20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

79. mál, hafnalög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með síðasta hv. ræðumanni, að hér er vissulega um stórt og viðamikið mál að ræða og það stefnir í átt til hagræðis fyrir sveitarfélögin, ef stjórnvöld hafa fjármagn til þess að standa undir þeim aukna kostnaði, sem ríkissjóður með frv. tekur á sig miðið við fyrri og gildandi lög.

Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að lesa frv. eins ítarlega og ég gjarnan hefði viljað og ekki heldur að kynna mér till. Hafnasambandsins, en hef þó farið yfir frv. og staldrað við nokkrar gr. þess. Mér sýnist, að enn eimi of mikið eftir af þeim anda, sem var í því frv., sem lagt var fyrir Alþ., ef ég man rétt, 1967 eða 1988, og þá mjög að því stefnt að draga sem mest valdið frá sveitarfélögunum og hinum einstöku hafnarstjórnum og færa það yfir til vitamálaskrifstofunnar. Þá var að vísu mjög dregið úr þessum ákvæðum við afgreiðslu málsins hér, bæði í þeirri n., sem þá hafði það til meðferðar, — ef ég man rétt, var það sjútvn., — og eftir að það kom hingað inn í d. til 2. og 3. umr. Þó tel ég, að því miður sé enn of mikið eftir af þeim anda, að vitamálaskrifstofan eigi að taka á sig raunverulega alla forsjá hafnanna.

Ég vil benda á það, að t.d. í 3. gr. er ákvæði um það, að bæjar- og sveitarfélög og hafnarstjórnir þurfa að sækja nm leyfi til ráðh. og fá fyrir því samþykki hafnamálastjóra, að þær megi sjálfar framkvæma þær hafnarframkvæmdir, sem ákveðnar hafa verið. Það má vel vera, að þetta sé nauðsynlegt á einstaka stöðum, ef hafnarstjórnir hafa ekki aðstöðu til þess að vinna þær framkvæmdir, sem þær vilja láta gera í sínu sveitarfélagi. En a.m.k. er mér kunnugt um það, að á einstaka stöðum á landinu hafa hafnarstjórnirnar þá aðstöðu og eru það vel búnar tækjum, að þær geta mjög vel tekið að sér yfirleitt allar framkvæmdir, sem gera þarf í höfninni. Ég tel því, að það sé ástæðulaust að binda þetta eins ákveðið og gert er í frv., að það skuli endilega þurfa að fá leyfi viðkomandi ráðh. og leyfi hafnamálastjórnar til að annast þær framkvæmdir, sem báðir þessir aðilar eru fyrirfram búnir að samþykkja, því að það liggur ljóst fyrir samkv. gildandi l. og einnig samkv. þessu frv., að hafnarsjóðir þurfi að fá samþykki beggja þessara aðila, ef um styrkhæfar framkvæmdir er að ræða. Við það tel ég ekkert að athuga. Það er að mínum dómi eðlilegt, að um styrkhæfar framkvæmdir gildi sú regla, að viðkomandi aðilar, yfirstjórn þessara mála, þurfi að veita samþykki sitt fyrir þeim. En um framkvæmdir gildir að mínum dómi annað. Þar á það að vera alveg á valdi hafnarstjórna, hvort þær vilji sjálfar annast þessar framkvæmdir, bjóða þær út eða æskja þess, við Hafnamálaskrifstofuna, að hún annist framkvæmdirnar.

Þá benti hv. 8. landsk. þm. á það, að úr 7. gr. hefði verið felld niður ein framkvæmd, sem áður var styrkhæf samkv. gildandi hafnal., en það eru verbúðir, og er þetta rétt. Ég tel, að það sé mjög hæpið að gera slíka breytingu nema skoða málið mjög vel áður.

Ég flutti á næstsíðasta þingi till. um það, að holræsi innan hafnarsvæðisins yrðu tekin upp sem styrkhæfur liður samkv. hafnal. Sú till. náði þá ekki fram að ganga.. og var helzt bent á það sem rök mótí því, að þetta væri hreinlega mál sveitarstjórna, en kæmi hafnarstjórnum lítið við. Nú hafa að mínum dómi mál skipazt þannig, að ég tel, að þetta sé orðið mjög eðlilegt. Eftir að menn fóru almennt að átta sig á þeirri mengun, sem alls staðar á sér stað nú orðið og mikið er um rætt, bæði á legi, landi og í lofti, þá er það orðið mjög eðlilegt, að það verði gert beint átak í mörgum höfnum landsins til þess að koma holræsakerfinu út úr höfnunum. Ég tel því, að það sé full ástæða til þess, að einmitt þetta atriði verði tekið beint inn í hafnalög, að slíkar framkvæmdir verði gerðar styrkhæfar, því að þetta er vissulega orðið mikið vandamál hjá mörgum höfnum, hvernig á að gera þær hreinar, hafa sjóinn þar ferskan og hreinan, eins og hann gæti verið að mestu leyti, ef holræsakerfin enduðu ekki víðast úti í höfnunum.

Þá er það 10. gr., sem ég staldraði við. Þar er gert ráð fyrir því, að hafnamálastjóri geri, að vísu í samráði við hafnarstjórnir, till. um eða áætlun um hafnarframkvæmdir til fjögurra ára í senn. Ég hefði talið viðfelldnara, að hver höfn fyrir sig gerði þarna sínar eigin till. um framkvæmdir og þyrfti þá auðvitað að hlíta samþykki og viðurkenninga hafnamálastjóra og viðkomandi rn., eins og þær reyndar þurfa samkv. öðrum ákvæðum laganna, ef um styrkhæfar framkvæmdir er að ræða. Ég tel alveg hiklaust, að heimamenn á hverjum stað viti bezt, hvar skórinn kreppi að, og þeir geti gert þar mjög gagnlegar ábendingar, þó að Hafnamálaskrifstofan tæki síðan við að útfæra hugmyndir og gera um þær kostnaðaráætlun, sem hún hlyti að gera, ef um styrkhæfar framkvæmdir er að ræða. En frumkvæðið tel ég, að sé eðlilegt að hafa heima í héraði hjá hverri einstakri höfn, þaðan komi hugmyndirnar um uppbyggingu hafnanna. Ég tel, að forsvarsmenn margra hafna hafi á bak við sig áratugareynslu í sambandi við hafnarmannvirki í sínu byggðarlagi og hafi við þessa reynslu vissulega orðið mjög til þess hæfir að koma fram með ábendingar um, hvernig þeir telja, að málum sé bezt farið á hverjum stað.

Þá er það í 12. gr., þ.e. í næstsíðustu mgr., að gjöld til hafnarsjóðs samkv. 1. tölul. a–d skuli ákveðin af rn. Þetta er ekki svo, ef ég man rétt, í gildandi hafnal. Þar eru það hafnarstjórnirnar sjálfar og sveitarstjórn, sem gefa út gjaldskrár, sem auðvitað þurfa staðfestingar rn. Ég vil ekki taka þetta atriði úr höndum hafnarstjórna eða sveitarstjórnarmanna, og ég er satt að segja ekki vis, um, að þessu verði öðruvísi betur fyrir komið, því að ég held, að það verði ekki gefin út ein allsherjargjaldskrá fyrir allar hafnir á landinu. Ég hygg, að aðstaða í höfnum sé svo mismunandi, að það verði að vera mat heimamanna, hvað þeir vilja leggja til um gjaldskrá fyrir hina ýmsu þjónustu á sínum stað. Ég hygg, að það færi bezt á því og að það sé ekki eðlilegt að draga þetta úr höndum sveitarstjórnarmanna, þar sem það er nú, og færa það yfir um til stjórnvalda hér í höfuðborginni.

Þá er í 16. gr. ákvæði um, að óheimilt sé án samþykkis rn. að selja eða veðsetja eða leigja eignir hafnarsjóðs, þær sem notið hafa ríkisstyrks. Ég tel, að þetta þurfi nokkuð að skoðast betur, og mundi hafa kosið, að annað orðalag hefði verið á þessu. Það getur vel verið, að þarna sé eðlilegt, að nokkurt eftirlit sé með, en að binda það jafnfast um allar smærri og stærri eignir hafnarsjóðanna eins og gert er í þessari gr., það tel ég ekki eðlilegt og tel, að það mætti betur fara, ef gr. yrði nokkru frjálslegar orðuð gagnvant aðstöðu hafnarstjórna og sveitarstjórna en gert er ráð fyrir í frv.

Í kaflanum um hafnabótasjóð er að finna í 19. gr., að stjórn hans skuli heimilt að veita styrki til nýrra hafnarframkvæmda, sem nemi allt að 15% umfram ríkisframlag, til staða, sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða vegna dýrra hafnarmannvirkja, eða af annarri gildri orsök. Með þessu ákvæði getur ríkisframlagið, skilst mér, orðið allt að 90%, ef um vissar framkvæmdir er að ræða. Það er auðvitað matsatriði, hvað ríkisvaldið eða stjórnvöld treysta sér til þess að leggja mikið fé fram til einstakra framkvæmda. En ég staldraði við þetta ákvæði um sjóðinn. Mér er tjáð, að það sé fjvn., sem sé í sambandi við stjórn hafnarbótasjóðs, — ég er ekki kunnugur því en mér er tjáð, að svo sé, — en þá kemur þarna vissulega til mjög viðkvæmt matsatriði, hvaða hafnir umfram aðrar eiga að heyra undir þennan 3. tölul., sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Ég held því miður, að það sé þannig, að flestallar, ef ekki nær allar hafnir á landinu utan Reykjavíkurhafnar eigi við fjárhagsörðugleika að stríða, jafnvel þær hafnir, sem hafa háar gjaldskrár og áður hafa um langt árabil getað staðið undir skuldbindingum sínum með þeim gjöldum og eftir þeirri gjaldskrá, sem þar hefur verið. Ég hygg, að þannig sé komið hjá mörgum þeirra, að vegna verðlagshækkana, sem hafa orðið örari kannske en breytingar á gjaldskránum, séu flestar hafnir á landinu komnar í þá aðstöðu, að það sé hægt með fullum rökum að segja, að þær eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Þarna yrði því beint maísatriði stjórnar sjóðsins, sem er þá fjvn., að taka út einstakar hafnir og gera þær styrkhæfar að 90%, miðað við 75% hjá öðrum höfnum, og hygg ég, að þar geti orðið um mjög vandasamt verk að ræða, ef réttilega ætti á því máli að halda og fullnægja réttlætinu í öllum atriðum. Þetta orðalag er einnig tekið upp í bráðabirgðaákvæði frv., þar sem gera skal sérstakar ráðstafanir til þess að létta greiðslubyrði. Þar er talað um hafnir, sem eru verst settar. Þetta kemur fram einnig í bráðabirgðaákvæðinu, og gildir um það alveg það sama, sem ég sagði um 15% aukaframlagið, að þetta hlýtur að verða matsatriði og að mínum dómi mjög erfitt matsatriði, ef fullnægja á öllu réttlæti í þessu sambandi.

Ég vil svo nota tækifærið og leiðrétta hér það, sem segir í grg. með till. um 3. gr., næstsíðustu mgr., þar sem sagt er, að „í mörgum tilvikum er hins vegar um framkvæmdir að ræða, sem krefjast sérhæfðs tækjakosts, svo sem dýpkunarskipa á borð við Gretti og Hák, sem hérlendis eru einungis í eigu Hafnamálastofnunarinnar“. Þetta er ekki rétt með farið. Það eru einstaka hafnir úti á landi sem eiga dýpkunarskip og hafa átt þau í 40 ár, svo að það má heita næsta furðulegt, að þetta skuli hafa farið fram hjá þeim aðilum, sem frv. sömdu og áreiðanlega hafa verið í mjög nánu sambandi við Hafnamálastofnunina. Ég vil leiðrétta þetta atriði, sem er mjög mikilvægt í sambandi við uppbyggingu hafnanna. Það á ekkert að vera til fyrirstöðu hjá einstaka höfnum, að þær geti að öllu leyti unnið að þeim hafnarframkvæmdum og framkvæmt þær hafnarframkvæmdir, sem ráðnar hafa verið. Ég vil geta þess t.d., að umfram Reykjavík, sem heyrir ekki undir þessi lög, er t.d. Vestmannaeyjahöfn, sem á og hefur átt um áratuga skeið öll tæki til hugsanlegra framkvæmda á þeim stað. Hún hefur byggt sig þannig upp, að hún þarf ekkert til annarra að sækja, hvorki með dýpkun hafna né rekstur á járni í hafnirnar eða að öðru leyti, þannig að hún er fullfær um að hafa á hendi allar þær framkvæmdir, sem þar kunna að verða ákveðnar í framtíðinni.

Ég vildi sem sagt við þessa 1. umr. láta þessar aths. við einstakar gr. frv. koma fram, en mun skoða það betur, hvort ég tel ástæðu síðar til að flytja beinar brtt. við einstakar greinar, sem vel má verða, þegar ég hef kynnt mér málið nánar.