20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

79. mál, hafnalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held, að allir þeir, sem um þetta mál hafa fjallað, séu á einu máli um, að í 7. gr. hafnalagafrv., eins og hún er nú orðuð, felist veruleg rýmkun frá gildandi hafnal. Hér segir, að nú skuli ríkissjóður greiða 75% stofnkostnaðar við bryggjur og viðlegukanta, svo og siglingamerki. Hingað til hefur verið litið svo á, að 75% ákvæðið gilti einungis um þá hafnargarða, sem væru öldubrjótar og útmannvirki hafna, og hefur það, hvort greiða ætti 75% til annarra mannvirkja, ekki valdið ágreiningi, svo að mér sé kunnugt um, nema þegar um hefur verið að ræða viðlegukanta innan á öldubrjótum, sem samkv. gildandi hafnal. eiga að njóta 75% framlags, hvort það ætti þá að reikna undir 75% framlag einnig það mannvirki, sem kæmi innan á öldubrjót. En samkv. frv. verður 75% framlag frá ríkinu án tillits til þess, hvort viðlegukantarnir eru í sambandi við öldubrjót eða ekki, hvort sem þeir ern við ytra eða innra mannvirki hafnar, þá verða viðlegukantar nú undir 75% ákvæðinu. Þetta er í raun og veru ein meginbreyting þessa frv., sem færir fjárhagslegar byrðar yfir á ríkið frá sveitarfélögunum og gerir það alveg öruggt, að allar bryggjur og viðlegukantar falla nú undir 75% regluna, en ekki var talið áður, að svo væri, nema þegar um var að ræða öldubrjóta sem útmannvirki hafna.