16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

41. mál, úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins um ályktanir sveitarstjórna

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 43 hef ég leyft mér ásamt hv. 2. þm. Reykv. að flytja till. til þál. um endurskoðun laga varðandi úrskurðarvald félmrn., og annarra stjórnvalda um ályktanir sveitarstjórna. Gerir till. ráð fyrir því, að sérstaklega verði kannað, hvort ekki sé rétt og eðli málsins skv. að fela sérstökum dómstól að fjalla um tiltekin ágreiningsefni innan sveitarstjórna og ágreiningsefni einstakra aðila eða yfirvalda við sveitarstjórnir, sem nú er skotið til annarra stjórnvalda. Þá gerir till. ráð fyrir því, að skýrsla um athugun þessa verði lögð fyrir næsta Alþ., svo og frv. til l., sem athugunin þykir gefa tilefni til, að samin verði.

Í grg. með þessari till. er gerð ítarleg grein fyrir því, með hvaða hætti þessum málum er nú skipað. Stjórnlagalega byggist skipan þessara mála á 76. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir:

„Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.“

Á grundvelli þessa ákvæðis stjórnarskrárinnar hefur verið sett hin fjölþætta löggjöf varðandi sveitarfélög og starfsemi þeirra. Orðin „með umsjón stjórnarinnar“ í áðurnefndri grein stjórnarskrárinnar hafa verið túlkuð með þeim hætti, að þau gæfu löggjafanum vald til þess að ákveða, hvernig hægt sé að fara með ágreining, sem upp kann að rísa innan sveitarstjórnanna svo og á milli sveitarstjórnanna og einstaklinga varðandi ákvarðanir sveitarstjórna eða stjórnvalda skipaðra eða kosinna af sveitarstjórnum.

Þegar löggjöf varðandi þessi málefni hefur verið sett á Alþ., hefur ætíð verið tilhneiging til þess að halda úrskurðarvaldi um allan ágreining hjá því rn., sem fer með sveitarstjórnarmál eða stjórnvöldum ákvörðuðum af rn. Ekki hefur þar verið gerður greinarmunur á því, hvort ágreiningsefnið er risið út af matsatriðum, þ.e. skoðunum sveitarstjórnarmanna, m.a. stjórnmálalegum, eða hvort ágreiningsefnið fjallar um löggjafaratriði. Við setningu löggjafar, er varðar sveitarstjórnarmálefni, ber ætíð að hafa í huga, að sveitarstjórnirnar eru kjörnar í almennum kosningum. Þær sækja því umboð sitt til fólksins til ákvarðana um staðbundin málefni, en ætla verður, að þeir, sem kjörgengi hafa til hinna ýmsu sveitarstjórna, hafi betri þekkingu til að dæma um þau mál heldur en fjarlægt stjórnvald, auk þess sem sveitarstjórnarmenn eru í vaxandi mæli kjörnir pólitískum kosningum og því óeðlilegt, að stjórnmálalegar ákvarðanir þeirra sæti gagnrýni og verði jafnvel hnekkt af öðru pólitískt kosnu stjórnvaldi.

Með fjölþættari löggjöf um málefni sveitarfélaga hlýtur að verða vandasamara að kveða á um lögmæti stjórnvaldsathafna sveitarstjórna og reyndar óeðlilegt, að þar kveði upp úrskurð aðilar, sem jafnan hafa undirbúið löggjöfina, og því ekki hlutlausir og oft og tíðum aðilar, sem enga sérmenntun hafa á sviði lögskýringa né reynslu í meðferð dómsmála.

Ég skal ekki hér gera neina tilraun til þess að færa rök fyrir réttmæti þessa máls eftir þá reynslu, sem fengizt hefur af þeirri löggjöf, sem gilt hefur um þessi mál hér hjá okkur. Fjölmargir úrskurðir hafa verið upp kveðnir, og ef farið væri hér að gagnrýna eða mæla með, mundi það að sjálfsögðu ekki verða gert með öðrum hætti en að sitt sýndist hverjum, og sjálfsagt væru fjölmörg atriði, sem við yrðum ekki sammála um, t.d. um úrskurði, sem kveðnir hefðu verið upp. Suma er hægt að gagnrýna, og um suma hægt að segja, að þeir séu af pólitískum toga spunnir. Einmitt til þess að forðast allt þetta, sýnist okkur flm. eðlilegra, eins og málin hafa þróazt, að matsatriði verði meira en hingað til leidd til lykta af þar til kjörnum fulltrúum fólksins, þ.e.a.s. sveitarstjórnarmönnum, en ágreiningi um lagaatriði verði unnt að skjóta til óháðs úrskurðaraðila, sem starfi eftir reglum, er greiði fyrir sem skjótustum úrslitum mála.

Í nágrannalöndum okkar hefur þróunin orðið sú, sem hér er lagt til. að hún verði hjá okkur. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till. Ég legg til. herra forseti, að henni verði vísað til hv. allshn. og umr. verði frestað.