16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. sambandi við þessa þáltill. vil ég upplýsa, að nýtt lagasafn er væntanlegt á næsta ári og þá að sjálfsögðu í sama formi og tíðkazt hefur. Eins og hv. flm. drap á, var síðasta lagasafn gefið út 1964 eða 1965, þannig að það munu nú ekki líða full 10 ár á milli þess, að nýtt lagasafn birtist. Ég geri ráð fyrir því, að þetta nýja lagasafn verði tilbúið fljótlega eftir áramótin. Prentun er langt komin, og það ætti að verða tilbúið, að ég vona, í febrúar eða marz á næsta ári, ef engin óvænt forföll koma til.

Þetta nýja lagasafn er prentað í 2800 eintaka upplagi, og er því að sjálfsögðu gert ráð fyrir því eins og áður, að það muni endast um nokkurn tíma. Það er svo, að útgáfa lagasafns er talsvert mikið fyrirtæki og þó nokkuð dýrt. Þannig er t.d. áætlaður prentunarkostnaður við þetta væntanlega lagasafn 2 millj. 732 þús. kr. og bókband á 1500 eintökum, sem gert er ráð fyrir að binda í fyrstu lotu, mundi sennilega kosta um 1.4 millj. Annar kostnaður við útgáfu þessa lagasafns verður væntanlega ekki undir 500 þús., þannig að útgáfukostnaður verður væntanlega um 4.5 millj. kr.

Nú er það svo, að þó að lagasafn sé mjög nytsamleg bók, er það ekki meðal þeirra bóka, sem seljast með allra mesta móti, enda munu nokkuð margir fá það ókeypis, þannig að hætt er við, að það verði nú eins og áður talsverður halli á útgáfunni.

Upp í þessa útgáfu hafa verið tekin lög til vorsins 1971, og það er gert ráð fyrir því, að í viðbæti við síðara bindi safnsins, — væntanlega verður það í tveimur bindum, eins og síðasta lagasafn var, — geti komið lög ársins 1972, þannig að vonir standa til þess, að þetta lagasafn geti, þegar það birtist, verið nokkuð svarandi til tímans.

Það er auðvitað rétt, eins og hv. flm. sagði, að lagasafnið verður alltaf fljótlega úrelt, vegna þess að á hverju Alþ. eru samþykkt ný lög og gerðar lagabreytingar, og þær er að finna í Stjórnartíðindum. Hafi menn ekki þá siðvenju að leiðrétta lagasafn sitt jafnóðum samkv. Stjórnartíðindum, getur það verið rétt, eins og hann sagði, að erfitt sé að átta sig á því, hverjar breytingar hafi verið gerðar.

Í þessari þáltill. er stungið upp á breyttu skipulagi á þessu, sem reyndar er ekki óþekkt annars staðar og getur vissulega komið til athugunar í framtiðinni, þó að mér sýnist, að það verði naumast tímabært alveg á næstunni vegna þess, hvernig stendur á, að nýtt lagasafn er alveg að koma út. Ég er á nokkuð annarri skoðun en hann um, að það verði tiltölulega lítill kostnaðarauki við þessa útgáfu í þessu formi. Ég er hræddur um, að slíkri útgáfu í lausblaðabroti, sem þyrfti þá stöðugt að vera að vinna að, fylgi allmikill aukakostnaður. Ég gæti satt að segja hugsað mér, að það yrði hreint og beint verkefni fyrir skrifstofu að sjá um það, ef þetta ætti að gerast alveg eftir hendinni.

Ég held, að það sé út af fyrir sig ágætt, að þessi till. er komin fram og þessi málefni verði athuguð. Ég held nefnilega, að það sé tímabært að taka til skoðunar lög, sem heita „lög um birtingu laga og stjórnvaldaerinda“ og lög um útgáfu lagasafns. Það er svo, að Stjórnartíðindi eru gefin út á hverju ári, eins og menn vita og þekkja, nú orðið í þremur deildum, A-deild, B-deild og C-deild, og þessi útgáfa er líka nokkuð kostnaðarsöm. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að sumt t.d. í útgáfu B-deildarinnar sé orðið nokkuð úrelt og á eftir tímanum, þannig að þar sé að finna talsvert efni, sem ekki á eiginlegt erindi inn í árlega útgáfu slíka sem Stjórnartíðindin, t.d. alls konar reikningar, sem þar eru birtir, og jafnvel ýmis konar fyrirmæli tiltekinna aðila. Það kann að vísu að orka tvímælis, hvað eigi að birta þar og hvað ekki. En það eru stofnanir hjá okkur, sem gefa út allmikið af alls konar fyrirmælum árlega, t.d. siglingamálastjóri. Ég nefni það bara sem dæmi. Það getur verið spurning, hve mikið af slíkum fyrirmælum, sem vita að nokkuð sérstökum aðilum, á erindi inn í slíka almenna útgáfu, og þannig hygg ég, að sé um fleira, sem tekið er upp í þessa útgáfu. Aftur á mótí eru t.d. þál. ekki birtar í þessu safni Stjórnartíðinda, en ég get vel hugsað mér, að sumar þál., sem fara frá Alþ., séu þess eðlis og snerti menn þannig almennt, að þær ættu erindi inn í slíka almenna útgáfu. Ég held sem sagt, að það sé full ástæða til þess að taka þessi mál til athugunar.

Ég vil ekki á þessu stigi lýsa neinni ákveðinni skoðun á þessari lausblaðaútgáfu. Ég átta mig ekki algerlega á því, hvernig hún kæmi út, það er, eins og hv. flm. sagði, tæknilegt atriði, og hvort það er hugsað að hafa safnið þannig að kippa út blöðum með úreltu efni og stinga inn nýjum, eftir því sem við á. En til þess að slíkt megi gerast, þurfa menn að vera nokkuð vel heima í þessum efnum, þ.e.a.s. ef þetta á að gerast eftir efnisniðurröðun, sem væntanlega er átt við. Það má vel vera, að þetta sé framkvæmanlegt, en ég held, að það mundi verða talsverð fyrirhöfn og kostnaður samfara þessari útgáfu. En það, sem mér finnst, að gæti komið til athugunar og gæti e.t.v. náð að einhverju leyti þeim tilgangi, sem vakir fyrir hv. flm., er, að það væri gefið út árlegt registur yfir þau lög og lagabreytingar, sem samþykkt hafa verið á árinu, og fært inn á tilsvarandi staði í registrinu, sem fylgir lagasafninu. Það held ég, að gæti orðið viðráðanlegra, en auðveldað mönnum þetta allt saman.

Það, sem ég hef hér sagt, ber ekki að skoða út af fyrir sig sem nein andmæli við þessari þáltill. Ég vildi aðeins upplýsa, hvernig á stendur nú um útgáfu lagasafnsins, og enn fremur benda á það, að mér þykir full ástæða til þess að taka þau ákvæði, sem að þessu lúta, til endurskoðunar. Auðvitað má segja, að stjórnin geti gert það að eigin frumkvæði, en e.t.v. væri ekkert fráleitt að breyta þessari þáltill. í það form að fela stjórninni að láta fara fram athugun eða endurskoðun á öllum þessum ákvæðum, sem hér að lúta, og þá m.a. taka til athugunar það sjónarmið, sem þarna er sett fram.