16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

56. mál, rækju- og skelfiskleit fyrir Norðurlandi

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. varaþm. Sjálfstfl. í Norðurl. v., Eyjólfi Konráð Jónssyni, sem átti sæti hér á Alþ. fyrir skömmu, að flytja till. til þál., er varðar rækju- og skelfisksleit fyrir Norðurlandi. Þessi till. er birt á þskj. 59 og er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram skipulega leit að rækju- og skelfiskmiðum fyrir Norðurlandi.“

Eins og okkur er kunnugt, hefur rækjuveiði og vinnsla úr þeirri sjávarafurð verið mikilsverð atvinnugrein lengi, og þó að svo hafi raunar ekki verið víðs vegar um landið hefur hún verið það á einstökum svæðum alveg sérstaklega á Vestfjörðum, svo sem við Ísafjarðardjúp og í Arnarfirði og nú á síðari árum raunar viðar á landinu. Hefur þessi atvinnugrein stuðlað að mikilli atvinnu og gefur af sér verðmæta útflutningsvöru. Nú á síðari árum hefur skelfiskveiði og vinnsla úr skelfiski verið stunduð í vaxandi mæli og er að verða snar þáttur í atvinnulífi ýmissa staða á landinu. Á Norðurlandi hafa þessar atvinnugreinar fram að þessu ekki verið mikið stundaðar, en þó hefur rækjuveiði og vinnsla úr rækju verið veruleg búbót í sjávarplássum, t.d. við Húnaflóa. Þar hefur og verið um nokkra skelfiskveiði að ræða og einnig í Skagafirði.

Ég hef orðið var við, að það er álit margra manna, að þessa atvinnugrein megi auka til verulegra muna á Norðurlandi. En það, sem hefur á skort, er, að engin skipuleg leit hefur verið gerð að þessum verðmætum. Það hefur aðeins verið leitað að rækju og skelfiski á einstökum svæðum á stuttan tíma í einu, en aldrei um lengra tímabil, hvað þá að þessi leit hafi verið skipulögð þannig, að hún næði yfir nokkur ár. Þessar tiltölulegu litlu og óskipulegu tilraunir til leitar, sem gerðar hafa verið, hafa þó bent til þess, að líkur séu á, að verulegt magn af rækju og skelfiski sé að finna fyrir Norðurlandi. Það má á það benda, eins og drepið er á í grg. fyrir þessari till., að Árni heitinn Friðriksson fiskifræðingur benti á það þegar árið 1930, að mikið magn af rækju og skelfiski mundi vera í sjónum fyrir Norðurlandi. Það er því álit okkar flm., að ekki megi lengur dragast, að hafin verði skipuleg leit að þessum náttúruauðæfum og þau hagnýtt eftir því, sem skynsamlegt verður talið.

Það verður að teljast eðlilegast, að Hafrannsóknastofnunin vinni að verkefninu, sem þessi till. fjallar um. Þó að þessi stofnun hafi á undanförnum árum unnið mikið og gott starf að því er varðar fiskileit, leit að nýjum fiskimiðum og hagnýtingu fiskimiða, er það skoðun okkar, að skipuleggja þurfi enn betur starfsemi þessarar stofnunar og varðandi rannsóknir og verkefni þurfi stofnunin að gera séráætlun, sem nær til lengri tíma. Ég leyfi mér að minna á, að á Alþ. var samþykkt 5. apríl 1971, svo hljóðandi þáltill., að því er ég held shlj. sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera þriggja ára áætlun um haf- og fiskirannsóknir við Ísland, enn fremur um fiskileit, veiðitilraunir og aðra slíka þjónustu við fiskveiðiflotann. Áætlunin sé gerð af Hafrannsóknastofnuninni í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna. Áætlunina skal leggja fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má.“

Hv. 1. þm. Austf., sem hreyfði þessu máli á þingi árið 1970, beindi nú fyrir skömmu þeirri fsp. til hæstv. sjútvrh., hvað liði framgangi þessarar þáltill. Af svari hæstv. ráðh. virðist mér mega ráða, að lítið sem ekkert hefði verið gert enn sem komið væri til þess að hrinda þessari þáltill. í framkvæmd, og það tel ég miður farið. Hefði verið unnið að því að framkvæma þessa þáltill., sem þingið samþykkti einróma og ætlaðist til, að unnið yrði að, mætti e.t.v. segja, að óþarfi hefði verið að flytja till. eins og þessa, sem hér er til umr. Ég vænti þess þó, að hv. alþm. taki þessari till. okkar vel og að hún verði til þess að ýta á eftir framkvæmd samþykkta, sem þingið hefur gert áður um áþekkt efni og þessi till. fjallar um.

Ég hef ekki þessi orð fleiri, herra forseti, vísa til grg. með till. og legg til, að umr, verði frestað og till. vísað til hv. atvmn.