16.11.1972
Sameinað þing: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

56. mál, rækju- og skelfiskleit fyrir Norðurlandi

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins til þess að lýsa fyllsta stuðningi mínum við þessa till. um rækju- op skelfisksleit fyrir Norðurlandi. Ég tel, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða og raunar grundvallarstörf fyrir mörg, einkum minni byggðarlög. Langtímaáætlun sem þessi er áreiðanlega mjög góður grundvöllur til þess að renna styrkari stoðum undir atvinnulíf fjölmargra staða á þessu landssvæði, en það er einmitt það, sem hefur vantað, því miður. Ég tel, að það hafi verið gert allt of lítið að því að vinna að leit að nýjum miðum. Það hefur sýnt sig í mörgum tilfellum, þar sem þetta hefur verið gert, og ekki hvað sízt, eins og hv. frsm. nefndi, við Húnaflóa, að þetta hefur orðið veruleg lyftistöng fyrir atvinnulífið á stöðunum. Mér finnst satt að segja, að það megi ekkert til spara að koma þessari leit í reglulega gott horf, og það hygg ég, að sé einmitt bezt gert með því að gera langtímaáætlun í þessu skyni. Ég vil því lýsa fullum stuðningi mínum við till. og vona, að hún verði samþykkt og síðan framkvæmd eftir samþykktinni.