16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

45. mál, lagasafn í lausblaðabroti

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Mér finnst hér vera hreyft athyglisverðu máli. Hins vegar vil ég ekki dæma um, hvort það sé framkvæmanlegt að breyta lagasafninu í það form, sem þarna er hreyft. Auðvitað er það svo, að svo að segja strax eftir að lagasafn hefur verið gefið út verður það að einhverju leyti úrelt, því að lögum er venjulega breytt á hverju þingi. Eftir 10 ár verður þetta lagasafn fjarri því að gefa rétta hugmynd um þá löggjöf, sem þá er í gildi. En það var nú eiginlega ekki þetta, sem ég ætlaði að ræða, en ég veitti því athygli, að hæstv. forsrh. gat þess, að nokkuð væri sent út ókeypis af upplagi lagasafnsins, og var mér reyndar kunnugt um, að svo mundi vera. En í því sambandi vildi ég spyrjast fyrir um, hvort hreppstjórum landsins sé sent safnið á þennan hátt, ókeypis. Ég hygg, að svo sé ekki eða hafi a.m.k. ekki verið fyrir skömmu. En ég vil stinga upp á því, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar, taki það til athugunar um leið, hvort ekki væri ástæða til þess, að hreppstjórum í landinu væri sent lagasafnið ókeypis. Allur þorri þeirra manna, sem gegna hreppstjórn, gegnir því starfi sem aukastarfi og fær fyrir það litla greiðslu, en starfið hefur hins vegar í för með sér mikla fyrirhöfn. Ég hygg að vísu, að þessir starfsmenn fái Stjórnartíðindi, en það er nokkuð tafsamt fyrir önnum kafna menn við önnur störf að kynna sér löggjöf í Stjórnartíðindum. Þess vegna vil ég í fyrsta lagi spyrjast fyrir um það, hvort þetta sé orðið svona, að hreppstjórar fái lagasafnið ókeypis, en ef svo er ekki, þá vil ég biðja n. að athuga, hvort ekki væri ástæða til, að það yrði gert eftirleiðis.