20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

79. mál, hafnalög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, en út af orðum, sem mér heyrðist hv. síðasti ræðumaður láta falla, sýnist mér það mjög eðlilegt, að gerð sé allsherjaráætlun um hafnargerð í landinu, enda langt síðan það kom á dagskrá að gera slíka áætlun. Og ég held, að það mætti vel vera til athugunar á næstu rímum að breyta hafnalögunum nokkuð til samræmis við vegal., án þess að ég fari að útlista það nánar, hvað ég á við með því.

Ég get tekið undir mjög margt af því, sem hv. 7. landsk. þm. sagði hér áðan um fjárhag hafnanna eða hafnarsjóðanna. Hann er víða mjög bágborinn og auðséð, að ýmsir hafnarsjóðir og þeir sennilega nokkuð margir geta alls ekki staðið undir þeim skuldbindingum, sem á þeim hvíla, a.m.k. ekki á næstunni. Hitt er hugsanlegt, að þeir tímar komi, þegar hlutaðeigandi byggðarlög eflast og atvinnulíf þeirra, að þarna verði breyting á. En ég tel það mjög til bóta, sem í frv. er um aðstoð við hafnarsjóði, sem eru sérstaklega illa staddir. Og fleira er í þessu frv. til bóta.

Hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur hér núna, — en út af því, að gert er ráð fyrir aðstoð til hafnarsjóða, þá vil ég spyrjast fyrir um það og get þá alveg eins spurzt fyrir um það hjá þeim, sem fjallað hafa um þetta mál í n. eða unnið að undirbúningi þess, hvað þýði 4. tölul. 6. gr. frv., en þar stendur, að eitt af skilyrðunum fyrir greiðslukostnaðarhluta ríkissjóðs og ábyrgð ríkissjóðs á láni samkv. 5. gr. sé, að fyrir liggi athugun á því, hvort hafnarsjóður geti staðið undir greiðslu eigin kostnaðarhluta, hvort sem er í formi framlags eða greiðslna af lánum. Hvað þýðir þetta skilyrði? — Hæstv. ráðh, er nú mættur hér. Hvað þýðir þetta skilyrði, sem sett er í 6. gr. frv. fyrir greiðslu kostnaðarhluta ríkissjóðs og ábyrgð, að fyrir skuli liggja athugun á því, hvort hafnarsjóður geti staðið undir greiðslu eigin kostnaðarhluta, hvort sem er í formi framlags eða greiðslna af láni. Ég vona, að það þýði ekki, að það eigi að útiloka þær hafnir, sem hafa ekki eins og sakir standa möguleika til að standa undir þessum byrðum. En skilyrðið getur náttúrlega þýtt annað, og það væri gott að fá skýringu á því, hvað skilyrðið þýðir.

Það er nú svo, að þó að það sé nauðsynlegt að aðstoða illa stæða hafnarsjóði og ýmsar aðrar umbætur, sem þetta frv. felur í sér, þá verða menn að gæta að því að taka ekki allt of margar tegundir af framkvæmdum inn í hafnalögin. Hafnal. eiga fyrst og fremst að vera um hafnir, um uppbyggingu hafna og rekstur þeirra, en ef farið er að taka inn í lögin t.d. íbúðabyggingar, eins og einu sinni var í lögum, þá getur það haft þær afleiðingar, að það fé verði minna, sem til sjálfrar hafnargerðarinnar kemur, og líka nokkur vandi að koma í veg fyrir, að slík framlög verði misnotuð, sannast að segja. Þess vegna finnst mér, að það eigi að greina glögglega á milli þess, sem í raun og veru eru hafnarframkvæmdir, og annarra hluta, sem líka geta verið góðir, en á þá að leysa á annan hátt. Ef á að taka inn í hafnalög fjárframlög til annarra framkvæmda, sem eru höfnunum meira og minna óviðkomandi, þá er það ekki hafnagerð í landinu til framdráttar, heldur þvert á móti.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svar við spurningu, sem ég kom fram með hér áðan, að vísu óformlega. Það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að í 7. gr. frv. er um rýmkun að ræða á þeim ákvæðum, sem nú gilda. En spurningin, sem ég lagði fram, var varðandi greiðslur út á viðlegukanta, sem byggðir hafa verið innan á öldubrjóta. Í lögum eru ákvæði um, að út á öldubrjóta skuli greiða 75%, en nokkur ágreiningur um það, hversu skilja beri ákvæði l. um það, ef byggður er viðlegukantur innan á öldubrjótinn. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei verið í neinum vafa um þetta og lét það koma fram, þegar þetta mál var til umr. fyrir nokkrum árum, að það ætti einnig að greiða 75% á viðlegukant. Nú er mér kunnugt um, að þetta var til umr. jafnvel árum saman í samgrn. og það áður en núv. hæstv. ráðh. tók við, og ég veit ekki betur en að á það hafi verið fallizt að greiða á nokkrum stöðum 75% út á viðlegukanta, sem hafa verið byggðir innan á öldubrjóta. Og ég get tilgreint þá staði, því að mér er kunnugt um þá. Þetta hef ég skilið svo, að rn. hafi að lokum fallist á lögskýringu okkar, sem vorum þeirrar skoðunar, að greiða ætti 75% út á viðlegukantana, sem byggðir væru innan á öldubrjótana. En hafi ekki verið felldur úrskurður um þetta almennt hjá rn., þá hafa einhverjir undarlegir hlutir gerzt aðrir, sem verður þá að athuga á öðrum vettvangi. Ég held, að þetta hafi verið svona, að rn. hafi fallizt á það, að lögskýring mín og ýmissa annarra á 6. gr. núgildandi laga um greiðslu út á viðlegukantana hafi verið rétt. En það má vera, að hæstv. ráðh., sem ekki er nú búinn að stjórna rn. mjög lengi, hafi ekki fengið upplýsingar um þetta mál frá öndverðu.