16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 47 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um, að ríkisstj. verði falið að undirbúa útgáfu lagasafns, sem verði í lausblaðabroti og verði bundið með þeim hætti, að áskrifendur lagasafnsins geti framvegis fengið ný lög og lagabreytingar, sem felldar hafa verið inn í viðkomandi lög, sérprentaðar á lausum blöðum, svo að stöðugt verði fyrir hendi fullkomið, handhægt lagasafn fyrir lærða sem leika.

Eins og sjá má af þessari till., er hér ekki um stórpólitískt málefni að ræða, heldur fyrst og fremst vandamál. sem er tæknilegs eðlis, en þó vissulega vandamál, sem snertir æðimarga, bæði þá, sem fást við löggjöf og lögfræði hvers konar, alþm. og lögmenn, dómara og embættismenn, og þá auðvitað ekki siður allan almenning, sem verður að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um það, hvað eru lög og hvað ekki á hverjum tíma.

Lagasafnið hefur verið gefið út með 10 ára millibili síðustu áratugina. Síðast var það gefið út 1964 og þar áður 1954. Það er segin saga, að lagasafnið er ævinlega orðið úrelt, þegar það er gefið út, og vantar í það venjulega marga tugi nýsettra laga, a.m.k. er venjulega ekki liðinn langur tími frá því að Íagasafnið kemur út og þar til það er orðið gersamlega úrelt og erfitt að notast við það. Það er að vísu svo, að þau lög, sem bætzt hafa við, eru finnanleg í Stjórnartíðindum og menn geta því flett þar upp, en í þessu er fólgin mikil vinna, og það er ekki nóg að hafa Stjórnartíðindin við höndina, heldur verða menn helzt að hafa Alþingistíðindin líka til þess að geta áttað sig á því, hvað kynni að hafa verið samþykkt í þinginu um viðkomandi efni.

Eins og nefnt er í grg., eru þess jafnvel dæmi, að alvarleg mistök hafi átt sér stað við uppkvaðningu dóma, vegna þess að þannig stóð á, að hvorki dómarar né viðkomandi lögmenn höfðu áttað sig á því, hvernig lögum hafði verið breytt. Ég held, að það blasi beint við, að fyrirkomulag á þessum hlutum er alger óhæfa og að útgáfa lagasafnsins þarf að komast í það horf, að notendur þess geti jafnóðum fengið í hendur uppprentanir á lagagreinum, hvort heldur það eru ný lög eða lög, sem breytt hefur verið, og bætt þeim jafnóðum inn í safnið. Menn kynnu að spyrja að því, eins og oft vill vera á erfiðum tímum, sem menn oftast hafa fyrir sér í fjárhagslegum málefnum, hvort þetta kunni ekki að vera allmiklu dýrara fyrirkomulag en það, sem nú er í gildi. Ég held, að ég geti leyft mér að fullyrða, að þetta fyrirkomulag væri þvert á móti að mörgu leyti einfaldara og ódýrara. Það er svo, að samþykkt lög eru nú sérprentuð sérstaklega á vegum Alþingis og síðan endurprentuð á vegum rn. og birt í Stjórnartíðindum, og ég held, að allt bendi til þess, að endurskipulagning mundi leiða til einföldunar og sparnaðar auk þess mikla hagræðis, sem að þessu yrði.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því og leggja það til, að till. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.