16.11.1972
Efri deild: 14. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

77. mál, lántaka Fiskveiðasjóðs Íslands o.fl.

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 81 er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lántöku vegna Fiskveiðasjóðs Íslands. Hér er um að ræða. að Fiskveiðasjóður Íslands taki 10 millj. dollara lán og ríkið veiti sjálfskuldarábyrgð vegna þessarar lántöku.

Ástæðan til þess, að komið er með þetta mál hér á hv. Alþ., er sú, að fiskveiðasjóður hefur heimild til lántöku erlendis, en ekki með ábyrgð ríkissjóðs, nema fá hana sérstaklega, og í þessu tilfelli þarf að vera um sjálfskuldarábyrgð að ræða. Það er gert ráð fyrir að nota þetta lánsfé til að endurlána til kaupenda vegna togarasmiða erlendis. Kemur lán sjóðsins í stað þeirra erlendu lána til 8 ára, sem seljendur togara hafa yfirleitt látið í té. Hér er ekki um ný kaup á skipum að ræða, heldur það, sem áður hefur verið samþykkt, og kemur þessi ríkisábyrgðarheimild að þessu leyti í stað ríkisábyrgðar, sem ákveðin var á grundvelli l. nr. 28 frá 12. maí 1972. Ráðgert er, að hinum erlendu lánum fiskveiðasjóðs verði varið til greiðslu á 4/5 af kaupverði skipanna. Endurlán fiskveiðasjóðs til kaupendanna skiptast þannig, að 2/3 af kaupverðinu eru lánaðir samkv. reglum sjóðsins um lán þar að lútandi, en hinn hlutinn, upp að 4/5 af kaupverðinu, er veittur að láni skv. reglum, sem settar hafa verið þar um. Það er ekki gert ráð fyrir því, að fiskveiðasjóður veiti þeim kaupendum skipa, sem lán hljóta vegna þessara laga, nein sérstök hlunnindi. Þau verða eins og hjá öðrum kaupendum 8 ára lán, en lánstími fiskveiðasjóðs verður hins vegar 15 ára lán, svo að andvirði þess mun á seinni hluta lánstímans verða almennt notað í þágu fiskveiðasjóðs.

Þannig er þetta mál vaxið, að nauðsyn ber til að hraða því, vegna þess að möguleikar til lántökunnar eru nú fyrir hendi, og þarf að afgreiða málið næstu daga, enda er þegar farið að afhenda suma togarana, sem smíðaðir eru erlendis. Þess vegna leyfði ég mér að fara fram á það í gær í hv. Nd., að málið yrði afgreitt þar á þrem fundum, sem var og gert. Og ég leyfi mér að fara fram á það við hæstv. forseta og hv. dm. þessarar d., að þetta mál verði afgreitt héðan frá hv. d. í dag og verði þar með að lögum vegna þeirrar nauðsynjar, sem ber til þess að hraða því. En málið hefur ekki borið að fyrr en nú, svo að það hefur ekki af neinum annarlegum ástæðum verið dregið, heldur hefur það verið í athugun, og sú athugun lá fyrir í upphafi þessarar viku.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til. að máli þessu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.