem þarna eru opnaðar til slíks í 3. gr. frv.

Þá er 7. gr. Í 7. gr. er ein af þeim meginbreytingum, sem ég gat um áðan, og er rétt að gera hv. þm. ljóst, hvað í þeirri gr. felst. Þar segir í fyrsta lagi, að ríkissjóður greiði 75% stofnkostnaðar af eftirtöldum hafnargerðum. Það eru öldubrjótar eða hafnargarðar, bryggjur og viðlegukantar, dýpkanir á aðalsiglingaleið að og frá höfn og á hafnarsvæði innan marka, sem ákveðin eru af rn., þó eru af bryggjum annarra en hafnarsjóðs. Nauðsynlegar uppfyllingar vegna framkvæmda við hafnargarða, bryggjur og öldubrjóta, siglingamerki. Innifalin í ofangreindum stofnkostnaði hafnargarða, bryggja og viðlegukanta er kostnaður við vatnslagnir um mannvirkin og raflýsingu þeirra samkv. nánari ákvæðum í reglugerðum. Þetta eru þær hafnarframkvæmdir, sem falla undir regluna um 75% framlag af hendi ríkissjóðs.

Þá eru það hinir þættirnir í hafnargerðum, sem falla áfram undir 40% regluna. Það eru dráttarbrautir, flot- og þurrkvíar, löndunarkranar, hafnsögubátar og hafnarvogir.

Þá eru í 10. gr., sem ein út af fyrir sig er III. kafli frv., allnokkur nýmæli. Þar segir, að hafnamálastjóri geri í samráði við hafnarstjórnir till. að áætlun um hafnargerðir til fjögurra ára í senn. Áður en gengið sé endanlega frá áætluninni, skuli hafnamálastjóri senda stjórn hverrar hafnar till. sínar um framkvæmdir á áætlunartímabilinu og gefa hafnarstjórninni nánar tiltekinn frest til að koma með aths. og brtt. Það er því ætlazt til, að það verði haft náið samráð við hafnarstjórnirnar, áður en fjögurra ára áætlunin um hafnarframkvæmdir er ákveðin. Hafnagerðaáætlunin skal miðuð við það fjármagn, sem ætlað er til hafnargerða í almennri framkvæmdaáætlun ríkisins, ef slík áætlun hefur verið gerð, en að öðrum kosti skal miða við það heildarfjármagn, sem líklegt er talið, að til ráðstöfunar verði til hafnarframkvæmda. Hafnargerðaáætlunin skal gerð á tveggja ára fresti og lögð fyrir Sþ. sem þáltill. Það er nýmæli og þykir þinglegra, að áætlunin komi fyrir þingið sem sérstakt þskj. Áætlun þessi skal öðlast gildi, þegar Alþ. hefur samþykkt hana. Hafnamálastjóri skal síðan vinna að framkvæmd áætlunarinnar í samráði við viðkomandi hafnarstjórnir og eftir því sem fjármagn er fyrir hendi. En ráðh. skal árlega leggja fyrir Alþ. skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar, áður en fjárveitingar eru ákveðnar fyrir næsta ár.

Í 13. gr. er ákveðið, að tekjum og eignum hafnarsjóðs megi einungis verja til hafnargerðar og rekstrar hafnar eða í þágu hennar og að hafnarsjóðir skuli vera undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða.

Þá vil ég aðeins rifja upp ákvæðin um hafnabótasjóð, en þau er að finna í 18.–24. gr. frv. og eru þessi hin helztu, — ég fer ekki í efni allra þessara gr., heldur aðeins meginefnið:

Þar segir í fyrsta lagi í 18. gr., að hafnabótasjóður sé eign ríkisins og lúti stjórn þess ráðh., sem fari með hafnamál. Fé hafnabótasjóðs má ráðstafa á eftirgreindan hátt, að fengnu samþykki fjvn. Alþ.: 1. Sjóðurinn veitir hafnarsjóðum lán til framkvæmda gegn ríkisábyrgð. 2. Sjóðnum er heimilt að styrkja endurbætur á hafnarmannvirkjum, sem skemmzt hafa af völdum náttúruhamfara eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, án mótframlags hafnarsjóðs. 3. Sjóðnum er heimilt að veita styrk til nýrra hafnarframkvæmda, sem nemi allt að 15% umfram ríkisframlagið af heildarframkvæmdakostnaði til staða, sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða vegna dýrrar mannvirkjagerðar eða fólksfæðar eða annarra gildra orsaka. Samkv. þessu er ýtrasta heimild til þess í einstökum tilvikum, að framlagið fari ekki aðeins í 75%, heldur 15% í viðbót, þ.e.a.s. upp í 90%. Sjóðnum er heimilt að veita hafnarsjóðum lán út á væntanleg ríkisframlög samkv. lögum þessum, ef fé er umfram þarfir 1.–3. liðar.

Þá segir enn fremur í 20. gr., að tekjur hafnabótasjóðs séu þessar: Árlegt framlag ríkissjóðs, sem sé 12% af framlagi til hafnarmannvirkja og lendingarbóta á fjárl. hvers árs, en þó aldrei lægra en 25 millj. kr., og í öðru lagi almennar tekjur af starfsemi sjóðsins.

Að öðru leyti fer ég ekki út í efni einstakra gr. Hv. þm. geta borið þetta frv. saman við gildandi hafnalög fyrirhafnalítið, að öðru leyti en því, að ég vil vekja sérstaka athygli á ákvæðunum til bráðabirgða. Þar segir, að gera skuli sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði af löngum lánum þeirra hafnarsjóða, sem verst séu settir, og skuli þá miða við lánin eins og þau eru, þegar lög þessi taka gildi. Við fjárlagagerð fyrir árið 1973 skal samgrn. gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni, og ráðh. skal gera till. til fjvn. Alþ. um skiptingu fjárins, og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarinnar eða til hafnarsjóðs og af fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafi áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins. N., sem undirbjó frv., taldi, að það væri ekki ástæða til að hafa þetta ákvæði í frv. sjálfu, þar sem búið væri með ákvæðum þess að létta þyngstu byrðar hafnarsjóðanna við hafnarframkvæmdir og færa þær að hluta yfir á ríkið, en þessar byrðar væru svo ofurþungar, að það yrði að gera bráðabirgðaráðstafanir til að létta þær með einhverjum hætti. Ég tel, að þýðingarmikið sé að finna rétta lausn á þessu samkv. bráðabirgðaákvæðinu með tilliti til þess fjárhagsástands, sem allmargir hafnarsjóðir búa nú við.

Þetta frv. er í 6 köflum, og fjallar I. kafli um yfirstjórn hafnamála. II. kafli um greiðslu kostnaðar við hafnargerðir o.fl., III. kafli um framkvæmdaáætlanir, IV. kafli um stjórn hafna og rekstur þeirra, V. kafli um hafnabótasjóðinn, VI. kafli um ýmis ákvæði, og svo er þarna ákvæði til bráðabirgða, sem ég var að enda við að gera grein fyrir efnislega. Frv. fylgja svo ein 5 fskj., sem gefa margvíslegar upplýsingar um efnahagslegt ástand hafnarsjóðanna, og verður að játa, að ef hv. alþm. kynna sér þær upplýsingar, munu þeir sjálfir sannfærast um, að það eru engar ýkjur hjá mér, þegar ég segi, að hafnarsjóðirnir séu í ýmsum tilfellum nálega gjaldþrota fyrirtæki eða örugglega það og liggja sem mjög þung byrði á sveitarsjóðunum í mörgum tilfellum, svo þunglega, að sveitarsjóðirnir geta, ýmsir þeirra, vart öðrum verkefnum sinnt og verða að láta hafnirnar sitja fyrir, því að þar er að finna grundvöllinn að atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga og ekkert undanfæri með að leggja fram fjármagn af ýtrustu getu og jafnvel umfram það til þess að sjá borgið nauðsynlegustu hafnarframkvæmdum. Þannig eru margir sveitarsjóðirnir nú staddir, að þeir ráða orðið ekkert við þær byrðar, sem lagzt hafa á hafnarsjóðina og hvíla nú orðið að verulegum hluta á sveitarsjóðunum líka.

Helztu tekjustofnar hafnanna eru vörugjöldin. Að meðaltall munu þau vera um helmingur af tekjum hafnanna. Að öðru leyti eru það lestagjöldin, bryggjugjöldin og hafsögugjöld, og ýmsar hafnir hafa tekjur af dráttarbrautum og öðrum eignum sínum. En megintekjustofninn er sem sé vörugjöldin í langflestum tilfellum. Sannleikurinn er sá, að hjá þeim höfnum, sem teknar eru í yfirlitið, sem þessu frv. fylgir, eru það 22.5 millj. kr., sem vantar á, að hafnirnar hafi fyrir beinum rekstrarútgjöldum og vaxtagjöldum af tekjum sínum, eða það vantar þarna fyllilega milli 13 og 14%, til þess að hafnirnar hafi að meðaltali fyrir beinum rekstrargjöldum, og er þá ekkert ætlað fyrir afskriftum eða afborgunum af lánum þeirra. Það vantar þarna mjög mikið fé, til þess að endar nái saman hjá höfnunum yfirleitt. Vitanlega er hagur þeirra mjög misjafn, og skal ég ekki fara út í það, það geta hv. þm. kynnt sér nánar, hvaða staðir eru þar verst staddir og hverjir aftur heldur skár. Niðurstaðan er þessi, að það er augljóst, að rekstrarafkoma hafnanna er mjög bágborin og tekjur þeirra hrökkva hvergi nærri fyrir beinum rekstrarútgjöldum og vöxtum, hvað þá fyrir afskriftum og lánaafborgunum.

Greiðslustaða hafnanna er líka mjög alvarleg. Heildarupphæð fastra lána, sem hvíla á höfnunum, er talin um 868 millj. kr. og afborganir af þeim á ári hverju um 86.8 millj. eða um það bil tíundi hlutinn. Þetta virðast því vera að meðaltali um 10 ára lán. Hér er eingöngu átt við föstu lánin.

Á bls. 17 á fskj. II er gerð grein fyrir því, hversu þungt afborganir af föstum lánum og vextir hvíli á sveitarfélögunum miðað við íbúatölu þeirra. Þar er svo komið á einum 7 stöðum, að miðað við einstakling, miðað við íbúa eru útgjöldin, sem hvíla á viðkomandi höfnum, um 4000 kr. á mann. Hæstur er barna Neskaupstaður með 4895 kr., nærri 5 þús. kr. á mann, og næstu staðir Bakkafjörður, Þingeyri, Þórshöfn, Bolungarvík og Eyrarbakki með um og yfir 4000 kr. á mann sem greiðslubyrði í viðkomandi byggðarlögum. Aðrir hafnarsjóðir eru skár staddir en þetta. Þarna er sem sé greiðslubyrðin orðin slík, að viðkomandi staðir fá ekki undir risið með neinu móti.

Ég hef áður gert grein fyrir því, hversu þunginn af afborgunum og vöxtum af föstum lánum hvílir þungt á höfnunum, en auk þess er þess að geta, að um 121 millj. kr. hvíla á höfnunum að auki sem skammtímalán og lausaskuldir. Og þar sem þessi lán á að greiða yfirleitt á þriggja til fjögurra ára tíma, eru afborganir af þessum lánum 30–40 millj. kr. á ári.

Ef á það er litið, hvort hagur hafnanna fari heldur batnandi eða versnandi, þá er því miður niðurstaðan sú, að yfirlit yfir það sýnir, að greiðslustaða hafnanna hefur farið versnandi ár frá ári, og það sýnir alvöru þessa máls í hnotskurn.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta hafnalagafrv., en ég vil láta þá eindregnu ósk í ljós, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, reyni allt hvað hún getur með góðu móti til að hraða afgreiðslu þess, því að það er hin fyllsta nauðsyn á því. Og ég hygg, að um það verði allir hv. þm. sammála, að þessi nýju hafnalög þurfi að geta tekið gildi með næsta fjárhagsári, og ef það á að takast, þurfum við að Ljúka afgreiðslu þess, áður en gengið er frá fjárl. Af þeirri ástæðu legg ég mjög þunga áherzlu á það að biðja hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hraða störfum sínum svo sem mest má verða og hún gæti með góðu móti.

Ég legg svo til. herra forseti, að þegar þessari umr. lýkur, verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.