16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

49. mál, stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Þáltill. shlj. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 51, var flutt á síðasta þingi, og gerði ég þá allítarlega grein fyrir málinu og tel mig því ekki þurfa að hafa um það langa framsögu nú.

Ég vil undirstrika það, sem fram kemur í grg. með till., að í 6. gr. laga þeirra um fiskvinnsluskóla, sem samþykkt voru hér á Alþ. hinn 2. apríl 1971, er beinlínis ákveðið, að stofnaður skuli fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum. Þar segir svo, eftir að ákveðið hefur verið um stofnun skóla á Suðvesturlandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þess skal stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara samkv. 1. og 2. tölul. 2. gr.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á, að hér er ekki um heimild að ræða til stofnunar fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, heldur er hér um að ræða ákvörðun Alþingis, sem fortakslaust mælir fyrir um stofnun slíks skóla á þessum stað. Þegar þetta er athugað, verður að telja, að hér sé aðeins um framkvæmdaratriði fyrir hæstv. menntmrh. að ræða, sem honum beri að fullnægja samkv. ákvæði gildandi laga, og lítil afsökun sé fyrir því, að frekari dráttur verði á framkvæmd málsins en orðið hefur.

Ég held, að það sé orðið tímabært, að stjórnvöld landsins og allur almenningur geri sér grein fyrir, hver staða þessara mála raunverulega er. Allir vita og viðurkenna, að fiskiðnaðurinn er stærsta iðngrein landsmanna og sú, sem skilar þjóðarbúins langsamlega stærstum hluta af þeim erlenda gjaldeyri, sem því er nauðsynlegur til að halda hér uppi eðlilegu menningarþjóðfélagi. En meðan svo er enn, að Íslendingar fluttu út svo að segja allar sjávarafurðir sínar sem óunnið hráefni til úrvinnslu fyrir aðrar þjóðir, má segja, að ekki hafi verið eins aðkallandi að veita því fólki, sem vann við framleiðslu sjávarafurða, sérstaka uppfræðslu eða almenna menntun ag sérhæfingu í hinum einstöku greinum framleiðslunnar. En sem betur fer hefur orðið hér veruleg breyting á. Íslendingar eru í vaxandi mæli farnir að fullvinna sjávarafurðir sínar til útflutnings, og fiskiðnaðurinn er orðinn, eins og ég sagði áðan, stærsta iðngrein landsmanna. Þegar á þetta er litið, er næsta furðulegt, að allt fram að síðasta ári skuli enginn skóli hafa verið til í landinu, sem veitir uppfræðslu eða sérmenntar fólk til starfa í þessari iðngrein. Ég ætla engan að ásaka í þessu sambandi. Þessi iðngrein hefur einfaldlega orðið útundan í fræðslukerfi landsmanna langt umfram aðrar smærri iðngreinar, sem vissulega hefur í mörgum tilfellum verið séð vel fyrir hvað fræðslu og sérhæfingu snertir.

Þegar þetta er athugað, held ég, að það liggi alveg ljóst fyrir, að skjótra úrbóta er þörf á þessu sviði og stofnun fiskvinnslu- eða fiskiðnskóla sem viðast um landið sé þjóðarnauðsyn og það sé á engan hátt hægt að afsaka eða draga það lengur að stofna til þeirra skóla, eins og t.d. þess í Vestmannaeyjum, sem Alþ. hefur þegar fyrir meira en ári tekið ákvörðun um, að stofnaður skyldi.

Ég veit satt að segja ekki, hvort allir hv. alþm. gera sér grein fyrir, hvað þetta mál er aðkallandi eða hvernig við raunverulega stöndum í þessum efnum í dag. Allir vita, að skólakerfi landsins hefur á undanförnum árum verið endurbætt mjög verulega, bæði að því er almenna menntun varðar og einnig iðnmenntun, og ekki sízt hefur fræðslukerfið verið bætt fyrir það unga fólk, sem vill stunda framhaldsnám í bóklegum fræðum og sérhæfa sig til starfa í hinum ýmsu starfsgreinum þjóðfélagsins. En eins og kunnugt er njóta þeir, sem langskólanám vilja leggja á sig, verulegs stuðnings þjóðfélagsins í formi styrkja og námslána, og er sannarlega ekki nema allt gott um það að segja, á meðan þjóðfélagið hefur efni á því.

En það sorglega við þetta er, að í þeirri framþróun, sem orðið hefur í fræðslumálum landsmanna, hefur stærsta iðngrein þeirra, fiskiðnaðurinn, orðið algerlega út undan og það svo, að ungt fólk, sem í þessa iðngrein vill fara, á nær engra kosta völ. ef það vill afla sér aukinnar uppfræðsla eða menntunar. Ég segi alveg hiklaust, að þetta atriði hefur orðið fiskiðnaðinum og um leið sjávarútveginum í heild til verulegs tjóns að því leyti, að með hverju árinu sem líður verður erfiðara og erfiðara að fá fólk til starfa í þessari iðngrein. Verða þeir mest varir við þetta, sem eitthvað fást við þessi mál og bezt þekkja til þeirra. Og því miður er það svo, að það er beinlínis í vaxandi mæli farið að nota störfin við fiskvinnsluna sem keyri á börn og unglinga og við þau sagt, að ef þau ekki herða sig við lesturinn í barna- og unglingaskólum og nái góðum árangri, þegar til landsprófs kemur, lendi þau bara í frystihúsi eða til sjós. Ég tel þennan hugsunarhátt þjóðfélagslega séð hættulegan, þar sem frekara fráhvarf starfsfólks en orðið hefur í þessari starfsgrein hljóti óhjákvæmilega að leiða til samdráttar í útflutningsverzlun okkar og þjóðartekjum og að yfirbygging þjóðfélagsins verði undirstöðinni ofviða, sem aftur mundi leiða til erfiðleika, sem e.t.v. verður erfitt að ráða fram úr. Það segir enginn við unglinga í dag, að ef þeir standi sig ekki við námið, endi þeir bara í einhverri iðngrein, rafvirkjun; vélvirkjun eða sem hárgreiðslunemar eða annað slíkt, svo að einhverjar iðngreinar séu nefndar. Enda þurfa þessar iðngreinar ekkert að kvarta, þær fá, sem betur fer, nægilegt af ungu fólki til náms og starfa. Þetta á aðeins við í sambandi við fiskvinnsluna. Og við sjávarsíðuna er það fiskvinnslan, sem fyrst og fremst hefur orðið samdráttur í, hvað það snertir að fá starfsfólk og alveg sérstaklegu ungt starfsfólk. Stóraukin vélvæðing hefur fram að þessu bjargað því, að ekki hefur skapazt hreint öngþveiti hjá þessum atvinnuvegi. En vélvæðingin er komin á það stig hjá flestum fiskvinnslufyrirtækjum, að ekki er hægt að reikna með því, að þau geti í framtíðinni með aukningu á þessu sviði bætt sér upp síminnkandi aðsókn vinnuafls, eins og því miður lítur nú út fyrir, að verða muni, ef engin breyting verður á frá því, sem hvað til úrbóta sé.

Mér er ljóst, að hér er við allramman reip að draga, en tel alveg hiklaust, að Alþingi og stjórnvöld verði að marka þá stefnu, að því unga fólki, sem í framtíðinni vill leggja fram starfsorku sína í þágu fiskiðnaðarins, verði sköpuð sama aðstaða og því unga fólki, sem í aðrar iðngreinar vill fara, þannig að fiskiðnaðurinn geti í framtiðinni, eins og margar aðrar iðngreinar, byggt afkomu sína á faglærðu og ófaglærðu fólki, sem við fiskiðnaðinn vinnur, og að þeir aðilar, sem eytt hafa tíma og fjármunum í aukna þekkingu og sérmenntun, fái það bætt með hærra kaupgjaldi, eins og á sér stað hjá öðrum iðngreinum. Þetta mundi að mínum dómi verða hagur beggja aðila, bæði vinnuveitenda og verkafólks. En þetta gerist ekki, nema sköpuð verði aðstaða til aukinnar þekkingar og menntunar fyrir það fólk, sem starfa vill í þessari iðngrein, til jafns við þá aðatöðu, sem það nú í dag á kost á, ef það hefur hug á að fá að starfa hjá öðrum iðngreinum. Og ég tel, að stofnun fiskvinnsluskóla bæði í Vestmannaeyjum og þar annars staðar, sem eðlilegt getur talizt, að til þeirra verði stofnað, sé raunverulega spor í rétta átt.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að sú n., sem fær till. til meðferðar, taki hana til rækilegrar athugunar, því að ég held. að það liggi alveg ljóst fyrir, að ef við eigum að ná því marki, sem við erum öll sammála um að stefna að, — en það er að gjörnýta og gjörvinna allar sjávarafurðir okkar, eins og frekast er kostur á, — verði að fullnýta ákvæði laganna frá 1971 um fiskvinnsluskóla, bæði að því er varðar stofnun þeirra tveggja skóla, sem lögin gera ráð fyrir, að stofnaðir skuli, þ.e. á Suðvesturlandi og í Vestmannaeyjum, og einnig heimildarákvæði laganna um undirbúning að stofnun fiskvinnsluskóla annars staðar á landinu. Ef það verður ekki gert, er mikil hætta á, að sjávarútvegurinn og fiskvinnslan verði ekki fær um að gegna í framtíðinni því hlutverki, sem henni nú er ætlað, en það er að standa undir verulegum hluta af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og þjóðartekjum. Og fari svo, er mikil hætta á, eins og ég sagði áðan, að margt fari úrskeiðis í því velferðarþjóðfélagi, sem við á undanförnum árum höfum verið að byggja upp hér á landi og erum sammála um að viðhalda í kannske enn ríkara mæli í framtíðinni.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til. að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn. Sams konar till. var í fyrra vísað til fjvn., og þar sem ákvæði það, sem hér er um rætt, um stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, er þegar orðið að lögum, þá tel ég, að það sé eðlilegt, að þessi þáltill. fari til fjvn. Ég legg ríka áherzlu á, að n, reikni með stofnun fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum á næsta hausti og hún taki tillit til þess við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1973.

Ég skal að lokum geta þess, að í Vestmannaeyjum er aðstaða bæði til bóklegrar kennslu, ef skólinn yrði stofnaður, og eins til verklegrar kennslu. Það, sem hefur skeð frá því að till. var flutt í fyrra, er, að aðstaðan hefur enn batnað að því leyti, að nú í haust hefur eins og kunnugt er, verið stofnuð þar Rannsóknastofa fiskiðnaðarins, sem starfar í fullu samráði við Rannsóknastofu fiskiðnaðarins í Reykjavík. Ég tel, að það sé nauðsynlegur þáttur í sambandi við rekstur fiskiðnskóla, að slík stofnun sé á staðnum eða fiskvinnsluskóli eigi greiðan aðgang að slíkri stofnun.